Af og til eyði ég löngum tíma í það eitt að vera bitur og reiður, nú er einmitt eitt svoleiðis tímabil… þannig að hér ætla ég að fá útrás:
-Hverjir aðrir en ég hata að vera foringjar?
-Hverjir aðrir en ég elska skátalíf en eru ekki að fá eins mikið út úr því og þeir ættu og vildu fá?
-Hverjum örum en mér finnst íslenska skátahreyfingin óspennandi?
-Hverjir aðrir en ég dýrka nostalgísku hugmyndirnar í Scouting for Boys og vildu að skátarnir væru þannig?
-Hverjir aðrir en ég eiga í love/hate sambandi við skátana?
-Hverjir aðrir en ég fengu lélega eða enga skátaæsku og þurftu að verða foringjar allt of ungir?
-Hverjir aðrir en ég eru löngu orðnir þreyttir á börnum?
Ég þrái það heitast í öllum heiminum að mega bara
vera skáti sem iðkar alvöru skátastarf, lærir gagnlega hluti, leikur sér, fer í útilegur, stundar útivist, upplifir ævintýri, kann sniðuga hluti, reddar sér, er lífsglaður, kynnist fullt af skemmtilegu og flippuðu fólki og man síðan eftir öllum góðu dögunum og skemmtilegu útilegunum. Mér líður eins og það sé ekki þannig. Ég er bara einhver foringi yfir 11 ára börnum. Ekkert annað. Og það lélegur foringi í þokkabót.
Er ég óraunsær? Set ég mér of háar væntingar? Er ég kannski full nostalgískur? Er ég sjálfselskur og óþakklátur fyrir það sem ég hef þó fengið? Er ég blindaður af rómantískum hugmyndum um ómögulegan veruleika? Eða eiga þessar þrár fullan rétt á sér?
Um daginn fékk ég einhvers konar “gráan skátafiðring” (en þessir fiðringar hafa verið algengir síðastliðin misseri). Ég sá og fattaði að ég hafði ekki stundað nærri eins mikið og gott skátastarf og ég gæti hafa gert… og ætti að hafa gert . Ég fattaði um leið að ég hafði mjög lítinn tíma til stefnu. Ég þurfti að hysja upp um mig brækurnar og fara að stunda almennilegt og skemmtilegt skátastarf áður en það yrði um seinan. Áður en ég yrði fullorðinn. Ég er nefnilega að verða 18 ára gamall, en það þýðir að ég mun brátt verða einn af þessum “fullorðnu skátum” sem eru ekki alvöru skátar heldur bara foringjar, skipuleggjendur og starfsfólk. Það er mín versta martröð. Ég hef í alvöru vaknað öskrandi eftir slæman draum um akkuratt þetta. Mér líður eins og ég sé fastur á eyðieyju og skátalíf er sjórinn í kring: Nóg af vatni, en ég get ekki drukkið það. Mér líður eins og æska mín sé að gufa upp.
Þetta var þunglyndur og hallærislega skáldlegur lokasprettur en þú veist… Kannski er ég of mikill Pétur Pan. Kannski var þessi grein alveg fáránlega gay í ykkar augum, en mér er sama, ég er farinn að fljúga út um gluggann minn.