Skemmtileg tilviljun að þú skulir spyrja að þessu því ég var einmitt að lesa um hann í gær í bók sem heitir World Chess Champions. Þó ég viti upp á hár hver þetta er ætla ég samt að sleppa því að svara en gefa í staðinn nokkrar fleiri upplýsingar um hann. Hann fæddist árið 1911 og lærði frekar seint að tefla eða þegar hann var 12 ára. 14 ára vann hann Capablanca í fjöltefli og spáði Capablanca því að hann ætti eftir að ná mjög langt. 20 ára vann hann sovéska meistaramótið í fyrsta sinn en hann vann það sjö sinnum á ferlinum, oftar en nokkur annar.
Hann var menntaður sem rafmagnsverkfræðingur og vann við það á milli þess sem hann tók þátt í skákmótum. Hann tók sér oft löng hlé frá skákinni (2-3 ár) og einbeitti sér þá að vinnunni. Eftir að hann varð heimsmeistari tefldi hann yfirleitt mjög lítið á milli heimsmeistaraeinvígja en hann var heimsmeistari frá 1948-1963 með einhverjum smáhléum (þá tíðkaðist það að heimsmeistarinn vann á jöfnu sem hann gerði einu sinni og hann hafði rétt á öðru einvígi innan árs ef hann tapaði, sem hann nýtti sér tvisvar). Mig minnir að hann hafi verið kallaður vélmennið eða eitthvað í þá áttina m.a. vegna þess hversu vel undirbúinn hann var alltaf, gerði mjög sjaldan mistök og yfirleitt stóð hann aldrei upp frá borðinu á meðan skák stóð og sýndi aldrei nein svipbrigði, það var eins og menn væru að tefla við óskeikult vélmenni.
Annars er hann kannski þekktastur fyrir það hversu vísindalegum tökum hann tók skákina og hversu mikla vinnu hann lagði í hana og það er t.d. sagt að hann hafi aldrei teflt sér til gamans (og þá sennilega aldrei teflt hraðskákir). Sem dæmi um þetta er t.d. það hann lét þjálfara sinn reykja meðan þeir tefldu æfingaskákir til að venja sig við tóbaksreykinn (hann var reyndar mjög á móti reykingum), lagði mikla áherslu á gildi þess að vera í líkamlega góðri þjálfun, þjálfaði einbeitingu við hinar ýmsu aðstæður og ýmislegt fleira.
Ég man nú ekki mikið meira nema það að hann hætti að tefla mjög fljótlega eftir að hann tapaði heimsmeistaratitlinum 1963, m.a. af heilsufarsástæðum en einnig hafði hann fengið mikinn áhuga á tölvuskák og eyddi því sem eftir var ævinnar í að rannsaka hana. Hann lést árið 1995.