Fjölskyldur innan félaga Ég fór að hugsa um þá lægð sem liggur yfir skátastarfinu í félaginu mínu sem ég kýs ekki að nefna, þó svo að margir/sumir viti um hvaða félag er rætt

Þegar að ég byrjaði í skátunum árið 1995 þá var mikið blómaskeið í félaginu, það var alltaf verið að gera eitthvað hjá dróttskátunum og mann hlakkaði bara til að vera eldri og byrja í dróttskátum. Reyndar voru skiptar skoðanir um félagsforingjann. En það er ekki aðalatriðið. Það sem hann hinsvegar gerði var það að hann dreifði störfum til skátanna. Stöður fararstjóra og þess háttar var allt boðið út.

Fyrir nokkrum árum lét svo félagsforinginn af störfum og annar tók við. Nokkur ánægja var með þann félagsforingja þar eð hann var mikill útivistarmaður og var nokkuð nálægari en fyrri félagsforinginn hafði verið. Annað átti hinsvegar eftir að koma á daginn. Maðurinn hafði bara ekki það sem til þurfti til þess að vera félagsforingi. Satt best að segja hefði dróttskátaforingjastaðan hentað honum betur.

En það var ekki nóg. Fljótlega tóku hinir ýmsu fjölskyldumeðlimir hans að planta sér í ábyrgðarstöður innan félagsins. Hætt var að bjóða út stöður heldur tók dóttir hans að sér að sinna öllum störfum smáum sem litlum. Auk þess sem lítill eða enginn vilji var til þess að starfa með manneskjunni vegna persónuleika hennar. Það gerði hana nánast að alvaldi. Það er eitthvað sem er af hinu illa. Eftir þetta tókust hlutirnir meira eða minna að drabbast niður og hafa verið að gera það að undanförnu. Dróttskátarnir sem er búið að vera að þjálfa meira eða minna eru með gagnslausa þjálfun í höndunum hvað þetta varðar. Næstum engar líkur eru á að þeir komi nokkurn tímann til með að nota hana.

Svo er annað sem er nokkuð hættulegt. Það er það að drepa niður allt frumkvæði hjá dróttskátunum. Dróttskátarnir í þessu ágæta félagi voru settir í sveit, alveg eins og sveitin sem þeir komu úr og yfir þeim var dróttskátaforingi sem teymdi þá áfram, þeir máttu ekki gera neitt án leyfis. Það er ekki góður hlutur. Það er dráp á góðu skátastarfi.

Ég veit að svona fjölskylduklíkuskapur er annars staðar við líði. Þó svo að ég efist um það að hann sé svona svakalegur eins og mínu félagi. Þetta er hvarvetna orðin vá. Valdasjúk börn félagsforingja byrja að hengja utan á sig orður og setjast í eins mörg sæti og hægt er.

Til þess að sporna við því að skátastarf leggist út af, er að virkja sem flesta einstaklinga. Það er ekki gert með því að sama manneskjan sjái um öll verkefni.

Með kveðju
Magnicum