Þriðja valkostinn sem skátahöfðingja! Það ætti að vera öllum ljóst að skátastarfi á Íslandi hefur hnignað síðastliðin ár. Mörg gamalgróin félög eru hvorki fugl né fiskur lengur og varla meir en nöfn á blaði ofan í skúffu uppi á BÍS. Fúnir stofnar gamalla félaga virðast standa í vegi fyrir því að sólargeislar nái til nýrra sprota sem vilja brjótast fram og dafna. Þessum vaxtarsprotum verður að hlúa að á komandi árum svo úr þeim vaxi sterkur stofn nýrra skáta sem munu bera hróður Íslands um víðan völl.

Ég vil leggja mitt á vogarskálarnar svo að þessir vaxtarsprotar nái að dafna og styrkjast. Til þess hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis Skátahöfðingja Bandalags íslenskra skáta.

Sem Skátahöfðingi myndi ég vilja sjá margar róttækar breytingar á skátastarfi. Veigamestu breytingarnar tel ég vera:

1. ,,Skátaskyldu” yrði komið á hér á landi í samvinnu við stjórnvöld. Börn í 5. bekk yrðu sjálfkrafa skráð í skátastarf við upphaf skólaárs. Skátun yrði svo stunduð samhliða náminu í skólanum undir handleiðslu foringja sem lokið hefðu Gilwell og leiðbeinendanámskeiðum I og II. Þessir skátar verða launaðir fulltrúar skátahreyfingarinnar innan skólanna og bera ábyrgð á starfi innan sinnar starfseiningar. Kostnaður við slíka fulltrúa verður sennilega svimandi hár en ég vona að það komi ekki að sök.

2. Ímynd okkar sem hreyfingar verði aðlöguð nútíma samfélagi. Skátastarf hefur því miður þann stimpil á sér að vera leiðinlegt og óspennandi. Minn vilji er að hrint verði í framkvæmd umfangsmikilli og mjög svo kostnaðarmikilli kynningarherferð sem vonandi muni skila sér í aukinni aðsókn í skátastarf.

3. Breyttar áherslur í alþjóðastarfi. Ég sem skátahöfðingi mundi beita mér fyrir því að tekin yrðu upp samskipti við Alþýðulýðveldið Laos og Alþýðulýðveldið Kúbu um að BÍS verði þegnum þessara landa innan handar við upphaf skátastarfs í þessum löndum. Til að koma þessum samskiptum á fót þarf að standa í miklum og kostnaðarsömum kynnisferðum til þessara beggja landa og einnig þarf að bjóða sendinefndum þessara landa hingað til Íslands til að kynna land og þjóð. Þetta samstarf mun vonandi leiða til þess að aðsókn í skátastarf muni aukast.

4. Aukum útrás íslenskra skáta. Við ættum að bjóða frændum okkar hinum sjóveiku víkingum, Færeyingum að sameinast BÍS ellegar að við munum einangra þá frá alþjóðasamfélaginu og reyna að beita þá efnahagslegum þvingunum, s.s. hætta að versla í Rúmfatalagernum, hætta að hlusta á Eyvöru Pálsdóttur og Tý, veita færeyskum ferða- og námsmönnum hæli sem pólitískir flóttamenn, hvort sem þeir óska þess eður ei. Síðast en ekki síst þá ættu skátarnir að beita sér fyrr því að stjórnvöld muni setja Færeyjar í herkví með því senda Landhelgisgæsluna suður til Færeyja. Ef allt þetta bregst þá munum við senda Árna Johnsen á Ólafsvöku til að syngja færeysk þjóðlög! Þetta mun verða mjög kostnaðarsöm aðgerð sem verður vonandi til þess fallin að auka ásókn í skátastarf.

Þessi fjögur meginatriði verða mín allra staðföstustu stefnumál og mun í hvergi frá þeim víkja. Á bak við mig er hópur breiðra stuðningsmanna sem ég mun óspart nota til að sannfæra efasemdarmenn um gildi þess að ég hljóti kosningu.

Með skátakveðju Hjörtur Brynjólfsson skf. Svönum