Ágætu skátar

Nú stendur til að Orkuveita Reykjavíkur og Klasi reisi 700 lóða frístundabyggð við Úlfljótsvatn, eða með öðrum orðum eru fyrirætlanir um að byggja 700 sumarbústaði við vatnið vestanvert.

Þetta mun vægast sagt þrengja mjög að skátunum og öllu þeirra starfi á svæðinu. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að stór hluti túnanna þar sem landsmót hafa verið haldin undanfarin ár fari undir þessa byggð, sumarhúsabyggð sem verður á stærð við Hveragerði! Auk þess munu skátarnir að öllum líkindum missa aðstöðuna við Fossá, þar sem ylfingamótin eru haldin ár hvert, og til stendur að reisa skolphreinsistöð við kirkjuna sem dælir hreinsuðum skít út í vatnið.

Eins og þetta sé ekki nóg þá erum við að tala um lóðir í einkaeign, svo skátarnir geta kvatt þann tíma þegar þeir máttu labba hvert sem er í nágrenni vatnsins. Auk þess mun fólk sem fjárfestir í þessum lóðum fara í bústaði sína til að njóta rólegheita, og munu þá væntanlega kvarta undan söng og látum sem vilja oft verða fylgifiskar skátamóta.

Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur málið á eftirfarandi síðu:

http://ulfljotsvatn.blog.is/blog/ulfljotsvatn/

Skátar Íslands stöndum vörð um Úlfljótsvatn, ef ekki fyrir skátamiðstöðina sem komið var á fót við landnám skáta þar árið 1940, fyrir svæði sem skátahreyfingunni var úthlutað með munnlegum samningi fyrir mörgum árum (sem var því miður aldrei færður á svart og hvítt), þá fyrir Bernskuskóg og lífríkið sem mun gjörspillast í kjölfar þessara framkvæmda!

Munið, þessar framkvæmdir eru óafturkræfar, nú er tími til aðgerða!