Hinir hæfustu lifa af!
-mikið er rosalega er gaman að vera hæfur-
Daginn var farið að stytta þegar við,hópur dróttskáta úr sveitinni Yggdrasill, renndum í hlað við sumarbúðirnar í Kaldárseli. Þar var fyrir stúlknakór sem með glöðu geði hefði leyft okkur að gista. Við vorum þó ekki á höttunum eftir gististað því ferð okkar var heitið í helli þar skammt frá. Þar sem við ætluðum okkur að eyða næstu tveimur sólarhringum í vellystingum, að hætti Eyvindar og Höllu.
Að hellinum var svona 10 mínútna gangur og röltum við af stað spennt. Þegar við komum að hellinum byrjuðum við á því að klöngrast með allan búnaðinn okkar niður i botn á þröngum hellinum. Þegar við vorum loksins, eftir svita og tár, komin til botns í hellinum, uppgötvuðum við að ekki var sniðugta að sofa svona djúpt niðri í óloftræstum hellinum. Þá tók við sama ströglið þegar farangrinum var ýtt upp þröngan hellin. Ofar í hellum komum við okkur fyrir og vorum við rólegri þar.
Um kvöldið grilluðum við, lýstum stórt svæði í hrauninu upp með kertum og höfðum það huggulegt. Þegar mannskapurinn var orðinn þreyttur, kom hann sér fyrir í hlýjum svefnpokum og sofnaði vært útfrá söngvum ædolstjarna óbyggðanna.
Þegar við vöknuðum vorum við bæði stirð og köld en það bliknaði í samanburði við þá frábæru tilhugsun að hafa sofið í helli. Við klæddum okkur í flýti og ákváðum að ganga á Helgafell. Við, sem töldum okkur vera nokkuð svala og fjallavana krakka, urðum að játa ósigur okkar þegar eldri kona með barnabörnin, bókstaflega stakk okkur af upp fjallið. Við hugsuðum með okkur að enginn þyrfti að vita af þessu og það var sátt innan hópsins um að þetta færi ekki út fyrir hópinn. Þegar við loks skakklöppuðums upp á fjallið þá sáum við okkur til skelfingar að konan hafði skjalfest þennan atburð. Nú gat hver sem gengi á fjallið lesið um þennan ósigur í gestabókinni.
Við létum þetta þó ekki á okkur fá og heim í hellinn fórum við. Þar skemmtum við okkur konunglega og var um kvöldið var haldin veisla þar sem öllu því besta var flaggað í matargerðinni. Þegar leið að svefntíma fór að rigna og blása. Allir voru sammála um að láta veðrið ekki á sig fá. Þegar allir voru lagstir í poka sinn og virtust vera sofnaðir fækkaði þó eithvað í hellinum.auðsýnilega voru einhverjir sem höfðu læðst inn í hlýjuna og öryggið í sumarbúðunum. Aðeins „hinir hæfustu“ eða fífldjörfu, fer eftir því hver dæmir, héldu kyrru fyrir í hellinum.
Það var þó þess virði að liggja úti í vosbúðinni áfram því seinna um nóttina stytti upp og kom algjör stilla. Við hellisbúar, enn vakandi þar sem veðrið gaf engan svefnfrið fórum út í þetta guðdómlega veður. Þetta var rosaleg upplifun þ.e.a.s. að standa í kolsvartamyrkri, fjarri öllu nema frábæru fólki. Þetta var uppskeran sem við, „hinir hæfustu,“ fengum eftir að hafa þrást við í hellinum. Mikið rosalega er frábært aðvera hæfur.
Á leiðinni heim var glatt á hjalla þrátt fyrir blautan farangur og stirða og þreytta kroppa. Allir voru á eitt sáttir um að þessi ferð hafði verið frábær.

_____________________