Og þetta byrjaði allt með honum Don...
Þetta er nú ein ruglaðasta saga sem átt hefur sér stað. Þannig er mál með vexti að ég las hér á huga sögu um manninn Don Lothario. Sá hafði látið Don lifa tvöföldu(ætti eiginlega að segja fjór- eða fimmföldu) lífi. Þá ákvað ég bara að skella mér í Sims og finna þennan mann. Það tókst nú auðveldlega og bjó hann í því mjög svo smekklega Pleasant-hverfi.
Hann Don var ástfanginn af 4 konum að mig minnir. Það voru þær Cassandra Goth, en hann var einnig trúlofaður henni, Dina og Nina Caliente, systur og svo hin undurfagra heimilishjálp, Kaylynn Langerak. Fyrstu dagana var hann bara í því aðsofa hjá stúlkunum sínum en svo skellti hann sér í bæinn til að kaupa sér nýjar nærbuxur, eftir ítrekaðar athugasemdir vinkvennanna. Hann keypti sér alveg voðalega fallegar buxur en því miður gleymdi hann þeim í leigubílnum svo að hann þurfti að nota sínar þröngu grænu nærbuxur.
Þegar hann svo vaknar einn daginn þá hefur hann hlotið það verðuga markmið að eignast 5 ”vinkonur”. Hann fór því í bað og skellti sér í fallegu nærbuxurnar sínar, honum fannst þær mjög eggjandi, og ákvað nú að reyna að heilla einhverjar konur sem ættu leið hjá upp úr skónum. En ekkert gekk. Daginn eftir var hann samt svo heppinn að vinnufélagi hans kom með honum heim úr vinnunni, að þessu sinni gullfallegur kvenmaður, að hans mati. Þau urðu fljótt bestu vinir og fóru aðeins að daðra við hvort annað. Það endaði nú bara á einn veg. Beint upp í rúm!
Daginn eftir vaknaði Don svo með markmiðið að Woo-hoo-ast á almenningsstað.
Hann hringdi nú í eina vinkonu sína, held að Dina, ljóshærða systirin, hafi orðið fyrir valinu og þau skelltu sér í bæinn, þar sem þau léku sér í einum búningsklefanum. En þegar að líða tók á kvöldið flýttu þau sér heim, alsæl. Daginn eftir kom heimilishjálpin við hjá Don og þau skelltu sér í heita pottinn. Og þið vitið öl hvernig það fór. En þegar Kaylynn fór hringdi hann Don í Dinu og hún skellti sér í heimsókn. Það endaði nú bara þannig að hún ákvað að flytja inn. Hún var með peninga-markmið en átti því miður aðeins 15 krónur. Ég reddaði henni vinnu um leið og henni fór að líða betur. Þar sem þau reyndu nú allt sem þau gátu til að græða meiri peninga, dvínaði ástin fljótt. Þar sem þau unnu á sitthvorum vinnutímanum, hann á næturnar og hún á daginn, nýtti Don sér því dagana til að sofa hjá hinum vinkonum sínum. Hann kynntist meira að segja annarri en ekkert varð úr því sambandi. Dina varð einmana og á endanum ákvað hún að hringja í Mortimer Goth, sem hún hafði verið að dandalast með. Hann mætti og þau skelltu sér í pottinn. Einmitt í miðju kelerí-inu vaknar Don og sér hvað er í gangi. Hann slær Dinu og verður óvinur Mortimers. Þegar hún reynir svo að kyssa hann til að sættast þá brjálast Mortimer og slær hana líka. Mortimer og Don fara svo að slást en Dina grætur bara og grætur. Ekkert gekk að laga sambandið milli hennar og Dons þannig að hún flutti út. Don er svo leiður að hann hringir í Kaylynn og biður hana að koma. Hún kemur og hjálpa honum að takast á við sorgina, í rúminu að sjálfsögðu. En hann heillast algjörlega af henni og vill giftast henni. Hún samþykir að flytja inn til hans og það fyrsta sem hann gerir er að gera hana ólétta. Svo þegar hún eignast barnið(lítil stúlka, Alyssa) vill hann ekki sjá það en vill ólmur eignast annað. Þegar það fæðist svo(önnur stelpa, Dimanda) hugsar hann heldur ekkert um það. Hann verður gamall og latur. Kaylynn fær nóg og flytur út. Don hringir í hana Ninu, systur Dinu og þau eiga rómantískt kvöld saman, að hætti Dons. Don á líklega eftir að deyja einn, en fullur af fjöri.
Cassandra er ný trúlofuð Don en í veislunni rífast þau og hún slítur trúlofunninni. Í stað þess hringir hún í Darren Dreamer sem er nú þegar yfir sig hrifinn af henni og hún verður ástfangin af honum. Þau trúlofast og svo fer hann heim. Það heyrist ekki frá honum í langan tíma. Cassandra er dugleg í vinnu en er svolítið einmana. Alexander, bróðir hennar er duglegur í skólanum en á sér ekkert félagslíf. Hann á enga vini en þegar hann eldist og verður að táningi eignast hann vin.
