Helgina 19. – 21. mars var Ds. gangan haldin uppi á Hellisheiði. Sjö þriggja manna lið mættu til keppni sem fólst í því að ganga um heiðina eftir ákveðnum leiðum sem þátttakendur höfðu ákveðið sjálfir.
Á laugardagsmorgun var vaknað og lagt af stað í mjög góðu veðri. Á póstunum sem keppendurnir völdu sér var m.a. hægt að elda pönnukökur, synda í ám, leita að snjóflóðaýlum, svara spurningum um landafræði, jarðfræði og skyndihjálp, syngja söngva, dansa og margt fleira skemmtilegt.
Á laugardagskvöld hittust allir í skálanum Þrym á miðri heiðinni þar sem var gist um nóttina. Var mikið sungið og trallað þá um kvöldið.
Þegar vaknað var á sunnudagsmorgun var komið mikið rok en létu keppendur sig hafa það og lögðu af stað út í vindinn. Um hádegisbilið skiluðu sér allir heilir á húfi aftur í grunnbúðir sem voru að þessu sinni í Dalakoti, sem staðsettur er rétt hjá skíðaskálanum í Hveradölum.
Flest stig í þessari keppni fengu Ds. MH, en í því liði voru Sölvi og Danni, báðir úr Kópum, og Ágúst úr Vífli. Í verðlaun fengu þeir Cintamani flíspeysur og farandsverðlaunagrip. Í öðru sæti lentu Ásgeir, Baldur og Yousef, allir úr Segli, en þeir kölluðu sig Yotoo.
Voru keppendur þreyttir eftir þetta en þó glaðir yfir því að hafa komist heilir á leiðarenda.