Eftir að allir höfðu svo vaknað, ferskir og endurnærðir í morgunsárið á miðvikudeginum, var hafist handa við að súrra saman góðar trönur og að því loknu var hengirúmi smellt upp í samstarfi við frændur vora Norðmenn og var það mikið notað af léttari hluta fólksins (það hélt ekki þeim þyngri). Eftir hádegismat var svo farið í ratleik, sem hlýtur að hafa gengið vel því allir fóru ánægðir í háttinn.
Á fimmtudeginum komumst við í fánaathöfn, það náðist ekki á miðvikudeginum sökum ferðaþreytu. Eftir afar staðgóðan morgunverð var ráðist í að taka til í tjöldunum og síðan kom að þeim stóra viðburði hjá hverjum skáta, tjalbúðaskoðun. Gekk hún með ágætis príði, ekkert rusl á svæðinu og allir mjög fínir og vel girtir. Eftir það fóru skátarnir spenntir í flokkunum í valdagskrá sem var uppá marga fiska.
Svo eftir þennan líka fína hádegismat var haldið áfram að stunda valdagskrána og síðan var farið í frjálsan tíma sem sumir hverjir notuðu til að safna stimplum fyrir súperskátamerkinu sem bar heitið ”Orkuboltinn”. Gaman er að taka það fram að þónokkrir frá okkur náðu að safna því sem þurfti til að fá Orkuboltamerkið og hlotnaðist því mótsstjórn sá heiður að afhenda þeim einstaklingum þetta merki.
Síðan var komið að kvöldverði sem var náttúrulega samansettur af forrétt, aðalrétt og eftirrétt.
Um kvöldið var farið á torgadagskrá þar sem sýnd voru mörg góð skemmtiatriði og mikið sungið. Eftir það fóru allir að halla sér nema dróttskátarnir(unglingarnir) sem skemmtu sér fram undir morgun.
Föstudagurinn var mjög svipaður að því leiti að fólk vaknaði, borðaði og fór í valdagskrá. Eftir hádegi fóru allir aftur í valdagskrá. Þegar það var búið fóru flestir að reyna að fá stimpla fyrir Orkuboltann en fólk var misduglegt og voru nokkrir eftir í tjaldbúðunum í sólbaði. Um kvöldið var svokallaður kvöldmatur og þar á eftir hinir mikilfenglegu hálandaleikar, leikar þar sem keppt er í ýmissi vitleysu s.s. hjólböruralli, reiptogi, dvergahaldi, stígvélasparki o.s.fr.v.. Eftir þessa bragðgóðu skemmtun var kvöldkaffi og að lokum fóru allir sælir og sáttir í háttinn.
Á laugardeginum fengum við að sofa út, ræs var ekki fyrr en klukkan níu, gallinn var að sólskinið var svo mikið (jafnvel meira en hina dagana sem þó var nóg) að allir voru löngu vaknaðir. Þennan daginn var engin opinber tjaldbúðaskoðun en þar sem Ísfirðingar eru alltaf svo flottir og þetta var nú heimsóknardagurinn, fullt af fólki væntanlegt, svo allir tóku til í tjöldunum sínum.
Klukkan ellefu var síðan komið að fánaathöfn og eftir fána var farið í að kynna fyrir okkur hvenig við ætum að útskýra apelsínuklukkuna okkar (allir áttu að hafa eitthvað með sér að heiman til að sýna öðrum mótsgestum) sem hafði verið útfærð af rafvirkjanum okkar Henry Bæringssyni og gekk það vel.
Hafði fólk gaman af því að skoða klukkuna okkar og fannst umhverfisráðherranum þetta sniðugt og er hún nú örugglega með allt fullt af appelsínusafa heima hjá sér og lætur allt ganga fyrir safanum góða og ekki er það verra að ef þú tímir ekki að nota hann til raforku þá geturu notað hann í annað eins og til þess að svala þorsta. Klukkan var til sýnis allan daginn. Á meðan hún sýndi sig fórum við í vatnasafaríið til að kæla okkur, hitta fjölskylduna, gæða sér á heilsteiktu nauti eða bara hvað sem hugann lysti. Eftir það var svo komið að yndislegum kvöldmat, a la Henry, sem rann ljúflega niður hvers manns háls. Þegar allir voru orðnir mettir, og ef til vill búnir að vera það í smástund, þ.e. klukkan 20:30 komu allir sér fyrir á hátíðasvæðinu fyrir aðalvarðeldinn sem var í þann mund að hefjast. Ákaflega mikil stemmning myndaðist, að sjálfsögðu, (enda ávallt stemmning hjá skátum) og söngurinn og undirspilið glumdi langt fram eftir kvöldi. Klukkan tíu lauk söngnum og meðfylgjandi skemmtiatriðum og dansleikur, þar sem ofurskvísurnar í stúlknabandinu Nylon sungu fyrir dansi, hófst. Þar var yngsta kynslóðin og kynóðir unglingspiltar mjög áberandi. Eftir nokkra stund höfðu Nylon stúlkurnar lokið sér af og við tók svakalegt diskótek við og nutu þar margir sín vel þangað til að því lauk á meðan aðrir „rökræddu“ við önnur skátafélög.
