Fjölskyldumeðlimir eru:
Connor James Morrison: Hann er pabbinn. Hann er með nokkuð sítt, brúnt hár og falleg, grá augu. Hann er óskipulagður, ófeiminn, á erfitt með að vera kyrr, finnst ágætt að leika sér og er mjög vingjarnlegur. Hann hefur mikinn áhuga á myndlist og elskar að mála og teikna (hans áhugamál er sem sagt myndlist). Hann hefur gaman af börnum og hann langar að eignast stóra fjölskyldu.
Megan Amy Morrison: Hún er mamman. Hún er með stutt, rautt hár og stór, brún augu. Hún er óskipulögð, ófeimin, á erfitt með að vera kyrr, hefur mjög gaman af leikjum og er mjög vingjarnleg. Hún hefur mjög mikinn áhuga á náttúrunni og elskar að skoða fugla og sinna garðyrkjustörfum (hennar áhugamál er sem sagt náttúran). Hún hefur gaman af börnum og hana langar að eignast stóra fjölskyldu.
Saga Morrison-fjölskyldunnar:
Connor og Megan Morrison fluttu inn í lítið hús í bænum Riverblossom Hills. Í húsinu voru fá húsgögn og herbergin ekki mörg; nokkuð stór stofa með eldhúskrók, lítið klósett og tvö lítil svefnherbergi. Megan og Connor voru ekki alveg sátt við nýja húsið en þau áttu litla peninga og gátu því ekki keypt sér stærra. Þess vegna fengu þau sér bæði vinnur; Connor fékk vinnu hjá byggingafyrirtæki og Megan fékk vinnu hjá skrifstofu sem rannsakaði náttúruna, bæði plöntur og dýr.
Viku eftir að þau fluttu í nýja húsið áttu þau svolítið af peningum og gátu farið að bæta húsgögnum í húsið. Connor keypti gulan tveggja manna sófa með hvítum púða, stofuborð, hægindastól, tvo blómavasa, tvo standlampa og bókaskáp í IKEA á meðan Megan keypti fjóra eldhúsbekki, eldavél, ísskáp, eldhúsborð og fjóra stóla í BYKO. Svo röðuðu þau inn í húsið og Megan tíndi tvo blómvendi í garðinum og setti í nýju blómavasana sem Connor keypti. Þá leit húsið miklu betur út og Megan og Connor voru mjög ánægð. Svo ánægð, reyndar, að þau hoppuðu upp í rúm og svo heyrðist barnalag (þau voru ekki búin að þessu áður:O!)
Daginn eftir fóru bæði Connor og Megan í vinnuna eins og venjulega. Bæði fengu stöðuhækkun og svo hljóp Megan inn á klósett og ældi. Hún sagði Connor ekkert og fór bara að búa til kvöldmatinn. Þau borðuðu í þögn og svo fóru þau að sofa (þreytt eftir erfiðan dag). Samt vaknaði Megan eftir rúmlega tvo tíma og var orðin ólétt! En hún skreið bara aftur upp í rúm og sofnaði (mjög eðlilegt eða þannig).
Daginn eftir þegar Megan vaknaði var Connor farinn í vinnuna og á eldhúsborðinu var lítil miði með teikningu af barni, nokkrum brosköllum og tíu kossum. Hún hringdi í Connor í vinnuna og þau töluðu saman í tvo klukkutíma (átti hann ekki að vera að vinna eða?) Klukkutíma seinna kom Connor heim og var mjög glaður, hann var búinn að fá stöðuhækkun (skrýtinn vinnuveitandi þar á ferð!) Hann kyssti konuna sína og svo fóru bæði að sofa.
Næsta dag þegar Megan vaknaði var Connor farinn og á eldhúsinu var miði sem var eins og daginn áður nema að barnið á þessum miða var stærra og kossarnir voru fimmtán. Megan var mjög svöng og fékk sér eggjaköku og hugsaði um barnið sitt. Þegar hún var búin að borða fór hún með diskinn í vaskinn. Þá fann hún verki. Hún var komin með hríðir! Hún hringdi til Connors og sagði honum frá því, fór svo inn í svefnherbergið og lagðist niður. Allt gekk vel og þegar Connor kom heim var konan hans í eldhúsinu að þvo litlu barni. Connor fór til konunnar sinnar og kyssti hana, svo settust þau með litla strákinn sinn í sófann í stofunni og ákváðu nafnið.
