Súff fúss grúss….Finnbogi með áskorun og ég verð að taka henni
Hann spurði hvað ég hefði gert um páskana?
SVAR: við spurningunni, Ég hræddi sjálfan mig nánast til dauða á föstudaginn langa.
Ekki það að ég hafi verið að minnast kossfestingar og pínu Jesús heldur var ég og Gunni Trópíklúbbsmeðlimur (oftar nefndur Gunni Skjöldungur) í smá brölti í Skessuhorninu. Fyrir þá sem ekki vita þá er Skessuhornið ansi hátt fjall í NA - verðri Skarðsheiðinni og sést vel þegar maður kemur suður Norðuárdalinn og keyrir í vestur í átt að Bifróst. Fjalli er eftir mínu minni 1046 m. á hæð.
Ég og Gunni höfðum ákveðið að reyna toppa Skessuhornið á föstudaginn langa, það leit ágætlega út með veður og færi svo við lögðum af stað snemma morguns og keyrðum upp í Borgarfjörð. Þegar við höfðum loksins fundið afleggjarann að rótum fjallsins sem er ekkert ofboðslega nálægt rótum þess þá tóku við ýmsar spökuleringar um hvaða leið væri nú skemmtilegust. Þar sem við viljum nú ekki vera algjörar kerlingar þá kom ekki til greina að labba upp gönguleiðina á fjallið heldur skyldum við klífa fjallið og það í ,,Alpine - style" (sambland af snjóbrölti / ís og klettum sem undirritaður er ekkert ofboðslega sprækur í ef broddar eru á honum)
En við lögðum af stað í átt að fjallinu og það var dágóður spotti sem við þurftum að leggja að baki áður en við gátum farið að klifra. Loksins komum við að almennilegum bratta og þá fórum við í línu og gerðum okkur klára í bröltið. Ég leiddi upp fyrstu spönn sem var bara brött snjóbrekka svona á bilinu 70°-75° halli. Það var alveg fyrirtak og fór tiltölulega hratt upp. Þegar hann Gunni kom upp þá já sá ég að ég hefði kannski ekkert farið svo hratt upp því að hann bókstaflega reykspólaði upp spönnina og rauk af stað upp í spönn númer tvö. Hún var einnig mesmegnis snjó / hjarn (75°-80°) en endaði í 2,5 m klettahafti. Þangað komst ég svo upp á eftir Gunna og gerði mig klárann í 3. spönnina.
Fyrstu metrana í 3. spönninni eða um 20 var brött snjóbrekka en fyrir ofan hana voru klettar. Ég komst tiltölulega fljótt að klettunum og kem fyrir þar tryggingu. Ég hafði hugsað mér að hliðra mér þá örlítið til vinstri og halda áfram upp ansi bratta snjólænu en Gunni vildi að ég héldi áfram upp klettana því þar yrði þægilegra að tryggja. Jú, ég gat ekki verið annað en sammála honum, það leit ágætlega út, virtist vera flenninóg af stöðum til að troða inn vinum eða þá smella sling yfir eitthvert haft og nota það sem tryggingu. Klettarnir virtust svo sem heldur ekkert óárennanlegir, nóg um grip og þægilegir.
(!!!!! 1. mistök, hefði átt að halda mig við snjóinn, er öruggari með mig í snjó. 2. mistök, hefði ekki átt að reyna við mixað klifur þarna, hef ekki alveg nægjanlega reynslu, 3. mistök, að treysta á þær sprungur og mögulegar festur sem voru sjánlegar. Aldrei að treysta á þetta í svona bergi sem er í Skessuhorninu á þessum stað.)
