Tímamót
Nú eru aðeins tveir sólarhringar þar til valinn verður nýr skátahöfðingi yfir Íslandi. Skátahöfðingi er æðsti yfirmaður hreyfingarinnar og andlit hennar út á við og þarf því að vanda vel til valsins. Í framboði til embættis skátahöfðingja er Margrét Tómasdóttir aðstoðarskátahöfðingi. Hún hefur kynnt sig vel meðal skáta – eldri sem yngri – og gert sér far um að heimsækja nálega hvert einasta skátafélag landsins. Margrét býr yfir mikilli reynslu og þekkingu, bæði innan skátahreyfingarinnar sem utan. Hún hóf störf sem ljósálfur í Reykjavík en starfaði mestan sinn skátaferil innan Skátafélagsins Kópa. Einnig hefur hún frá því á áttunda áratugnum unnið margháttuð störf á vegum Bandalags íslenskra skáta og verið óþreytandi að sinna skátamálefnum alla tíð. Hún gegndi meira að segja foringjastörfum í amerísku kvenskátahreyfingunni þann tíma er hún var við framhaldsnám vestra í hjúkrunarfræðum. Hún er í fararbroddi í stétt hjúkrunarfræðinga og hefur verið hjúkrunarframkvæmdastjóri um árabil.
Sá er þetta ritar hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Margréti Tómasdóttur. Mér er einkanlega minnisstætt nú í janúar er hún var heiðursgestur á sveitarforingjanámskeiði sem ég stýrði. Þátttakendur á námskeiðinu heilluðust gjörsamlega af sköruglegum málflutningi Margrétar og þeim mikla skilningi sem hún sýndi á þeirra starfi. Hafa margir þessara ungu skáta komið að máli við mig síðan og lýst þeirri skoðun sinni að þar færi verðugur leiðtogi íslenskra skáta og auðvitað kæmi enginn annar til greina sem skátahöfðingi Íslands nú er Ólafur Ásgeirsson lætur af embætti. Margrét er glæsileg kona og hefur sannað með verkum sínum, þekkingu, innsæi og mikilli reynslu að hún mun verða farsæll leiðtogi íslenskra skáta – á tímamótum – þegar miklu skiptir hver heldur um stjórnvölinn.
Björn Bragason aðstoðardeildarforingi
Skátafélaginu Skjöldungum