Fyrir ykkur sem hyggja á að starfa með Hjálparsveitum skáta í framtíðinni, eða ykkur sem gera það nú þegar, datt mér í hug að segja örlítið frá dæmigerðri nýliðaferð:

Klukkan 08.00 lögðum við af stað, 13 manns, á vetrarfjallamennskunámskeið sem halda átti við Skessuhorn á Skarðsheiði. Bíltúrinn var prýðilegur. Ókum Hvalfjörðinn í rólegheitum, hlustuðum á músík og tókum því rólega.
Klukkan 09.45 komum við á áfangastað og hentum dótinu okkar úr bílnum. Fyrir ferðina var það gefið til kynna að við myndum tjalda “rétt hjá” veginum, kannski 30 mínútna labb. Svo við lögðm af stað. Eftir fimm mínútur var farið að hellirigna. Létum það ekki á okkur fá fyrsta hálftímann, en þegar við vorum búin að labba í þrjá tíma var okkur farið að líða ansi ömurlega. Loks komumst við þó á áfangastað. Flötin var öll gegnsósa, en það var þó ekki farið að frysta, þannig að þetta virtist ætla að vera í góðu lagi. Hentum upp tjöldunum okkar, sem voru löngu orðin rennblaut, og tókum svo til við að snæða. Eftir mat var svo haldið áleiðis upp á Skessuhorn svo hægt væri að finna einhvern snjó til að kenna okkur eitthvað. Eftir klukkutíma labb fundum við ágætis skafl og lékum okkur að því að útbúa snjótryggingar. Þarna dvöldum við dágóða stund, en héldum svo til baka um klukkan 17.15. Klukkan 18.30 vorum við komin til baka í búðirnar okkar, og vorum við farin að vonast eftir smá hvíld. En…nei…Leit að snjóflóðaýlum!!! Þrælskemmtileg dægrastytting í roki og úrhellisrigningu. Þegar við höfðum leitað í hálftíma fengum við nóg. Sjálfur var ég orðinn svo ógeðslega blautur og kaldur að mig langaði helst til að fara beint að sofa.
Þegar ég opnaði tjaldið blasti við pollur. Tjaldið var kannski ekki alveg vatnshelt. En jæja, ég opnaði bakpokann til að ná í svefnpokann. Ekkert þurrt í bakpokanum, nema maturinn sem var í lokuðum plastpoka. Svefnpokinn var blautari en allt sem blautt getur talist. En mér leið hvort eð er það ömurlega að ég skreið samt í hann, og sofnaði furðu fljótt. Klukkan 10.20 vakti félagi minn mig og sagði mér að við ætluðum að skipta um tjald. Áþessum tímapunkti fann ég ekki fyrir tánum á mér og tennurnar voru við það að molna í sundur af skjálfta. Ég snaraði með mér blautu föðurlandi og vel röku sokkapari, ásamt svefnpokanum góða og hélt í næsta tjald. Þar var þokkalega þurrt og bara nokkuð hlýtt. Eftir að ég hafði bylt mér í u.þ.b. klukkustund vegna bleytu og kulda sgaði annar félagi minn mér að setjast upp og losa mig við svefnpokah*lv*t*ð. Fékk ég lánað teppi og flíspeysu, sem ég þáði með þökkum, auk þess sem ég skellti á mig lamhúshettu sem ég dró upp fyrir nef. Þarna kúldruðumst við fjögur, í tjaldi sem rúmar tvo ásamt farangri með þokkalegu móti, og reyndum að festa svefn. Átti ég í mestu erfiðleikum með að sofna og bylti mér ótt og títt, og þar sem ég hafði enga klukku hafði ég ekki hugmynd um hvað þessar byltingar ættu eftir aðstanda lengi. Milli klukkan 04.00 og 05.00 breittist rigningin í slyddu, og svo í snjókomu. Nú var sko komið frost. Jibbí! Rúsínan í pylsuendanum. Eftir sem áður tókst mér að dotta eitthvað aðeins og klukkan fimm vorum við ræst á lappir. Nú átti sko að labba upp á toppinn á Skessuhorni í rólegheitum. Þar sem ég gat varla talað fyrir skjálfta og viðbjóði, kominn með kalbletti á hendurnar, og gat vart hreyft mig vegna kulda, afþakkaði ég pent. Niðustaðan varð sú að við ákváðum þrjú að vera eftir. Ég fann þurran svefnpoka og dröslaðist á ullarnærfötunum og lambhúshettunni, íklæddur plast skóm, yfir í tjaldið til hinna tveggja. Þar tókst okkur að ná í okkur smá hita á nokkrum klukkutímum. Klukkan 14.00 kom fyrsti hlutinn af hópnum til baka. Það var þá góður vinur minn sem hafði fengið nóg og snúið við.