Datt í hug að segja aðeins frá Gilwell námskeiðunum. Þetta er nú bara lítið brot af sögu Gilwell, en bætið endilega við.
Að morgni 8. september árið 1919 gekk Baden-Powell inn að miðju rjóðurs á Gilwell Park. Hann bar Kudu-horn (horn af ákveðinni tegund antilópu) að vörum sér og blés kröftuglega. Nítján menn, íklæddir stuttbuxum og hnjásokkum og með uppbrettar ermar, söfnuðust saman og markaði þessi stund upphaf fyrsta foringjanámskeiðsins sem haldið var á Gilwell Park. Þegar námskeiðinu lauk gaf Baden-Powell hverjum þátttakandaeinfalda perlu úr festi sem hann hafði fundið í yfirgefnum kofa Zulu-höfðingja í Suður-Afríku árið 1888. Þetta námskeið tókst vonum framar og hefur verið haldið árlega nánast allar götur síðan. Lengst af var miðstöð þessarar þjálfunar í Gilwell Park fyrir öll lönd. Yfirmaður Gilwell Park bar jafnan titilinn Camp Chief(skammstafað C.C.) en stjórnandi þjálfunarinnar í hverju landi bar titilinn Deputy Camp Chief (D.C.C.) og leiðbeinendur báru titilinn Assistant Deputy Camp Chief (A.D.C.C.)
Tryggvi Þorsteinsson, Ingólfur Ármannsson og Björgvin Magnússon eru einu Íslendingarnir sem borið hafa titilinn D.C.C. Fyrsta Gilwell námskeiðið á Íslandi var haldið árið 1936 í Þrastarskógi og stjórnandi þess var Breti að nafni Reynolds.
Þennan texta fékk ég í hendurnar daginn áður en ég lauk Gilwell námskeiði á Úlfljótsvatni í ágúst í fyrra. Ég get varla sagt annað en það að vera hluti af einhverju svo stórfenglegu og einstöku sem Gilwell er, gerir mann ansi stoltan og ánægðan. Það er ekki nóg með að þetta námskeið kenni manni allt milli himins og jarðar sem maður vissi ekki, heldur er þetta vettvangur til að kynnast nýju fólki, á grundvelli sem maður hafði varla þekkt áður. Þarna er manni skellt í flokk með fólki sem maður þekkir misvel, marga jafnvel ekki neitt, og verður að búa með þeim í rúma viku. Og það er ekki eins og að það hafi verið manni einhver kvöð að þurfa að dvelja í sífellu með sama fólkinu, heldur var hver dagur öðrum betri. Vilji flokkanna til að vera með flotta og snyrtilega tjaldbúð jaðraði við þráhyggju, og menn voru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig fyrir tjaldbúðaverðlaun.
Vissulega voru fyrirlestrarnir margir og misáhugaverðir, en alltaf var maður að heyra eitthvað nýtt. Kannski var það hitinn sem dró mann örlítið niður, en það er erfitt að sitja inni í skála og hlusta fyrirlestur þegar sólin skín í heiði og hitinn inni orðinn nánast óbærilegur.
Þó er fátt minnisstæðara en kvöldvökurnar. Björgvin Magnússon D.C.C. er tvímælalaust konungur kvöldvökustjórnunar á Íslandi. Það kom aldrei sú kvöldvaka að hann kæmi ekki með eitthvað nýtt lag, eða einhverja skemmtilega sögu, og oft varð hann svo æstur að við vorum orðin hrædd um heilsu hans.
En allir góðir hlutir taka enda. Þegar kommið var að kveðjustund var fátt meira svekkjandi en einmitt að hugsa til þess að þetta myndi maður ekki gera aftur. Gilwell er eitthvað sem maður tekur bara þátt í einu sinni á ævinni, svo að minningarnar verða að duga. En þetta námskeið er bara svo miklu meira en minning. Það sem eftir situr hjá mér eru annars vegar ómetanleg reynsla og þekking sem ég get miðlað til minna skáta, og hins vegar sterk og góð vinabönd sem maður myndaði við samferðafólk sitt.
Ég vil hvetja alla skáta sem eiga þetta eftir að drífa sig við fyrsta tækifæri. Þó svo að þið séuð kannski dálítið efins núna, þá get ég lofað því að ykkur snýst hugur strax á fyrsta degi.