Jamm það voru þrír dróttskátar sem stóðu á bílaplaninu við Kringluna á laugardagskvöld og voru að sortera allan þann útbúnað sem þeir höfðu dregið með sér í eina gönguferð. Einn hálfnakinn á tánnum, annar á föðurlandinu einu til fara og sá þriðji, tja hann var allavega þarna. Illa lyktandi og skítugir vorum við, ásamt því að vera einstaklega þreyttir en samt himinlifandi og sælir með að hafa klárað það verkefni sem við höfðum sett okkur.
Við vorum að koma úr Landmannalaugum, þaðan höfðum við gengið fyrr um morguninn upp í Hrafntinnusker og aftur til baka. Við ókum upp í Landmannalaugar á föstudagskvöldinu og fundum okkur nokkuð notalegan stað rétt við skálann í Landmannalaugum inn á milli smalahunda sem voru þarna ásamt smölum úr sveitinni.
Föstudagskvöldið þarna í Landmannalaugum var einstakt, það var fullt tungl og heiðskýrt ásamt því að það var stafalogn. Útsýnið var því frábært og fjöllin glitruðu í tunglskininu og Norðurbarmur, norðan við Landmannalaugar leit ansi freistandi út. Það var samt nokkuð kalt svo við drógum upp dúnúlpurnar okkar og undirritaður dró upp forkunnarfagra dúnúlpu sem hann hafði keypt á spottprís á ferðalagi í Nepal. Upp spunnust smá umræður um hvort úlpan væri alvöru eða ,,feik” North Face og svo í framhaldi hvort hún innihéldi nokkurn dún yfir höfðuð en ekki bara fiður! Mér var alveg sama um hvort úlpan væri alvöru North Face eða ekki en ég stóð fastur á því að hún væri jú örugglega með meir af dúni en fjöðrum, allavega var hún mjög hlý.
Þegar við höfðum tjaldað og vorum að fara að elda fór fólk að spyrja okkur hvort við ætluðum virikilega að gista í tjaldi og augnaráðið sem við fengum gaf til kynna að við værum örugglega eitthvað skrýtnir. Við gistum þó í tjaldinu góða og áttum þar góða nótt nema einn okkar sem vaknaði upp við það að það var einhver ískaldur hlutur ofan í pokanum hans og var að sjúga í sig allan þann varma sem var í svefnpokanum. Þetta var álflaska sem hann hafði notað undir heitt vatn fyrr um kvöldið og geymdi svo ofan í svefnpokanum sínum til að ylja sér. Hann hafði ekki hins vegar hugsað út í að flaskan myndi með tímanum kólna og verða jú, ÍSKÖLD. Hann var því restina af nóttinni að reyna að vinna aftur það hitatap sem hann hafði orðið fyrir með því að skjálfa eins og lítið lauf í vindi.
Morguninn eftir fórum við á ról um áttaleitið og kipptum niður tjaldinu og reyndum að gera okkur klára fyrir daginn. Þá uppgvötaðist að ég hafði gleymt snjóbuxunum mínum heima. Það eina sem ég hafði því mér til verndar var föðurlandið mitt og næfuþunnar göngubuxur. Það varð úr að ég notaði þær utanyfir föðurlandið og vonaði bara að það myndi ekki rigna mikið á okkur. Við héldum því af stað áætluðum að komast í skálann við Hrafntinnusker ekki seinna en þrjú þennan dag.
Það var ekki mikill snjór en það var greinilegt að það hafði fryst hressilega fyrr um vikuna því það var dúndur göngufæri. Brátt komum við að sennilega minnsta jökli á Íslandi. Hann er eiginlega ekkert annað en þak á smá íshelli sem er í þröngu gili rétt við slóðina inn í Hrafntinnusker. Þrátt fyrir að vera ansi lítill þá var hann mjög flottur og gaman að kíkja á hann.
Eftir að við höfðum lokið við að kanna þennan íshelli þá fór ég að þreytast ansi mikið og verða virkilega pirraður. Ástæðan var sennilega sú að mér var tiltölulega kalt á löppunum vegnma rigningar og það að ég hafði ekki borðað nægilega mikið um morguninn í pirringskasti yfir því að hafa gleymt snjóbuxunum mínum heima. Nú myndi ég súpa seyðið af því að hafa gleymt mikilvægustu máltíð dagsins. Ég fór að dragast afturúr og síðustu kílómetrarnir í Hrafntinnusker voru óendanlega lengi að líða.
