Þetta verður skátamót sumarsins; létt og erfitt, ódýrt og umfram allt skemmtilegt!
Engu er lofað með veðrið, enda skiptir það engu máli! Þó að ég geri persónulega ráð fyrir blíðu.
Skipulagning mótsins er vel á veg komin. Þema þess er “Þrír þættir, einn strengur” og er dagskráin og mótsvinnan unnin eftir því. Hinir þrír dagskrárþættir eru: Ungu skátarnir, dróttskátarnir og eldri skátar, þar sem eru engin aldursmörk.
Mótsgjald hefur verið ákveðið kr. 2.800.-
Innifalið í því eru: Mótsmerki, mótsbók, mótsblað, aðgangur að allri dagskrá og ferðir til og frá Viðey frá Sundahöfn. Landnemar hafa lagt sig í líma við að halda þessu verði niðri.
Landnemar vilja helst sjá skáta frá öllu landinu, þótt áherslan sé lögð á skáta frá Reykjavík og nágrenni.
Mótið verður sett fimmtudaginn 22. júní kl. 22 og verður megindagskrá á föstudegi, laugardegi og fyrripart sunnudags.
Fátt jafnast á við það að koma á skátamót í Viðey. Eyjan hefur ótrúlega margt skemmtilegt að geyma, þó hún sé innan borgarmarkanna er hún samt úti í sveit. Hápunktur mótsins; bryggjuballið er eitthvað sem engin skáti ætti að láta fram hjá sér fara, stemmingin er þvílík!
Við sjáumst öll í Viðey daganna 22.-25. júní næstkomandi. Þið þurfið ekki að taka góða skapið með, því það kemur sjálfkrafa um leið og þið stígið fæti á eynna.
Baldur Skáti