Jæja, ég fór allavega upp. Þetta var ekkert gríðarlega erfitt en það er skrýtin tilfinning að klifra með mannbroddana í klettum. Maður hefur enga tilfinningu fyrir berginu og stendur á einhverjum stálgöddum sem eiga það til að skreppa af berginu við minnsta tilefni. Þegar ég ætla mér svo að koma inn tryggingum þá var bergið svo útúr sprungið eftir veturinn að þær gliðnuðu allar og tryggingarnar skruppu út áreynslulaust. Shitt, ég var uppi, illa tryggður og átti erfitt með að koma mér á öruggan stað. Ég sé þó eina mjög vænlega sprungu sem ég vissi að ég gæti tryggt í. Hún var bara rétt fyrir ofan mig. Ég fer því áfram upp, (4. mistök, reginmistök og fíflaskapur) Þegar ég kem að sprungunni þá er það sama sagan með hana og allt annað þarna í þessu hafti, það er allt rotið í gegn. Springur út og smásteinar rigna yfir greyið hann Gunna.
Nú var mér ekki farið að standa á sama, ég var nánast kominn í sjálfheldu og hafði enga örugga undankomuleið. Sé þó rétt fyrir ofan mig góðan stein sem skagar út í loftið og bauð upp á það að smella sling utan um sig. (5. mistök, ég var ekkert að læra af hinum fyrri 4) Ég fer upp að honum og þá var skuggalega mikið komið út af línunni miðað við að aðeins ein trygging var á milli mín og Gunna. Ég ætla ekkert að segja um hve mikið en ég hefði pendúlað skuggalega nálægt Gunna ef ég hefði dottið þarna uppi.
Ég kem að helvítis grjótinu og viti menn það var laust. Þrátt fyrir að hafa verið heillegt að sjá þá um leið og ég prófa það þá losnar það og ég hugsa með mér FOKK. Ég er komin í virkileg vandræði, ég stóð á tiltölulega þægilegum stað þannig að ég gat aðeins spáð í þeirri stöðu sem ég hafði komið sjálfum mér í. Nú var veðrið farið versna, farið að þykkna upp og snjókorn farin að falla í stigvaxandi mæli. Þá tók ég þá gáfulegu ákvörðun að í ljósi þess að bergið væri ótraust og ég ekki í góðum fíling að best væri að fara niður og heim. Burt úr þessarri vitleysu.
Ég sé mér til mikillar gleði að það er grjót sem skagar út í loftið rétt hjá mér, ekki fyrir ofan mig eins og sumir myndu halda heldur fyrir neðan mig og 5 – 6 m. til hægri. Ég hliðra mér þarna eftir smá syllu og það gekk ágætlega en svo þurfti að niðurklifra að grjótinu. Það gekk vel og loks stóð ég á fínum stað, að vísu ofan á hnullungnum en með fínar festur fyrir hendurnar og á smá syllu svo ég sparkaði duglega í grjótið og sá að það var pikkfast og myndi nú ekki haggast. Þá þurfti ég að komast niður fyrir það og koma sling utan um svo ég gæti farið að síga niður til Gunna. Það tekst án mikillar vandkvæða og þar ákvað ég að hanga í smá tíma til að hvíla mig aðeins og þakka fyrir það að vera ekki dauður eða stórslasaður núna eftir kjánalegt klifur.
Ég kemst klakklaust niður til Gunna en í smá sjokki og þaðan úr 2. stansi sígum við niður og endurtökum ferlið svo einu sinni enn. Þaðan gengum við niður Gunni að vísu mun sprækari en ég sem var í smá heimspekilegum hugleiðingum um lífið og tilveruna eftir þessar hremmingar. Maður verður afskaplega mikill spekingur þegar svona hefur hent mann.
Við göngum svo niður og þá var komin svarta þoka svo við þurftum að ganga eftir áttavita síðustu kílómetrana að bílnum og þökk sé nokk góðum rötunarhæfileikum og jú smá heppni þá smell hittum við á bílinn í þessarri þoku. Áttavitakennslan borgar sig og það að æfa hana. Draslið inn í bíl og við heim í sturtu því klukkan var orðin ansi margt og ég var allavega orðinn lurkum laminn.
Hvað lærði ég svo á þessu, jú ég fann hvar takmörkin mín liggja og hvaða mistök ég gerði og hve auðvelt er að gera þau. Einnig lærði svolítið um sjálfan mig og hvað ég vil gera i framtíðinni, nota bene ég varð skíthræddur þarna uppi.
Það var samt þess virði…
Kveðja Hjörtur
Ds. Fenris