Undrandi er ég að þér hafið aldrei heyrt um þann ágætis leik sem Theme Hospital er, fyrsti ‘simulation’ leikurinn frá Bullfrog á eftir Theme Park, sem tröllréð öllu meðan hann var nýr.
Intro-ið lýsir honum nokkuð vel, myndskeiðið byrjar í anddyri spítala þar sem sitja sjúklingar og bíða þess að fá áheyrn hjá lækni. (Má geta þess að meðal sjúklinga er ‘The Horned Reaper’ úr Dungeon Keeper). Síðan sést í sjónvarpinu að það er verið að flytja sjúkling með þyrlu á bráðamóttöku. Þyrlan flýgur fram hjá spítalaturni; læknir fyrir innan sér hana, opnar sloppinn sinn og sýnir spítalamerkið á bolnum (A La Superman). Hann gengur rakleiðis í uppskurð þar sem sjúlkingnum hefur verið komið fyrir og gerir sig líklegan til að byrja uppskurðinn (með vélsög, no less). Á meðan er hjúkkan að gera ‘Credit check’ á sjúklingnum, svo kom í ljós að hann var ekki tryggður svo að læknirinn ýtir á takka og sturtar honum í einhverja niðurfallsrennu.
Leikurinn byrjar þá uppbyggingarhefð sem Dungeon Keeper og Theme Park World héldu áfram með: Þú vinnur með einn spítala þar til þér hefur tekist ákveðna fyrirfram ákveðna hluti og ferð þá í annan erfiðari spítala og byrjar aftur. Þetta veldur ákveðnum endurtekningum, en þær eru þó skárri kosturinn. Þegar langt er komið inn í leikinn tekur oft hrikalega langan tíma að klára borðin og þegar það loksins tekst verður maður bara ánægður að fá að byrja aftur með öðruvísi umhverfi.
Þeir hlutir sem þarf að gera í hverjum spítala eru fimm: Hafa ákveðið gott Reputation, lækna ákveðið marka, lækna ákveðið hlutfall, safna ákveðið miklum peningum og hafa spítalann ákveðið verðmætan.
Reputation hækkar við hvern einstakling sem maður læknar, en minnkar ef maður rekur fólk úr spítalanum eða það fer sjálft og enn meira ef einhver deyr. Verðmæti spítala hækkar því stærri sem hann er (það er hægt að kaupa land) og því meira sem er í honum.
Í hverju “borði” eru þrír aðrir spítalar sem tölvan stjórnar sem keppa við mann og þeir sem lesa margar bækur eða horfa á myndir gætu þekkt nöfnin á eigendum þeirra en það eru nöfn ýmissa tölva, svo sem HAL(Tölvan úr 2001:A Space Odyssey), HOLLY(Tölvan úr Red Dwarf), og Deep thought(Tölvan úr Hitchhiker's guide to the galaxy). Bullfrog-húmor.
Spítalareksturinn fer yfirleitt þannig fram að þegar sjúklingur gengur inn um dyrnar þarf hann að skrá sig í móttökunni. Ef spítalinn þinn er vinsæll gætirðu þurft nokkur móttöku-skrifborð til að anna eftirspurn, það er ekkert sniðugt að láta fólkið fara af því að það fær nóg af því að bíða eftir að fá að skrá sig inn og ekki einusinni búið að tala við lækni.
Því næst fer það í “GP's Office” og talar við lækninn. Hér byrjar ferlið að komast að því hvað amar að sjúklingnum. Frá GP's Office fer hann í eitthvert annað rannsóknarherbergi svo sem X-Ray, Cardio, eða Psychiatric (Já, það eru ekki allir sjúkdómarnir líkamlegir, ég kem meira inn á þetta seinna). Þaðan fer sjúklingurinn aftur í GP's office með niðurstöðurnar og er vonandi sendur í lækningu. Það fer eftir því hversu hæfur læknirinn í GP's Office er hversu fljótt greiningu er lokið, þeir allra-hæfustu tala við hvern sjúkling einu sinni og senda hann beint í lækningu; þeir lélegu senda sjúkling 4-5 sinnum eitthvað annað.
Lækningarnar eru mismunandi, nokkrir eru sendir í apótekið þar sem þeir drekka lyf og verða frískir, sumir eru sendir í uppskurð og aðrir til sálfræðings. Einstaka sjúkdómar þurfa sérstakt herbergi með dýru tæki til að lækna.
Sjúkdómarnir sjálfir eru sumir alveg bráðfyndnir, og er ekta Bullfrog-húmor þar á ferð. Þar má m.a. nefna “Uncommon Cold” og “Broken Heart”(Sem var skorið upp við).
Þegar maður uppgötvar nýjan sjúkdóm fær maður fax þar sem gefið er upp nafn sjúkdóms, orsök og lækningu. Ég man sérstaklega eftir “Slack Tounge” sem fólkið fékk ef það talaði of mikið um sápuóperur, og “Infectious Laughter” sem að sálfræðingur læknaði á þann hátt að hann minnti sjúklinginn á hversu alvarlegur sjúkdómurinn er.
Eins og í flestum Simulation-Leikjum koma auðvitað upp “Disasters” einstaka sinnum. Stundum koma jarðskjálftar sem skemma dýru tækin þín, eða þá að ofnarnir hætta að virka (það þarf að halda húsinu hlýju til að fólk vilji vera þar).
Í mínum huga er þetta fyrirtaks leikur og það er margt vitlausara að eyða aurunum sínum í en þennann leik ef þú sérð hann einhvern tímann á útsöluborðinu í BT eða sambærilegri verslun.