Skref fyrir skref
Fyrri hluti.
Síðustu metrarnir voru erfiðir. Mig verkjaði frá tám og upp á maga. Pokinn var sennilega í kringum 22 kíló með skíðunum. Klukkan var að ganga hálf níu að kvöldi 6.apríl og við vorum búnir að vera á labbi síðan klukkan 10 í morgun, með góðum hléum þó. Það var mikill léttir að taka af sér þunga pokann og fá sér eitthvað að drekka annað en volgt lemmon tea. Ég fór úr skónum og tærnar voru aumar eftir að gengið með gönguskíðin á bakinu niður 1600 metra lækkun frá miðri Hnappaleiðinni á Öræfajökli. Þetta var soldið flott leið, hugsaði ég. Maður hefði samt getað verið hressari, ég var betur stemmdur í gær. En hvað um það við vorum komnir niður, eftir skemmtilegustu og flottustu ferð sem ég hef farið í lengi.
Um veturinn vorum við strákarnir búnir að pæla í hvað skildi gera um páskana. Ef íshæk yrði þá myndum við sennilega fara í það. Svo fór það ofan garð og neðan. Brátt kom toppaferð á Öræfajökul til tals og það varð úr að á sunnudeginum 4. apríl vorum við þrír á leiðinni austur í Öræfi með allt okkar hafurtask til fjallaferða í skottinu, lítinn mat og eitt tjald. Mikið var skeggrætt um ferðina og hvaða leið skyldi fara. Á endanum varð fyrir valinu að taka sem flesta tinda á Öræfajökli á mánudeginum og gista undir Hvannadalshnjúk. Fara síðan sennilega á Hrútsfjallstinda á þriðjudegi og niður sömu leið, sem var hin svokallaða Hnappaleið.
Við Hveragerði uppgötvaði ég að ég hafði gleymt gönguskíðaskinnunum heima og nú var ég í vondum málum. Án þeirra var illmögulegt að komast upp brattar brekkur á skíðunum, og ekki nennti ég að bera skíðin upp í 1900 metra. Í pylsustoppi í Vík hringdi ég í Einar Sigurðsson fjallaleiðsögumann í Hofsnesi og spurði um skinn, það var ekkert mál. Þegar við komum svo loks austur hittum við Einar og við ákváðum að við fengjum far með honum upp á Sléttubjörg daginn eftir, hann var að fara í könnunarferð upp á Hnjúk og munaði ekkert um það að við fengjum far.
Við tjölduðum og kláruðum að pakka, fengum okkur að borða og lögðumst til svefns.
Klukkan fimm um morguninn vöknuðum við. Gerðum allt klárt og Einar kom klukkan sex. Hendum bakpokunum og skíðunum í bílinn og keyrðum upp á Sléttubjörg sem eru í 800 metra hæð. Einar fór á undan okkur enda fór hann létt og var ekki með 20 kílóa poka. Hófum gönguna klukkan 7 og fórum ekkert sérstaklega hratt með þungar byrgðar. Labbið gekk hins vegar vel nema hvað að Siggi datt svo illa á skíðunum að hann beyglaði hæla upphækkun að öðru skíðinu sínu. Gaman að því. Hádegismatur var etinn undir vestari Hnappi í 1750 metra hæð. Menn voru mishressir, ýmist í góðu stuði eða frekar slappir. Ég held ég hafi verið í fyrri hópnum, naut göngunar og útsýnisins sem var hið besta. Sáu vestur með Skeiðarársandi að Mýrdalsjökli, suður í höf eins langt og augað eygði og hvergi var ský að sjá. Eftir smá hressingu kláruðum við gönguna upp á jökulsléttuna og þar var útsýnið ekki verra. Hvannadalshnjúkur heilsaði í norðri, Rótarfjallshnjúkur á vinstri hönd og Hnapparnir skammt undan. Þar skildum við pokana eftir og skíðuðum stuttan spöl að