Loksins, loksins þarna var skálinn í snjókófinu og við hröðuðum okkur inn. Þar mætti okkur hin mesta hitabeltisstemming því hitinn í anddyrinu var um 33°C! Við drifum okkur því úr blautum fötunum og hengdum þau upp til þerris. Þá var áætlunin að elda sér hádegismat, þá komst upp að ég var víst ekki sá eini sem var illa haldin af alzheimers því sá sem átti að hafa bensínflöskuna fyrir prímusinn o.þ.a.l. pumpuna á flöskuna, gleymsi henni niðri í Landmannalaugum. Þá var nú lán að tveir hitabrúsar voru með í för og við áttum nóg vatn á þeim. Við sóttum líka snjó út og hófum bræðslu á funheitum ofnunum. Ég sem var mjög svo orkulaus reyndi að troða í mig eins miklu magni af mat og ég gat í mig látið, það tókst en svo illa að ég stóð á blístri og nú þurfti eitthvað af þvi sem ég hafði áður látið ofan í mig að komast út og það með hraði. Ég hljóp því inn á kamar og reif upp setuna og hlammaði mér niður. Á meðan ég sat þarna í alsakleysi mínu og naut þess að vera ekki í spreng lengur þá fann ég að það er eitthvað sem skríður um á afturendanum á mér og það var ekki einsamalt. Þarna voru skálaverðirnir í Hrafntinnuskeri komnir til að sjá hver væri nú að skíta á skrifstofunni þeirra eða öllu heldur var þarna hersing af flugum sem mér leist ekkert gríðarlega vel á og ég stökk því upp af kamrinum og skellti setunni á eftir mér og prísaði mig sælan yfir því að geta verið snöggur að skeina mér.
Nú leið að því að við þyrftum að koma okkur af stað til baka niður í Landmannalaugar og ég var allur að hressast. Fötin þurr, ég saddur en veðrið var að versna. Ég brá á það ráð að sleppa því að notast við göngubuxurnar utanyfir föðurlandið og í stað þeirra nota Marmot flísbuxur sem ég hafði einnig með mér. Mér til mikillar furðu, blés lítið sem ekkert í gegnum þær og þrátt fyrir að það var bölvað rok og slydda á okkur og buxurnar fengu á sig ómælt magn af vatni. Þá héldust þær þurrar og gáfu ótrúlega góðan varma. Þegar ég loks kom niður í Landmannalaugar var ég orðinn þurr og leið frábærlega. Marmot buxurnar höfðu komið mér mjög á óvart í fyrsta skipti sem þær voru notaðar við smá öfga aðstæður.
Ég mæli ekki með því við neinn að gleyma snjóbuxunum sínum heima en ef það kemur fyrir þá vil ég eindregið mæla með því að viðkomandi hafi góðar flísbuxur utanyfir sig.
Leiðin til baka var tiltölulega tíðindalítil því við vorum á hraðferð og stoppuðum lítið. Bakaleiðin tók ekki nema rétt rúmma 2 ½ tíma en við höfðum verið í kringum 4 tíma á leiðinni uppeftir, að vísu með stoppi í íshellinum og svo miklum hægagangi vegna orkuleysis.
Eftir að í Landmannalaugar var komið var öllu dótinu okkar fleygt inn í bílinn og við drifum okkur í þurr föt og héldum af stað í bæinn. Fyrst áður en við gátum komist heim í heita sturtu og hrein föt urðum við að stoppa við Kringluna og sortera allt dótið okkar í bílnum því allt saman hafði einhvern veginn eiginlega blandast í einn stóran hrærigraut á þessu ferðalagi okkar sem var algjör snilld.
Við mælum eindregið með því að fólk taki sig til og kíki upp í Hrafntinnusker frá Landmannalaugum. Það er ekki erfið dagsganga fyrir sæmilega vant fólk og ,,vel” útbúið.
Þátttakendur: Turi buxnalausi úr Ds. Dímon, Ágúst áttavillti úr Ds. Fenris og Robbi, dálkahöfuindur hjá hinu virta fagriti fjallamanna ,,Chicken Magazine”, Ds. Plútó. Einnig var á svæðinu smalahundur sem sennilega hefur stolið CEBE lemon tea sírópinu hans Robba.
Dagsetning: 10. – 11. október.
Staður: Landmannalaugar – Hrafntinnusker - Landmannalauga