Þetta átti hvorki að vera löng né erfið ferð, planið var semsagt að fara úr bílum á nokkurn veginn miðri Hellisheiðinni, man ekki nákvæmlega hvar, labba í svona klukkutíma þar sem við tjölduðum og gistum, svo daginn eftir var stefnan tekin á Úlfljótsvatn. Ágætis dagleið sem flest okkar höfðu farið áður.
Planið stóðst í byrjun, á föstudagskveldið var keyrt upp á Heiði, við gengum reyndar aðeins lengur en við héldum og tjölduðum í fínni laut, í smá rigningu. Við vorum þrjú í tveggja manna kúlutjaldinu mínu ásamt farangri en þröngt mega skátar sofa! lappir einfaldlega settar upp á bakpoka og fundin eitthver mátulega þægileg hlið til að sofa á. Það reddaðist allt. Svo um morguninn vöknuðum við reyndar um 7-8 leytið við það að tjaldið var að falla saman vegna vindsins. Þá hafði hvesst allhressilega um nóttina og kúlutjaldið sem var ekki gert til þess að þola nein hrikaleg ofsaveður lagðist saman í verstu hviðunum. Við tókum því eins og hver önnur heljarmenni, klæddum okkur, pökkuðum því sem við gátum pakkað og fórum út. Úti var veðrið litlu skárra eins og gefur að skilja, úrhellisrigning og rok. Ekta íslenskt sumarveður! Útbúnaðurinn var nú ekki fullkominn, ég var ekki í neinni 40.000kr north face úlpu heldur bara venjulegum anorak og vindbuxum en þetta var heldur engin jöklaferð heldur bara labbitúr í góðra vina hópi - og með nokkrum veðurguðum í för.
Eftir einungis 5 mínútna bið eftir að hitt fólkið kæmi út úr tjöldunum var ég orðin blaut inn að beini af rigningu. Ojæja, það varð að hafa það, enginn er verri þó hann vökni.
Eftir smá basl var haldið af stað í átt að Úlfljótsvatni. Fólk var með misþunga poka, enda bárum við tjöld og mat á bakinu. Veðrið skánaði ekki yfir daginn heldur má segja að það hafi versnað. Ég hef bara aldrei séð jafn mikla rigningu! Hversu gífurlegt magn af vatni féll þarna til jarðar er ofar mínum skilningi, en það var gríðarlegt. Ég held ég hafi sjaldan verið í jafn blautum fötum og með jafn blautan poka á bakinu. En ekki dugir að kvarta - áfram héldum við!
Labbið varð langt og mikið og auðvitað tókst fararstjórum að fara aðra leið en upphaflega hafði verið ákveðið - lengri leið. Við vorum orðin svo blaut að á tímabili gengum við ofan í ánni sem var þarna í staðinn fyrir uppi á bakkanum, það skipti nákvæmlega engu máli bleytulega séð og undirlagið var betra.
Eftir langa og stranga göngu í þessu skemmtilega roki og rigningu var loks komið á Úlfljótsvatn um kvöldmatarleytið (upphaflegur komutími var um kaffitímann) en þar sem tjöldin okkar voru orðin u.þ.b. 50% vatn þá lögðum við ekki í að sofa í þeim og fengum í staðinn leyfi til að gista í Strýtunni sem fyrir þá sem þekkja ekki til staðhátta stórt sirkustjald með tréveggjum og botni. Vorum við mjög ánægð með þá úrlausn mála og hófst þá að reyna að finna eitthver þurr föt til að fara í. Í stuttu máli sagt: það tókst EKKI!
einungis einn okkar hafði verið svo hugulsamur að pakka öllu ofan í plastpoka, enda var hann sá eini sem átti eitthvað þurrt að fara í. Ég fann tvo þurra bletti á svefnpokanum mínum, annar var með svona hálfþurran (semsagt helmingurinn af honum var vatnsósa, hinn helmingurinn ekki jafn blautur) og þaðan af fram eftir götunum. Okkar beið skemmtileg nótt=)
Sem betur fer hafði þessi sem var með plastpoka ofan í bakpokanum sínum óvart tekið bol frá mér í misgripum svo ég fékk þurran bol! mjög hentugt. Svo var bara breitt úr þessum eina þurra svefnpoka og við hrúguðum okkur þrjú undir hann. Aðrir áttu ekki eins þægilega nótt..
Engu að síður lærðum við öll mikið af ferðinni sem þrátt fyrir allt var hin skemmtilegasta! T.d. hef ég aldrei farið í ferð síðan án þess að hafa allt mitt í plastpokum… =)
Vona að enginn komi með skítkast! Og hafið haft gaman af! =)
Daddy, don't ever die on a friday! It can seriously damage your health!