American Idol er nýjasti þátturinn sem hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum en 30 milljónir sjónvarpsáhorfenda horfðu á Fox-stöðina þegar úrslit í fyrstu syrpunni voru kunngjörð. Þátttakendur eru ungir og upprennandi söngvarar sem allir eiga sér þann draum að slá í gegn.

Fyrirmyndin að American Idol er sótt til Bretlands en Pop Idol þar í landi hefur þegar fært ungu fólki frægð, frama og spennandi útgáfasamninga. Sérstök dómnefnd fær það erfiða hlutverk að ákveða örlög keppenda sem fækkar jafnt og þétt eftir því sem á líður. Simon Coswell sat í bresku dómnefndinni og frammistaða hans vakti svo mikla athygli að starfsbræður hans hinum megin við Atlantshafið fengu kappann til að taka að sér sama hlutverk í American Idol. Coswell, sem er mikilsvirtur upptökustjóri, þykir einstaklega hvass í tilsvörum og er ekkert að skafa utan af hlutunum.

Söngkonan Paula Abdul situr líka í dómnefnd American Idol en hún varð fræg sem klappstýra hjá LA Lakers. Hún dansaði líka í myndböndum Michaels Jacksons og gaf svo út sínar eigin plötur en tvær þeirra rötuðu í efsta sæti vinsældarlistans. Hinn virti Randy Jackson er svo þriðji og síðasti meðlimur dómnefndarinnar. Hann hefur starfað í tónlistarbransanum um árabil og gegnt ábyrgðarstörfum hjá Columbia og RCA. Hann hefur unnið náið með NSYNC, Madonnu, Elton John og Destiny’s Child svo fáir séu nefndir. American Idol hefst á Stöð 2 föstudagskvöldið 21. febrúar

Mér finnst þessi þáttur alger snilld og ég vona að sem flestir muni njóta hans næsta föstudagskvöld 28. feb!