Ég á frábærar minningar frá þeim árum sem ég var í skátunum.

Smákrakkarnir ég og vinir mínir, við byrjuðum saman í skátunum. Félagið okkar hét Drekar á Akureyri. Hér eru fjórar sögur af því starfi skáta sem ég upplifði.

1. Ég og tveir aðrir drengir ákváðum að kveikja á fullt af kertum. Ég man ekki af hverju, en það hefur víst átt að vera eitthvað fyndið þá. Við fundum slatta af kertum í kassa, komum þeim fyrir í auðu herbergi og kveiktum á þeim öllum. En til allrar ólukku var mjög lágt til lofts og stór svartur blettur myndaðist beint fyrir ofan okkur. Kemur þá ekki herra foringi, setur öll kertin í pott og hendir þeim út. Hann segist hafa „bjargað húsinu frá algjörri tortímingu“ og þykist vera reiður við okkur. Hvað vorum við að hugsa!?

2. Það var aðeins eitt lítið salerni í skátahúsinu okkar. Eitt kvöldið datt einhverjum hrottalega viðbjóðslegum í hug að míga út um allt þar inni, á gólfið, veggina og líka ofan í vaskinn! Herra foringi sá þetta og krafðist þess að sá hinn seki gefði sig fram og talaði hann einhvað um karlmennsku þess að játa. En viti menn, enginn gaf sig fram! Þvílíkur skátahópur! Ég komst aldrei að því hver gerði þetta, en það var a.m.k. ekki ég.

3. Drekum var skipt niður í þrjár deildir minnir mig: sporðdreka, skriðdreka og flugdreka. Ég var í sporðdrekum og var það að sjálfsögðu lang besta deildin. Okkar herbergi var við hliðina á herbergi skriðdreka, og þeir ákváðu eitt kvöldið að bora gat í vegginn! Bara svona til gamans! Þeir gerðu það, boruðu stórt gat í vegginn og földu það með einhverri mynd. Herra foringi komst að lokum að þessu, skammaði prakkarana í skriðdrekum lítillega og hrósaði okkur fyrir að hafa ekki tekið þátt í slikri vitleysu.

4. Mikill æsingur var í öllum. Ég var að leika mér að kasta bopparabolta út um allt, piltur úr flugdrekum var með öxi og var að leika sér með hana (!), sumir voru góðir og æfðu sig í hnútabindingum og nokkrir voru úti að fíflast. Í öllum þessum æsingi komst vinur minn upp á bakið á foringjanum sem náði honum ekki af sér. Foringjanum fannst þetta allt í lagi og hafði bara gaman af. En allt í einu birtist ung og falleg kona í dyrunum og horfir á foringjann. Ímyndið ykkur að vera að ung og falleg kona, ganga inn í skátahúsið á Akureyri og sjá þar bara ágætlega „handsome“ mann með smákrakka allt í kringum sig og með einn á bakinu! Konan gekk strax í burtu og herra foringi varð svo reiður við okkur að ég get varla lýst því.

Þetta eru bara fjögur dæmi um hvernig skátafundir voru hjá mér. Útilegur voru líka eitthvað á sömu leið. Ég man t.d. eftir mörgu skemmtilegu sem gerðist á landsmóti skáta við Úlffljótsvatn. Var einhver þar?

kv.
miles.