Rótarfjallashnjúk. Þurftum aðeins að labba léttan hrygg út á hann og þá vorum við komnir. Fyrsti toppur dagsins, jibbikaey. Hann er 1848 samkvæmt mínu korti og ekki sæm byrjun. Fórum sömu leið til baka að Hnappi og pokunum okkar. Náði mér í exi og skóflu og fór að Sigga sem var komin að Hnappinum. Til komast á hann þarf svo sem ekkert að klifra neitt. Frekar bratt samt. Hann er 1851 metrar á hæð og nokkuð flottur tindur sem stendur lágt upp úr öskjunni en er samt mjög áberandi. Toppur númer tvö. Flott. Hvað er næst á dagskrá? Sveinsgnípur og svo Sveinstindur segir gæsin sem gerir skíðin sín klár fyrir niður ferðina. Ég og Robbi förum á undan niður og bíðum eftir Sigga sem ætlar að skíða niður. Brekkan er ca 60°brött og ekki má mikið útaf bera til að lenda í sprungum mörg hundruð metrum neðar ef ekki er beygt nógu snemma. Ég tek myndir og maður skíðar þetta af mikilli list. Eystri Hnappur er töluvert lægri en hinn, frekar úr leið og fæstir nenna að gera sér leið að honum, þó flottur sé að vísu. En ekki nenntum við því.
Þá er bara að taka aftur pokana og og stefna á Sveinsgnípur. Labbið er um 3 km. Það er ekki neitt. Lækkun var nokkur og tók það um klukkutíma að komast þangað. Sveinsgnýpur er ekki nema smá bunga upp úr jöklinum en telst samt víst sem tindur, 1927 metrar. Útsýnið þaðan í austur er ekki af verri endanum. Jökulsárlón, Esjufjöll, Suðursveit og allt austur að Höfn í Hornafirði. Veðrið það sama, ekki ský á himni og smá gola. Næst fórum við að Sveinstindi sem er nokkuð flottur tindur og rís 2044 metra úr sjó.
Þar útbjó Siggi sér salerni og brúkaði það, félögum sínum til lítillar ánægju. Eftir nokkurt labb í bröttum brekkum komum við að tindinum, en áttum samt eftir um 15 metra þegar frekar stór sprunga var í veginum. Mér leyst sattast að segja ekkert vel á aðstæður, töluvert af lausasnjó og hjarn var ekki freistandi svo ég settist niður og naut útsýnisins. Þegar Robbi og Siggi gerðu svo atlögu við toppinn komu þeir af stað litlu snjóflóði, 10 metra breytt í það mesta. Alla vega nógu breytt til að við snérum við.
Stefnan tekin á Hvannadalshnjúk og miðaði vel áfram. Þegar þreytan var farin að segja til sín einum km frá Hnjúknum ákváðum við að hér skildi tjaldað. Þegar það var komið upp skildum við allan búnað eftir og skokkuðum restina upp á Hnjúk. Þegar hér var komið við sögu hafði veðrið breyst til muna og ský hrönnuðust skriðu hratt upp Virkisjökul og innan tíðar voru Dyrhamar og Hvannadalshnjúkur huldir þykkum skýjum. Gengum upp í skýið og gekk verðin á toppinn vel, þótt að við urðum varir við sprungur sem eiga ekki að koma í ljós fyrr en í júní. Skyggni á toppnum var 0 en við tókum þó eftir 300 fall niður á sléttuna í flestar áttir. Við vissum að við vorum á toppnum og eftir myndatökur fórum við niður sömu leið. Hæsti tindur Íslands, 2119m . Loksins eftir fjórar tilraunir hjá mér. Þegar að tjaldinu kom létti á toppnum og sólin kom í ljós milli fjallatinda og sólroðin magnaði upp þokuna. Djöh, ef við hefðum beðið í hálftíma. Nú var bara að breiða úr svefnpokanum og hjúfra sig niður undir nælonhimni.
Frh. Síða