Mig langaði bara að tilkynna það að fyrrverandi félagsforingi Skjöldunga, Bjarni Þröstur Lárusson er látinn :/.
Hann fæddist í Reykjavík þann 31. júlí 1957. Hann lést á sjúkrahúsi í Skien í Noregi 8. janúar síðastliðinn. Hann var þjáður af krabbameini.
Útför hans fór fram í Langholtskirkju í gær/þann 17 janúar.
Í stað þess að umorða þetta eitthvað frekar þá ætla ég að taka minningargrein upp úr Morgunblaðinu eftir Eirík G. Guðmundsson núverandi félagsforingja í Skjöldungum.
“Bjarni Þröstur Lárusson gerðist ungur skáti. Hann var einn fjölmargra drengja sem mynduðu Skátafélagið Skjöldunga á stofndegi þess 5. október 1969. Þá gengu liðsmenn hins nýja félags frá heimili Dalbúa við Dalbraut, þar sem Skjöldungadeild hafði verið, í nýjar höfuðstöðvar í kjallara Vogaskóla sem þá var ungur skóli í byggingu. Í félaginu voru þá drengir sem einkum áttu heima í hverfum þar sem sund, vogar og heimar eru í götuheitum.
Bjarni Þröstur var 12 ára þegar þetta gerðist. Næsta aldarfjórðung starfaði Bjarni Þröstur í félaginu af miklum dugnaði. Hann gegndi þar ýmsum störfum, var m.a. sveitarforingi Minkasveitar og síðar félagsforingi. Það er óhætt að segja að hann hafi löngum verið vakinn og sofinn í þágu félgasins og lykilmaður í mörgum verkum. Hann vann t.d. ötullega við að byggja upp starf útilífsskóla félagsins og var einn forgöngumanna um kaup á Hleiðru, skála félagsins við Hafravatn. Þannig mætti lengi nefna störf eða einstök verkefni sem Bjarni Þröstur lagði gjörva hönd í þágu Skjöldunga.
Við fráfall Bjarna Þrastar er efst í huga okkar Skjöldunga þakklæti til hans fyrir vel unnin störf og langan og farsælan feril. Í hugum okkar nú er sorg en um ókomna tíð lifa bjartar minningar um góðan félaga.”
Loka hlutinn á greininni eru í Morgunblaðinu 17. janúar 2003 B hluti bls. 32.