Þar sem ég tel þessa umræðu vera mjög þarfa ætla ég að varpa fram nokkrum spurningum varðandi aga í skátastarfi. Fyrir stuttu kom inn grein um útilegu þar sem upp komu agavandamál, ég ætla ekkert að fara út í það mál frekar heldur hugsa um agann óháð félögum.


Enginn foringi getur unnið gott starf nema halda uppi góðum aga, þetta er staðreynd. Sama hversu góð dagskráin er munu börnin aldrei fást til að hlýða einu né neinu ef þau komast upp með það.

Það þarf að vera ljóst hver ræður, hvort sem það er á fundum eða í útilegum. Geti flokksforingi ekki ráðið við sinn flokk þarf að aðstoða hann. Það er hægt að fá ótrúlegustu börn til að hlýða sér ef maður kemur rétt að þeim.

Það að halda uppi aga er ekki það að standa og öskra á krakkana þegar þau eru ekki að gera nákvæmlega það sem þau eiga að vera að gera. Agi gengur ekki endilega út á harðstjórn. Það er hægt að halda uppi aga án þess að þurfa að óttast að krakkarnir stimpli mann leiðinlega foringjann.

Innan drengjasveita Skjöldunga hefur tekist vel upp að innleiða aga, sem týndist í nokkur ár en var endurvakinn í haust. Auðvitað eru erfiðir krakkar inni á milli, en það þarf bara að koma öðruvísi að þeim til þess að fá þau til að hlýða. Eins og staðan er núna, hálfu ári eftir að agaátakið fór af stað, er þetta gjörbreytt frá fyrri tíma. Það er hægt að segja þeim að gera eitthvað og búast við því að það verði gert.

Hér fyrir neðan er ég með nokkrar spurningar til ykkar. Það væri mjög fínt að fá umræðu um aga.

1. Hversu mikilvægur er agi í skátastarfi?
2. Hvernig er auðveldast að halda uppi aga í stórum hóp?
3. Hvað þarf marga til að halda uppi aga í 30 barna hóp?
4. Hvernig skal refsa börnum?
5. Eru einhver skref sem hægt er að stíga til þess að smám saman byggja upp aga innan hóps?


Skátar verða aldrei óþægari en foringjar láta þá komast upp með.

Endilega svarið þessum spurningum, varpið fram fleiri og komið með dæmisögur. Ég vona að góð umræða komist af stað varðandi þetta.