Sæl og bless, alltaf jafn skemmtilegar umræður á Huga.is!
Nokkrar vangaveltur um launaða skátaforingja. Ég hef verið virkur í umræðunni undanfarin ár og veit því hvað fólk sem er að tala um þetta er að spá og hvað það setur í grundvallar. Mikilvægt er að kynna sér málið vel, velta vöngum og reyna síðan að taka afstöðu. Heimurinn er sjaldnast svartur eða hvítur, heldur aðeins misjafnlega grár.
Mín afstaða er til dæmis sú að launaðir foringjar geti virkað vel þar sem vel er haldið utan um þá og ýmiss önnur skilyrði (sjá að neðan) eru til staðar. Fyrir aðra mun það að launa foringja ekkert gera annað en að gera þá gjaldþrota.
Kíkjum á málið…
Grundvallarforsenda allrar umræðu um skátastarf er sú að TÖFRALAUSNIR ERU EKKI TIL.
Undanfarin ár hefur mjög mikið verið fjallað um hvort skátaforingjar eigi að fá fjárhagslega umbun fyrir starf sitt eins og til dæmis þjálfarar íþróttafélaga og foringjar í æskulýðsstarfi kirkjunnar o.fl. fá í dag. Sumir telja að þetta sé það sem muni bjarga skátastarfi (horfa t.d. á íþróttahreyfinguna og spyrja hvar hún væri ef hún hefði ekki farið út í að launa sína foringja (þjálfara)) en aðrir telja að þetta vera það sem muni drepa starfið.
Lykilatriðið er að gera sér grein fyrir að þetta mun hvorki bjarga því né drepa það. Þetta er hins vegar ein aðferð og verði hún notuð RÉTT mun hún koma að gagni. Verði hún notuð rangt mun hún hafa öfug áhrif.
Það sem fólk er að spá í er fyrst og fremst að launa sveitarforingja sem samkvæmt reglum eiga að vera 18 ára eða eldri. Ástæðan fyrir þessu er sú að þessi hópur er yfirleitt í erfiðu námi, vinnur oftast með skólanum og eru skátaforingjar auk þess að eiga líf þar fyrir utan.
Þetta gerir það að verkum að þegar viðkomandi forgangsraðar takmörkuðum tíma sínum lendir skátastarfið óhjákvæmilega oft óheppilega neðarlega á listanum.
Markmiðið með því að launa foringja er því tvenns konar:
1. Að geta gert auknar kröfur til þeirra.
2. Að koma skátastarfinu hærra á forgangslistann.
1. Meiri kröfur eru yfirleitt gerðar til starfsmanna en sjálfboðaliða. Þú sinnir sjálfboðaliðastarfinu EF þú getur það. Þú færð frí í vinnunni EF vinnan leyfir þér það. Annars er þér sagt upp og þú færð ekki greidd laun. Undantekningin frá þessu er ef eftirspurnin eftir starfinu þínu er minni en framboðið af foringjum. Sé hún meiri er hægt að reka þig því margir aðrir séu til í að koma í staðinn. Sé foringjaskortur er erfitt að reka fólk því þá er enginn til að koma í staðinn.
2. Oftast er listinn þannig þegar menn þurfa að forgangsraða að námið og/eða vinnan eru í efstu tveimur sætunum (fólk þarf pening til þess að greiða símakostnað, kostnað af bíl og aðra neyslu þess vegna vinnur það), síðan koma vinirnir og skátastarfið sem berjast um þriðja til fjórða sætið. Ef okkur tækist að launa foringja er stefnan sett á að koma skátastarfinu í 2. sætið á eftir náminu, þ.e. sameina vinnunna og skátastarfið.
ENGIN TÖFRALAUSN
Alveg eins og við höfum góð vel rekin fyrirtæki þar sem er gott og áhugasamt starfsfólk að gera góða hluti og finnst skemmtilegt í vinnunni þá eru til léleg illa rekin fyrirtæki þar sem enginn vill vinna og því endar þar eintómt óhæft starfsfólk sem staldrar yfirleitt stutt við og gerir lítið af viti. Svona er þetta í skátafélögum líka. Núna er fólkið ólaunað; sums staðar er góður mórall og fólk vinnur vel og heldur áfram annars staðar ekki. Verði skátastarf launað breytist þetta ekki.
Ein ástæða þess að foringjar sinna ekki skátastarfi er hins vegar vinna og í þeim klukkustundum teljum við okkur hugsanlega eiga sóknarfæri því við getum hugsanlega haldið lengur í góða foringja með því að kaupa nokkra klukkutíma í viku af einhverri sjoppu úti í bæ þar sem viðkomandi vinnur á kvöldin og getur því ekki sinnt skátastarfi. Það er stundum svolítið sorglegt að framúrskarandi skátaforingi þurfi eyða tíma sínum í vinnu í “tilgangslausri” sjoppu í staðinn fyrir að eyða honum í skátaheimilinu í að gera gott skátastarf betra. Hann þarf hins vegar peninginn og spurningin er hvort við teljum heppilegt fyrir skátastarfið að kaupa þessa klukkutíma af sjoppunni.
Lykillinn af því hversu vel það heppnast að launa skátaforingja er hvort umgjörðin er í lagi (góður mórall, gott skipulag o.s.frv.). Annað lykilatriðið er hvernig á umbunin að vera? Allir eru hrifnir af fjárhagslegri umbun ef félagið er búið að eyða peningunum fyrir viðkomandi í til dæmis flíspeysur, utanlandsferðir, sérstakar foringjaferðir, pizzur, grill o.fl. Allt er þetta fjárhagsleg umbun, nema að foringinn ræður ekki í hvað hann eyðir peningnum. Einnig í sumum þessu tilfellum er um að ræða verkefni sem líkleg eru til að hafa styrkjandi áhrif á móralinn og starfið í félaginu (ýmsar foringjaferðir o.þ.h.).
Árangurstenging. Verði farið út í að launa foringja er nauðsynlegt að launa honum fyrir árangur í starfi. Það þýðir að áður en við ráðum hann þurfum við að skilgreina hvaða mælikvarða við ætlum að reikna launina hans af:
- Fjölda tíma eyddum í skátaheimilinu? Varla, hann gæti eytt helmingnum þeirra í að gera ekki neitt!
- Fjölda útilega, fjölda funda, hlutfallsleg mæting sveitarmeðlima á fundi og í ferðir?
- Fjölda greiðandi skáta sveitinni hjá honum?
Það er nauðsynlegt að vanda sig við að finna RÉTTU mælikvarðana, hluti sem raunverulega segja til um það hvort starfið sé gott. Það er alveg klárt að tengingin milli framistöðu og launa þarf að vera skýr…og þó, er það sanngjarnt? Það getur verið miklu erfiðara að berjast áfram með hálftóma sveit heldur en að halda úti sveit þar sem allt er fullt af skátum og allir eru í stuði.
Samt sem áður þurfum við að setja starfsmanninum raunhæf markmið og síðan greiða honum fyrir að vinna að þeim og ná þeim. Aðeins þannig náum við að bæta skátastarfið með því að launa foringja.
Það er því ekki allt slæmt við þessa hugmynd EN hún er heldur engin töfralausn. Aðeins enn ein aðferðin sem vissulega getur komið okkur vel ef rétt er á málum haldið en gerir ekkert nema að eyða peningum sé illa á málum haldið.
Kveðja,
Siggi Úlfars.
Ps. Kíkið á www.skatar.is/flamboree og fylgist með dagbókinni okkar Flamboreefara!