Sunnudagurinn hófst á lúðrablæstri sem framinn var í þeim tilgangi að fá örþreytta skáta á lappir og í fánaathöfn. Eftir að hafa bölvað Svönum í sand og ösku fyrir að hafa hirt tjaldbúðaverðlaunin var morgunverður á borð borinn. Þá hófst hin venjubundna dagskrá fram að hádegi. Eftir hádegi hófst dagskrá á ný og fór þá einn flokkur frá okkur í sólarhrings hike, í glampandi sólskini og rúmlega 20°C hita. Eftir valdagskrána skelltu allir sér í sólbað og loks í mat. Eftir kvöldmat héldu Mosverjar varðkerti og hnallþóru hlaðborð í tilefni göfuglyndis síns. Vitaskuld skelltu vaskir Ísfirðingar sér í þetta myndarlega boð og sungu lítillega með öðrum gestum. Klukkan tíu þetta sama kvöld áttu mótsgestir að bjóða sér í kaffi til annarra félaga sem og Ísfirðingar gerðu með glæsibrag og drukku allnokkra kakóbolla hjá fjölmörgum félögum. Þegar allir höfðu drukkið nægju sína (og bragðað eina tvær kexkökur með) var hittingur í eldhústjaldinu til að ræða kakódrykkju kvöldsins. Sú umræða var löng og góð en svo kom Jóna Ben, fararstjóri vor, stoppaði teitið og sendi ungmennin til að bursta tennurnar og svo í háttinn.
Mánudagurinn hófst með hlátrasköllum þegar nokkrir skátar tóku eftir þónokkru fánarugli en nokkrum fánum hafði verið víxlað um nóttina, til að mynda hékk gaypride fáni hjá skátafélaginu Kópum (því var ekki vel tekið og var almenn óánægja ríkjandi þar á bæ) og Mjólk er góð fáni hjá skátafélaginu Klakki. Fánaathöfn gekk hratt fyrir sig og hlutu Svanir tjaldbúðaverðlaun á ný, okkur til mikils ama.
Eftir morgunmat og talsverðar umræður um ömurleika Svanabúðanna var tjaldbúðaskoðun sem heppnaðist að öllu leiti vel. Þá hófst svo dagskrá sem reyndar var afar letileg þennan daginn, flestir fóru bara að sofa eða slaka á á einhvern annan líkan hátt. Um kvöldið kom svo Á móti sól og spilaði svo nokkur lög og svannastúlkna og rekkaskáta rómantíkin tók svo völdin ;)
Á þriðjudeginum var ræs á venjulegum tíma og fánaathöfn þar á eftir, fengum við tjaldbúðaverðlaun afhent í fyrsta skipti yfir mótið en fengum einnig að vita það að við hefðum átt þau skilið alla daga mótsins en stjórnendum þótti helst til mikið að láta eitt félag fá tjaldbúðaverðlaun alla dagana svo við fengum þau bara seinasta daginn. Svo var öllu pakkað í flýti, tjöld rifin niður og öllu drasli hent inní rútu. Um tvö leytið lá leið okkar á mótsslit sem voru afar keimlík mótssetningunni fyrir utan að nú snerist allt um að kveðjast og hitinn var umtalsvert meiri. Strax að slitunum loknum var brennt burt í rútu frá Stjörnubílum.
Þeir sem lögðu höfuð í bleyti til að rifja þetta upp eru eftirfarandi félagar úr dróttskátaflokknum Búrhval; Grímur Snorrason, yfir-vitleysusmiður, Ágúst Arnar Þráinsson, andleg aðstoð, Liljar Már Þorbjörnsson, stuðningsmaður handritsgerðar, Yngvi Snorrason, fyrirliði óstofnaðs íþróttaklúbbs Einherja, Hulda Bjarnadóttir, vitleysusía, Davíð Halldór Barðason, áhangandi rithöfunda. Einhverjir fleiri munu hafa lagt einhverja hönd á verkið en það var ekki svo áberandi að eftir yrði tekið.
Lélegur frasi…