Daginn eftir var litli strákurinn skýrður Michael Aaron. Það var hamingjusöm fjölskylda sem keyrði heim í litlum bíl það kvöldið eftir skemmtilega veislu með mörgum gestum og góðum, léttum veitingum.
Svo liðu dagarnir og loksins kom sá dagur að Michael litli átti afmæli. Mamma hans og pabbi voru svo stolt þegar þau buðu ættingjunum í veisluna, því að nú átti litli strákurinn þeirra afmæli og var að verða stór. Veislan gekk mjög vel og þegar allir gestirnir voru farnir kenndi Connor litla syni sínum að tala, labba, syngja vöguvísu og að nota koppinn, allt það sem hann þurfti að vita. Og þegar Michael var sofnaður fóru Megan og Connor aftur upp í rúm og aftur heyrðist barnalag.
Daginn eftir kom barnfóstran Lucy Leckholm til að passa Michael á meðan Connor og Megan voru í vinnunni (en þau voru búin að vinna sig mjög hátt upp launastigann). Michael var mjög góður drengur og lék sér hljóðlaust svo að Lucy gamla þurfti ekkert fyrir honum að hafa (hún gat lesið bækur eða horft á sjónvarpið eins og hana lysti!) Um kvöldið þegar Connor og Megan komu heim bjó Megan til kvöldmatinn á meðan Connor var inni í stofunni og lék sér við son sinn. Eftir matinn fór Connor með Michael í rúmið en Megan vaskaði upp og hljóp svo inn á klósett til að æla. Svo fóru Connor og Megan snemma í rúmið, en á miðnætti vaknaði Megan og var þá aftur orðin ólétt.
Næsta dag vaknaði Megan nokkuð seint við umgang í eldhúsinu. Hún klæddi sig og fór fram. Þar var Michael í barnastólnum og Lucy gamla var að búa til barnamat handa honum. Megan borgaði Lucy gömlu 25 dali í þjórfé fyrir að hugsa svona vel um strákinn og húsið og fór svo inn í stofuna með stóran bolla af rjúkandi SwissMiss kakói (það snjóaði mikið fyrir utan og það voru frostrósir á gluggarúðunum). Hún náði sér í bók í bókaskápinn og settist niður í sófann. Dagurinn leið frekar hratt, Megan las og fylgdist með Michael leika sér á meðan Lucy tók til, skúraði, fægði og hreinsaði og færði Megan af og til annan bolla af rjúkandi kakói (hún var að sýna að hún væri alveg virði þessara 20 aukadala). Svo kom Connor heim og Lucy kvaddi. Connor og Megan dönsuðu vals í stofunni undir fallegri aríu sem leikin var á þverflautu á útvarpsrásinni FM 95,7 (varð bara að koma þessu að). Svo fóru þau og svæfðu Michael og fóru svo að sofa, enn með ljúfa aríutónana í eyrunum.
Daginn eftir vaknaði Megan svo snemma að hún gat kvatt Connor sinn áður en hann fór í vinnuna. Lucy var auðvitað mætt á svæðið og hitaði kakó fyrir Megan sem var mjög þakklát. Þessi dagur leið á svipaðan og hinn fyrri, nema að Megan fékk hríðir af og til. Svo þegar Connor var nýkominn heim og Lucy nýfarin þá mögnuðust hríðirnar og Megan lagðist í rúmið. Svo fæddi hún litla dóttur sem þau ákváðu nafnið á áður en þau fóru með hana í rúm bróður síns og fóru að sofa með Michael á milli sín.
Þetta er það sem ég er komin með, ætti ég að gera framhald?
Enginn finna okkur má undir fanna hjarni; daga þrjá yfir dauðum ná dapur sat hann Bjarni.