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum átti að sækja okkur klukkan 17.00 á sama stað og okkur var sleppt út deginum áður, svo ekki var seinna vænna en að fara að pakka saman. Svo út fór ég aftur og yfir í tjald númer 1, sem nú var gaddfreðið, ásamt meirihluta þeirra fata sem ég þurfti á að halda. Fór ég í eina flík á fimm til fimmtán mínútna fresti, allt eftir hitastigi flíkurinnar, þar til ég var fullklæddur. Hentum við þá draslinu okkar saman, og klukkan 16.30 vorum við ferðbúinn. Hins vegar voru átta manns ennþá eftir uppi á fjalli. Hmm…? En…það er þeirra vandamál. Það skipti okkur miklu máli að ná að labba til baka í einhverri birtu svo við lögðum af stað án þeirra. Stikluðum yfir litla á og allt gekk með besta móti. Eða þangað til við komum að seinni ánni. Þá var farið að dimma ansi mikið og bakkar árinnar höfðu hækkað ískyggilega vegna vatnsveðursins um nóttina. Lausn: Vaða! Aldrei nokkurn tímann hefur verið jafn viðbjóðslegt að vaða yfir eina á og akkúrat þarna. Mér hafði tekist að halda mér þokkalega heitum fram að þessum punkti göngunnar, en það fór allt til fj*nd*ns þarna. Komum upp á veg klukkan 18.10, og vorum nokkuð ánægð með þennan tíma, en bakaleiðin var öll niður í móti.
Allavega…enginn bíll. Svo við hringdum í bílstjórann. Þá var hann að koma upp úr Hvalfjarðargöngunum vegna þess að þegar hann var á leiðinni að ná í okkur klukkan 15.00 var hringt í hann ofan af Skessuhorni og hann beðinn að koma klukkan 19.00. Svo við biðum. Þá byrjaði aftur að rigna og kólna. Vatnið í plastskónum var farið að kólna verulega og leiddi tað alla leið upp í hvirfil. Sungum við nokkur skátalög til að ná í smá yl í kroppinn, og viti menn, svínvirkaði! Brussa og Boddon Sjú eru bestu meðulin við kulda. Kærkominn bíllinn kom svo um klukkan 19.00. Fleygðum við þá af okkur rennblautum hlífðarfötunum og rukum inn í heitan bíl. Tókum til við að hjálpa bílstjóranum að leggja kapal í laptopnum í bílnum á meðan við biðum eftir hinum.
Klukkan 20.00 var komið kolniðamyrkur og rigningin var orðin að slyddu. Rokið var svo gífurlegt að 4 tonna trukkurinn lék á reiðiskjálfi. Klukkan 21.00 voru bræður og mæður byrjuð að hringja til að spyrjast fyrir um fólkið sitt, en því miður var fátt um svör. Klukkan 21.30 fengum við svo símtal frá hópnum. Þá voru þau að koma niður í búðirnar og að byrja að ganga frá dótinu sínu. Svo við biðum lengur.
Klukkan 23.45 fárum við að sjá ljósin frá hópnum og sáum við þá loksins framá það að að geta lagt af stað heim. Biðin dróst þó aðeins lengur því þau virtust eiga í einhverjum erfiðleikum með að komast yfir blessaða ána. Klukkan 00.15 kom hópurinn svo loksins og við lögðum af stað heim. Eftir fimm mínútna akstur blikkuðu blá ljós fyrir aftan okkur og kom í ljós að þar var sjálf Borgarnesslöggan á ferð. Kom á daginn að u.þ.b. 15 manns á nálægum bæjum höfðu hringt í lögregluna vegan ljósagangs á heiðinni og var í bígerð að kalla út björgunarsveitir á svæðinu til leitar. Þessum leiðinda misskilingi var komið á hreint og við héldum áfram. Komum svo í bæinn um klukkan 02.15, rennblaut, ísköld og óhamingjusöm.

Núna sit ég heima með frostsár á löppunum og vægan hita.

Hvet ég ykkur öll til að taka þátt í spennandi og skemmtilegu starfi hjálparsveitanna. Þetta er mögnuð og gefandi reynsla, sem lætur engan ósnortinn.

Kveðja,
Baddinn