Fyrri félagsútilega Heiðabúa á (skáta)árinu var haldin núna um helgina.
Undanfarnar félagsútilegur höfum við verið með þemu. Það skapast alltaf svo skemmtileg stemmning þegar við erum með þemu. Við erum búin að vera með sjóræningjaþema og geimveruþema, og í þessari útilegu var litaþema.
Sveitirnar fengu hver sinn lit sem allir áttu að klæða sig í. Drengjasveitin var blá, Brynjan í Garðinum var bleik og Dróttskátarnir rauðir, svo eitthvað sé nefnt.
Það voru svo um 80 hressir skátar sem fóru með tveim rútum frá Keflavík, Garðinum og Sandgerði og alla leið í Vindáshlíð, þar sem útilegan var haldin.
Við vorum ekkert að tvínóna við hlutina og þegar allir voru búnir að finna sér svefnherbergi og búnir að éta ótæpilega af nammi héldum við litakvöldvöku. Krakkarnir klæddu sig allir upp í sína einkennisliti og voru ansi hreint skrautlegir.
Seinna um kvöldið þegar krakkarnir voru loksins sofnaðir (kringum 1:30) voru dróttskátarnir þó rétt að byrja daginn. Nú þurftum við að skreyta allt hátt og lágt og gera allt tilbúið fyrir morgundaginn.
Eftir langa nótt og lítinn svefn vöktum við svo krakkana með glymjandi jólatónlist og buðum þeim í morgunmat í matsalnum sem leit út eins og hann væri klipptur út úr jólablaði Gestgjafans, með fallega skreyttu jólatré og alles.
Krakkarnir voru á því að nú væru dróttskátarnir endanlega búnir að missa vitið en það var nú öðru nær. Það voru bara einfaldlega komin jól… eða jólaþema, réttara sagt.
Dagskráin yfir daginn var þessi hefðbundna póstaleikur, hádegismatur og hike.
Kvöldmaturinn var svo ekki af verri endandum. Félagsforinginn mætti á svæðið ásamt ast.félagsforingjanum m.a. til að undirbúa stórkostlegan jólamat fyrir kvöldið. Það var reyndar ekki hangikjöt með uppstúf, en alveg jafn gott. Fleiri, fleiri bakkar af Gourmet bláberjalegnu lambakjöti með gulum baunum, frönskum kartöflum og tugum lítra af jólaöli. Hreinlega bráðnaði uppí manni.
Eftir matinn var svo haldin jólakvöldvaka með skemmtilegum skemmtiatriðum og jólalegum jólalögum. Strax eftir kvöldvökuna voru krakkarnir sendir út í næturleik, þar sem þau áttu að finna fjóra vandlega faldna jólapakka sem innihéldu jólagjafaóskalista dróttskátasveitarinnar. Krakkarnir áttu að finna pakkana, safna jólagjöfum handa dróttskátunum og finna lausnarorð, sem var skrifað með stafarugli á alla pakkana.
Svona leit jólagjafaóskalisti dróttskátasveitarinnar út:
Mold, Gras, Grjót, Mosi
og lausnarorðið var ‘íþróttahús’.
Þar var svo Drengjasveitin sem bar nauman sigur af hólmi í næturleiknum, og fékk að launum glæsilega jólagjöf fulla af sælgæti, sem var afhend við hátíðlega athöfn í kvöldkaffinu.
Og að sjálfsögðu voru jólapiparkökur í kvöldkaffinu.
Daginn eftir var svo afhending viðurkenninga. Eftirtaldar sveitir fengu viðurkenningu:
Brynjan, Brynjan, Brynjan, Brynjan, Drengjasveitin og Drengjasveitin.
Auk þess fékk Brynjan afhendan forláta verðlaunagrip og titilinn “Besti flokkur Heiðabúa” þriðja árið í röð.
Það var mál manna að þessi útilega hafi verið sérstaklega vel heppnuð og stórkostleg í alla staði.