Landsmót - Eitthvað fyrir alla! Eins og allir vita verður Landsmót skáta haldið í sumar á Úlfljótsvatni. Mótið verður haldið daga 19. - 26. júlí en þegar mest verður má áætla að um 5000 manns verði á svæðinu. Að þessu sinni verður þema mótsins ,,Orka Jarðar" og mun rammi mótsins verða miðaður út frá því.

Einstakt tækifæri!
Landsmót er aðeins haldið á þriggja ára fresti og því er um að gera fyrir alla skáta og dróttskáta að skella sér á landsmót og eiga góðar stundir með góðum vinum og félögum í hreinu ævintýri við Úlfljótsvatn. Ég vil benda skátum og dróttskátum á að í flestum tilfellum gefst aðeins tækifæri á að fara einu sinni á landsmót sem skáti eða dróttskáti. Sjálfur hef ég farið á tvö landsmót og munu þau bæði ávallt lifa í minningunni sem frábær tími.

Eitthvað fyrir alla!
Eins og áður sagði er landsmótið í 8 daga í júlí og á nægu verður að taka. Boðið er uppá að velja á milli 52 dagskrárliða auk sameiginlegrar dagskrár og því ætti að vera eitthvað í boði fyrir alla. Meðal annars má nefna eldhike, fjallahjólaferð, hjólahike, vatnsbardaga, flekagerð, kanóferðir, klettaklifur, listsig, slysaförðun, hnútar, matargerð, radíóskátun, vindhörpugerð, mósaíkgerð, útskurður, gsm-hulsturgerð, grasalækningar, veðurfræði, rannsóknarleiðangrar, ferð á sólheima, táknmál, dans, survivor, leikritagerð, ljósmyndamaraþon, leikir og margt fleira. Einnig er boðið uppá að fara í river-rafting, jöklaferðir og fleira en það kostar aukalega.

Alþjóðlegt þorp!
Á Úlfljótsvatni mun í raun rísa lítið bæjarfélag sem mun innihalda krakka frá öllum heimsins hornum. Á landsmóti gefst tilvalið tækifæri til að kynnast erlendum krökkum. Að sjálfsögðu má ekki gelyma merkjum og klútum til að skipta við erlendu skátana. Mörg skátafélög munu taka að sér svokallað fósturfélag og mun þá erlent skátafélag vinna náið með íslensku félagi á mótinu sem og fyrir og eftir það.

Straumur!
Vilt þú vita meira um landsmótið og fylgjast með undirbúningi. Vera með allt á hreinu? Á vefsíðu mótsins, www.skatar.is/landsmot er hægt að finna fréttabréfið Straum sem landsmótsnefnd gefur út reglulega. Straumur er undir Almennt –> Útgefið efni á vefum mótsins. Einnig hvet ég alla til að kynna sér vefinn vel því hann er miðstöð upplýsingadreifingar landsmóts. Einnig vil ég minna alla á að skoða valdagskránna (http://landsmot.lht.is/upload/ValdLM2005.pdf vel.

Skráning er hafin!

Jón Þór Gunnarsson,
Skátafélaginu Hraunbúum