Datt í hug að stofna nýjan kork yfir eftirminnilegar skákir sem menn hefðu annað hvort teflt eða séð. Skákin sjálf þarf ekki endilega að fylgja með heldur sagan í kringum hana.
Ein eftirminnileg skák sem ég tefldi fyrir nokkrum árum var á hraðskákmóti. Ég man ekki mikið eftir skákinni sjálfri fyrr en í lokin að hlutirnir fóru að gerast. Ég var með betra tafl og andstæðingur minn kominn í tímahrak, þá fór hann allt í einu að fleygja mönnunum á reitina, oftast með þeim árangri að þeir hittu ekki eða ultu á hliðina og barði síðan á klukkuna með miklum látum. Fyrst í stað eyddi ég tíma í það að laga mennina í mínum tíma, en sá síðan að með sama áframhaldi þá yrði það ég sem félli á tíma en ekki hann. Þannig að nú voru góð ráð dýr, hvað gat ég gert? Það var náttúrulega möguleiki að kalla á skákstjóra og heimta það að hann léki almennilega, en einhvern veginn leist mér ekki allt of vel á það, það mundi enda með rifrildi og látum og mig grunaði að hann væri sú manngerð sem liði vel í þannig aðstæðum. Þannig að ég ákvað að beita bara sömu taktík og hann, hætti að laga mennina og fleygði mínum mönnum eitthvað á borðið líka. Þannig hélt þetta áfram, við fleygðum mönnunum sitt á hvað í einhverja hrúgu á borðið og börðum klukkurnar þangað til hann féll á tíma, þá tók hann sig til og sópaði öllum mönnunum út á gólf og rauk í burtu (fannst örugglega að ég hefði komið óheiðarlega fram við sig). Þeir sem fylgdust með lokunum hjá okkur hristu bara hausinn yfir allri þessari vitleysu. En samt gaman að þessu svona eftirá.