Byrjum á að fara yfir það sem er allra heitast í sumar:
Það heitasta í sumar er extraléttur öndunarfatnaður, oft kallað 1.5 laga. Þessi fatnaður er svo léttur og lipur að maður verður að taka hann af herðatrénu í búðinni til að finna hversu léttur hann er. Herðatréð er nefnilega margfallt þyngra.
Ofurléttir svefnpokar eru líka klárlega inn í sumar. Þeir mega helst ekki vera þyngri en svona 900 gr. En samt vera nógu hlýir fyrir íslenskar aðstæður. Sem sagt, pokinn verður helst að vera með dún.
Suttbuxur og kvartbuxur eru einstaklega svalar. Og þá á ég ekki við stuttar stuttbuxur, heldur stuttbuxur sem ná allavega niður á hné hjá herrunum og eitthvað aðeins styttra hjá dömunum. Þessar buxur verða að vera veglegar, hafa vasa, beltalykkjur, rennilás og alles. Svona eins og göngubuxur sem er búið að klippa neðan af. Mæli eindregið með þeim.
Og svo kemur listi yfir annað sem er inn, en kannski ekki það allra heitasta:
Soft-shell jakkar
Ull - hvort sem er sokkar eða nærföt.
Merino - ull í sokka
Windpro fleece - 80-90% vindhelt fleece án filmu
Tevur – verða alltaf inn
Bjánalegar húfur
Aðsniðnar fleece peysur – sérstaklega 66North
Tvískiptar göngubuxur
Boxer og naríur úr gerviefnum
Oklay og Ray Ban sólgeraugu
Göngustafir (stillanlegir, stafgöngu/kraftgöngustafir eru bara fyrir malbiksfólk, ekki alvöru útivistarfólk)
Léttir göngustrigaskór
Hvað er út? Þetta er nú svipað og það sem var út í vetur (sleppi þó því sem á ekki við sumarið)
Windstopper – er á mörkum þess að vera dottið úr tísku
Power-strech nærföt – heldur svitanum ekki nógu vel úti
Samfestingar
Hlífaðarbuxur í skærum litum
Rússkinsskór
Gallabuxur
Lopapeysur – kannski í tísku, en alls ekki í útivistartísku
Fóðraður utanyfir fatnaður
Flíssokkar
Illa sniðnar flíspeysur
Bómull – bara eins og hún leggur sig
2-laga öndunarföt – ágætt innanbæjar
Derhúfur með beinu deri
Skyrtur
Legghlífar (ekki kúl á sumrin, tilgangslaust)
Engin ný heit merki hafa skotið upp kollinum, svo ég sleppi bara að lista merkin.
En mig langar aðeins að koma inn á klippingar og þess háttar, þó það sé nú ekki útivistarbúnaður, en það hefur vissulega mikil áhrif á heildarlúkkið.
‘Farmers tan’ er klárlega inni, sólarbekkjar brúnka er alveg úti. Maður á að vera brúnn í framan en hvítur á maganum. Tevuför eru reyndar alltaf inni líka, en þau verða að vera ekta.
Málaðar stelpur eru alveg úti í sumar, eins og alltaf hefur verið í útivistinni. Hér er það náttúrulega fegurðin sem blífur.
Snoðklippingin er eldheit, hefur ekki verið svona heit lengi. Einnig þykir skegg frekar flott nú í sumar. En ótrúlegustu menn eru komnir með brodda.
Og aftur; hafið í huga, að ef dótið úr efnum frá Gore, Scholler, Polartech og fleiri þekktum framleiðendum, þá er dótið venjulega gott.
Baldur Skáti