(sent inn vegna mjög dræms áhuga á “foringjaspjallinu)

Sæl og blessuð skátasystkin,

Vil biðja á því að þakka fyrir þennan nýja og skemmtilega umræðugrundvöll sem okkur skátunum hefur verið búinn. Þetta er gott framtak og vonandi verður það til þess að lífga upp á alla umræðu um málefni okkar skátanna í framtíðinni.

Erindi mitt er hinsvegar af öðrum toga en að dásama þennan vef.

Þar sem ég bý nú í Noregi hef ég ekki getað fylgst eins vel með því sem er að gerast í ”skátaheimum“ þessa dagana og þykir mér það mjög miður, þar sem málefni okkar hefur mér ætíð verið mikið hugðarefni á áhugamál. Ég hef þó fengið fréttir af og til frá því sem gerst hefur. Nú síðast frá nýafstöðnu Skátaþingi. Þaðan bárust mér þó ekki mjög gleðilegar fréttir að þessu sinni…

Bandalag íslenskra skáta (og Skátasamband Reykjavíkur ef út í það er farið) hafa á undanförnum árum sífellt verið að auka við starfsemi sína og það er kannski bara hið besta mál. En hins vegar tel ég það mikið óheillaspor að gefa BÍS völd yfir skátafélögunum á þann hátt sem Skátaþing samþykkti nú á dögunum! Að mínu mati ætti BÍS ekki að hafa nokkurt einasta vald yfir hverju skátafélagi fyrir sig. Nú kunna kannski einhverjir að vera mér ósammála og það er þá líka bara þeirra mál. Við skátarnir verðum nefnilega að fara að hætta að hugsa um að við séum einhver góðgerðasamtök og að við sinnum einhverjum skyldustörfum. Skátafélögin eru í raun þjónustufyrirtæki og það hlýtur að vera hverju skátafélagi kappsmál að þeirra þjónusta sé sú besta sem völ er á hverju sinni, því ef þjónustan er léleg þá kaupir hana enginn!

Og þar sem skátafélögin eru í raun í hörðum og ströngum viðskiptarekstri, er þá ekki mjög óeðlilegt að til sé einhver yfirstofnun sem segi okkur hvernig við megum haga okkar rekstri? Og í framhaldi af því, ætti einhver að hafa vald til þess að ”loka sjoppunni“ þó svo honum finnist ekkert ganga að ”selja“ nema þeir sem reka ”sjoppuna“? Það finnst mér allavega ekki og þar af leiðandi varð ég mjög undrandi og reiður yfir því að Skátaþing hafi samþykkt að veita BÍS nákvæmlega þetta vald!

Annað sem ég hef alltaf litið miklu hornauga er hinn svokallaði ”skattur“ sem skátafélögin greiða til BÍS. Það getur vel verið að BÍS þurfi á þessum peningum að halda en gætu skátafélögin ekki notað þessa peninga líka? Og ef út í það er farið, í hvað fara þessir peningar? Ef það eina sem peningarnir fara í eru bækurnar sem hægt er að ”taka út“ í staðinn, mætti þá ekki alveg eins rukka bara fyrir bækurnar og sleppa skattinum? Í dag er skatturinn 900 kr. á hvern starfandi skáta. Fyrir 100 manna skátafélag þýða þetta í raun tapaðar tekjur upp á 90000 kr. á ári! Ég veit ekki með ykkur en okkar skátafélag gæti án vafa notað þessa peninga í eitthvað gagnlegt á hverju ári, auk þess sem bækurnar sem við ”fáum“ frá BÍS geta nú varla kostað svona mikið…

Ég legg til að á næsta Skátaþingi verði lögð fram sú lagabreytingatillaga að afnema skattinn með öllu og að völd BÍS verði takmörkuð að svo miklu magni sem mögulegt er. Að mínu mati á BÍS að vera þjónustu og ráðgjafaraðili fyrir aðildarfélög þess en ekki eitthvað yfirvald þeirra. Það sama á við um skátasamböndin, völd þeirra á að minnka niður í nánast ekki neitt enda var upphaflegur tilgangur þeirra allt annar en hann er í dag og er það að mínu mati slæm þróun.

Nú kunna einhverjir að spyrja sig: ”En hvernig á þá að fjármagna rekstur BÍS???“ Einfalt, BÍS getur bara selt sína þjónustu eins og skátafélögin, námskeiðin, bækurnar og jafnvel eitthvað fleira, t.d. skátafatnað. Einnig er hægt að selja námskeiðin út til annarra en skáta, auk þess sem fjárveiting frá ríkinu berst á hverju ári. Ef það dugir ekki til þá er einfaldlega að draga úr rekstrinum eða hagræða honum, mér er til efs að hann sé rekinn á hagkvæmasta máta í dag hvort eð er…

Vona að einhverjir hafi eitthvað til málanna að leggja í þessa umræðu. Lifið heil í góðum skáta”fílíng".

Með kærri kveðju frá Osló,
Laddi.
{iwrb} - Mellon