Oz Nýlega var byrjað að sýna á Stöð 2 hina mjög svo ágætu þætti “Oz”.
Þættirnir gerast í fangelsi í Bandaríkjunum og segja frá því sem á sér stað þar innan veggja. Þættirnir eru gerðir fyrir HBO sjónvarpsstöðina og voru fyrstu dramaþættirnir sem gerðir voru þar (“The Sopranos” og “Six feet under” komu seinna). Höfundur að svo til öllum þáttunum er Tom Fontana sem hafði áður gert m.a. Homicide: Life on the Street.

Þættirnir sem verið er að sýna í sjónvarpinu núna voru fyrst sýndir í Bandaríkjunum árið 1997 og eru n.k. kynning á persónum og aðstæðum. Við fáum að fylgjast með bæði föngum og vörðum -innan ákveðins hluta fangelsins sem kallast Emerald City - reyna að halda og ró og lífi undir ómannúðlegum aðstæðum. Flestir fangarnir sitja inni fyrir ofbeldisglæpi - aðallega morð - og því vanir að leysa sín vandamál á mjög einfaldan hátt. Það er samt ekki hægt að setja þá alla undir sama hatt - þeir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Á yfirborðinu skiptast þeir niður í nokkrar klíkur; þarna eru svertingjarnir, aríarnir, Ítalirnir, Puero Rico gæjarnir og múhameðstrúarmennirnir. En þetta eru langt frá því að vera einfaldir hópar þar sem allar persónur eru mjög þrívíðar og margbrotna. Það er hvorki hægt að hafa fullkomna samúð með nokkrum né hata hann. Sumir er viðkunnalegri en aðrir en einmitt þegar maður heldur að maður hefi reiknaða alla út gerist eitthvað sem kollvarpar heila kerfinu. Það sama á við um fangaverðina og stjórnendurna sem halda oftast að þeir séu að gera sitt besta en eiga það til að vera alveg jafn siðblindir, sjálfselskir og heimskir og fangarnir sjálfir.

Helstu persónur:

Leo Glynn (Ernie Hudson): Fangelsisstjóri. Raunsær maður sem reynir eftir bestu getu að hafa stjórn á hlutunum.

Kareem Said (Eamonn Walker): Múhameðstrúarleiðtogi sem reynir (yfirleitt) að halda friðinn og predika guðsótta og góða siði. Hann situr inni fyrir íkveikju og nýtur mikillar virðingar hinna fanganna. Er á móti tilgangslausu ofbeldi en ekki hafinn yfir það að spila með rafmagnað andrúmsloftið í fangelsinu.

Augustus Hill (Harold Perrineau Jr.): Sögumaður - eða öllu heldur n.k. grískur kór. Hann segir ekki beinlínis söguna heldur útlistar helstu þemu. Hann er rólegur náungi og eins hlutlaus og hægt er að vera innan veggja Oz. Situr inni fyrir morð á lögreglumanni og er lamaður fyrir neðan mitti.

Vernon Schillinger (J.K. Simmons): Höfuðpaur aríanna. Situr inni fyrir líkamsárás á eiturlyfjasala. Er mikið á móti eiturlyfjum. Á allt vont skilið.

Miguel Alvarez (Kirk Acevedo): Ungur maður sem uppfyllir örlög sín með því að koma til Oz - þar sem bæði faðir hans og afi eru í lífstíðarfangelsi. Er í tilvistar og trúarkreppu.

Tobias Beecher (Lee Tergesen): Hvítur hvítflibba uppa lögfræðingur sem keyrði fullur á litla stelpu sem dó. Kann ekkert á fangelsið í byrjun og lendir fljótt í þeirri ógæfu að flytja í klefa með Vern Schillinger. Sá byrjar á því að brenna hakakross í rassinn á Beecher og skemmtir sér konunglega við að niðurlægja hann fyrstu þættina.

Simon Adebisi (Adewale Akinnuoye-Agbaje): Einn af svertingjunum og ekki með allar skrúfur rétt festar. Er hrifinn af dópi og húfum sem sitja undarlega á hausnum.

Ryan O'Reily (Dean Winters): Íri og tilheyrir því engum sérstökum hópi. Hefur ótrúlega háþróaða sjálfsbjargarviðleytni og tekst á undraverðan hátt að spila á alla hópa í fangelsins.

Tim McManus (Terry Kinney): Yfirmaður Emerald City. Heldur að hann geti á einhvern hátt breytt þessum föngum sem hann sér sem ofbeldisfullar skepnur. Átti föður sem dó í uppreisninni í Attica og er hugsanlega ekki alveg með réttu ráði.

Sister Peter Marie (Rita Moreno): Nunna og sálfræðingur. Sú eina sem fangarnir bera einhverja virðingu fyrir því hún kemur fram við þá eins og manneskjur.

Robert Rebadow (George Morfogen): Átti að vera tekinn af lífi 30 árum áður en rafmagnið fór af og því fékk hann lífstíðarfangelsi í staðinn. Er í beinlínu sambandi við guð.

Faðir Ray Mukada (B.D. Wong): Kínverskur kaþólskur prestur - nýbyrjaður. Ekki eins grænn og hann lítur út fyrir að vera.

Þetta er reyndar aðeins toppurinn á ískjakanum. Það eru alltaf einhverjir nýir að bætast við og einhverjir að deyja mjög skyndilega. Aðrar persónur sem vert er að nefna eru t.d. Jackson Vayhue (leikinn af körfuboltakappanum Rick Fox), Rev. Jeremiah Cloutier (leikinn af Luke Perry!) og Chris Keller (leikinn af Christopher Meloni úr Law and Order: SVU - sjá mynd) og svo mætti lengi telja.

Það sem einkennir þessa þætti öðru fremur er kannski andrúmsloftið sem höfundum og framleiðendum tekst að skapa. Innilokunarkennd í bland við ótta, paranoiu og kvíða. Maður veit aldrei hvað getur gerst næst einmitt vegna þess að hvað sem er getur gerst. Það eru engin mörk.

Og einmitt þess vegna er ég kollfallin fyrir þáttunum.

Eins og áður sagði er verið að sýna fyrst þáttaröðina á Stöð 2 núna - á þriðjudögum kl. 9. En þeir sem hafa ekki aðgang að Stöð 2 hafa einnig kost á að taka þessa fyrstu þáttaröð á DVD í Laugarásvídeói. Önnur þáttaröð kemur svo út á DVD undir lok október og sú þriðja í janúar. Allt saman á svæði 1.
——————