Jóhann Þórir Jónsson var upphafsmaður að svokölluðum: helgarskákmótum sem hófust árið 1980 og þau voru haldin víða um landið. Á mörgum smærri stöðum þótti þetta mikill viðburður í augum skákáhugamanna viðkomandi staða og fá góða skákmenn í heimsókn. Jafnvel stórmeistarar gátu átt það til að koma á þessi mót svo þeir sem voru bara áhugamenn gátu jafnvel lent í þeirri stöðu að tefla við stórmeistara, ekkert slor það.
Mér vitanlega hafa þessi helgarskákmót legið niðri því ég hef ekki heyrt um þau í nokkurn tíma. Ef þau hafa legið niðri eða það sé hætt með þau þykir mér það miður. Ég tel að á sínum tíma hafi Jóhann Þórir unnið þarna gott og þarft verk sem þarf að halda vel á lofti. Ég tel að þar sem Hrókurinn sé að boða fagnaðarerindi skákarinnar sé þetta einmitt verkefni sem henti þeim vel.
Ég sakna þessara móta því það var alltaf gaman að fylgjast með þeim í blöðum og tímaritinu skák sem var gefið út þá og vonandi er það gefið út ennþá. Það var gaman að sjá hvar þau væru haldin, hve margir tefldu og hve margir meistarar og stórmeistarar mættu og hverjir unnu viðkomandi mót og hvaða heimamaður stóð sig best. Af og til voru skákir birtar frá viðkomandi móti og þá var það siður hjá mér að taka fram taflborðið og skákmennina og fara yfir skákina.
Ekki veit ég hvort þið sem teflið í dag munið eftir þessum helgarskákmótum! Ég man eftir þeim og sakna þeirra því ég fór á eitt svona mót þá bara sem áhorfandi og sjá allar sínar Íslensku skákhetjur og það var upplifelsi út af fyrir sig hjá mér, ganga með fram borðunum og fylgjast með skákmönnunum tefla og sjá hin ýmsu tilþrif á reitunum 64. Já og svo reyndi ég að læra eitthvað af þeim sem ég var að fylgjast með.
Eftir að þessum helgarskákmótum lauk eða urðu minna áberandi fannst mér eins og skákmenning og skáklífið færi aðeins í dvala, en sem betur fer finnst mér að skákin sé á uppleið. Því áður en tölvurnar komu tefldu menn hver á móti öðrum, en við nútímabörn getum notað tölvuna okkar sem heima er og jafnvel teflt við fólk frá Japan, Kína, Bandaríkjunum, Rússlandi og fleiri löndum. Ég hef lent í því að slysast að tefla við Íslendinga líka og það á www.yahoo.com Ég hef oft notað spjallið á þessum skákþræði hjá yahoo og þegar maður spyr hvaðan viðkomandi er þá kemur stundum upp nafnið Ísland. Sem er bara mjög gaman.
Ég vona að lokum að þessi helgarskákmót verði vakin upp aftur og að þau fari sem víðast um landið og breiði út fagnaðarerindi skákarinnar.