Fyrstu kynni mín af skák svo ég man eftir var í 1. eða 2. bekk í grunnskóla. Þá var boðið upp á námskeið í skák í skólanum og ég og vinkona mín skelltum okkur.
Það er nú ekki mikið af því að segja en í lok námskeiðisins var haldið “mót” og ég var sigurvegarinn.
Það var nú eitthvað til að bæta upp á sjálfstraustið og mig langaði til að tefla meira.
Pabbi fór að leitast fyrir og komst að því að það væru helgaræfingar upp í TR og ég skellti mér þangað.
Það sem ég man eftir þessum fyrstu æfingum er að fyrir voru svona 4-5 strákar, og þeir voru í landsliðinu eða eitthvað álíka ef ég man rétt.
Ég mætti á hverja æfinguna á eftir annarri, algjör byrjandi, tapandi hverri skákinni á eftir annarri á móti þessum ofjörlum mínum. Ekki það skemmtilegasta en ég efast ekki um að þetta hafi verið góð æfing.
Tíminn líður, stofnuð er skólasveit í skólanum mínum og hvert mótið tekur við af öðru.
Svo uppgötva ég möguleikana sem felast í stúlknasveit. Ef þú ert í stúlknasveit þá þarftu bara að mæta á mót og þá áttu örugga medalíu.
Þetta kerfi var svo líka tekið upp á æfingunum og medalíurnar hrönnuðust upp.
Þetta gerði sitt, það er mun skemmtilegra að koma heim með medalíu og maður hélt áfram að mæta. Núna horfi ég á þennan bunka af medalíum og finnst helmingurinn frekar ómerkilegur því mér finnst ég ekki hafa unnið fyrir honum.
Í lok 8. bekkjar mætti ég á síðustu skákæfinguna mína á vegum TR, ég vann allar skákirnar mínar, þar á meðal vann ég kennarann (fjölskák, vann á tíma).
Ég get talið upp fjölda ástæðna fyrir þvi að ég hætti, s.s. :
-ég var orðin lang elst þarna, allir á mínum aldri hættir
-ég var komin með nóg, búin að vera að tefla í mörg ár
-gelgja og kjánaskapur
Svona í 9. bekk fóru bræður mínir að standa fyrir skákæfingum, fyrir alla, ég mætti nokkrum sinnum, en það varð ekkert úr þessu.
Jæja, hér stend ég í dag, komin með áhugann aftur en er algjörlega úti á þekju í skákheiminum. Ég er orðin of gömul fyrir þessar helgaræfingar sem taflfélögin standa fyrir, ég er ekki með skákstig og ég veit ekkert hvað er að gerast…
Það er yndislegt að sjá svipinn á blessuðum drengjunum þegar þeir uppgötva að þeir hafa tapað fyrir stelpu, þessi svipur er alltaf til staðar, jafnvel þó þeir séu langt um yngri en stelpan og í mun minni æfingu. Strákar eru og verða alltaf strákar.
Mig langar til þess að sjá þennan svip aftur!
Ég veit þessi grein er frekar tilgangslaus, en ég er aðallega að losa um biturðina. Ég var að skoða vefsíðu Taflfélags Reykjavíkur og sá að stelpa sem ég man eftir úr skákinni er búin að vera Reykjavíkurmeistari stúlkna síðustu 4 ár.
Ég hætti fyrir hvað? 4-5 árum?
Þetta hefði getað verið ég. :D