Mortimer gamli er enn í sjokki eftir svik Dinu Caliente, ræður heimilishjálp. Hann fellur samstundis fyrir henni og er yfir sig ástfanginn. Í fyrstu vill hún ekki sjá hann, en eftir að hann gefur henni mikið þjórfé þá byrjar henni að líka við hann. Þið megið túlka þetta hvernig sem þið viljið.
Kaylynn Langerak er flutt út frá Don og ákveður að reyna að hefja nýtt líf. Hún fer fyrst til Pleasant sem hún hefur verið að dandalast(maður bara verður að nota þetta orð!) með. En hann hafði ákveðið að reyna að bjarga hjónabandi sínu og slítur sambandi þeirra. Kaylynn flytur því með stelpurnar sínar í fallegt hús við hliðina á honum Dreamer feðgunum. Hann Darren kemur í heimsókn til þeirra og hann og Kaylynn verða ágætis vinir. En svo hefur Kaylynn engan tíma til að hitta hann því að hún á fullt í fangi með að ala börnin sín upp. Tvö lítil ungabörn eru of mikið og hún er alveg að brotna niður þegar ofurfóstran kemur færandi hendi og tekur málið í sínar hendur.Fullt af höndum þar. Kaylynn getur loks sofið og borðað á meðan ofurfóstran sér um börnin. Alyssa verður smábarn og svo barn um leið og Dimanda verður smábarn. Kaylynn höndlar þetta betur núna og nær að gera þetta ágætlega en svo fer allt í vaskinn og ofurfóstran mætir aftur á svæðið. Hún sér um Dimöndu þar til hún verður að barni og fer svo á eftirlaun en með minningarnar um þessar yndislegu litlu stúlkur greyptar í huga sér. Þar sem stelpurnar eru nú orðnar frekar sjálfstæðar þá fer Kaylynn að hitta Darren meira og meira og þau falla að lokum hvort fyrir öðru. Það sem Kaylynn veit ekki er það að Darren er trúlofaður hinni yndisfríðu Cassöndru Goth. En þar sem Kaylynn er mun vinalegri og bara mun líkari Darren á allan hátt vill hann helst bara gleyma henni Cassöndru og hefja nýtt líf með Kaylynn. Hann flýtir sér heim og skilur Kaylynn eftir en með loforð um að brátt munu þau vera hamingjusöm á ný – saman. Þegar Kaylynn hefur þurrkað stjörnurykið úr augum sínum sér hún að Alyssa hefur ekki staðið sig nógu vel í skólanum. Hún gerir allt til að bæta það. Og að lokum tekst að bjarga Alyssu frá falli. Dimanda stendur sig mjög vel í skóla og fær hinar ýmsu viðurkenningar. Alyssa verður að unglingi og blómstrar af fegurð.
Darren hefur trúlofast Cassöndru, sér nú eftir því og vill aðeins eyða ævinni með einni manneskju – Kaylynn Langerak. Sonur hans, Dirk er framúrskarandi nemandi og á þessa undurfögru kærustu hana Pleasant(þar sem Pleasant fjölskyldan er ekkert merkileg í framvindu þessarar sögu þá munu skírnarnöfn þeirra ekki koma fram nema þá ef eitthvað undarlegt gerist). En hann hefur svo mikið að gera að þau hittast ekki svo oft og rómantíkin hefur örlítið kulnað.
Darren áttar sig á að hann getur bara ekki lifað án sinnar elskulegu Kaylynn svo að hringir í hana tafarlaust og biður hana að flytja inn til sín. Hún hrópar upp fyrir sig af gleði og segist koma um leið og hún er tilbúin. Mæðgurnar pakka og flytja inn til Darrens. Þegar þangað er komið lýtur Alyssa á Dirk og bráðnar. Hann er svoooo sætur! Hún byrjar að tala við hann og þau verða fljótt vinir. Ætli það verði eitthvað úr þessu eða heldur Dirk tryggð við fröken Pleasant?
Mortimer Goth hefur náð að heilla heimilishjálpina upp úr skónum og hafa þau nú gengið í það heilaga. Þá er bara haldið beinustu leið upp í rúm þar sem horft er í átt að barneignum. Heimilishjálpin, sem er ónafngreind að svo stöddu en fær vonandi nafn fljótlega, er ólétt og mjög hamingjusöm með nýja manninum sínum. Henni líkar samt óvenju illa við Alexander en Cassandra er ágætis vinkona hennar. Cassandra byrjar að rífast í Darren og að lokum slítur hún trúlofuninni, Darren til mikillar ánægju. Til að ná sér eftir þessi sambandsslit hættir hún í vinnunni. Með þessu móti getur hún líka eytt meiri tíma með öldruðum föður sínum sem á skammt eftir ólifað. Kannski á Cassandra eftir að finna ástina, hver veit? En mitt í þessum hugleiðingum gerist voveiflegur atburður. Mortimer deyr!
Heimilishjálpin brotnar niður, ófætt barn þeirra hjóna er það eina sem getur glatt hana þessa stundina en það eru nokkrir dagar í að það komi í heiminn. Henni líður mjög illa og liggur ein á stóra hjónarúminu, sem áður var svo notalegt en er nú bara einmanalegt og fráhrindandi, og grætur hljóðlega í koddann sinn. Sem heimilishjálp hefur starf hennar krafist þess af henni að hún sé ávallt brosandi og að hún feli tilfinningar sínar. Og hún heldur því áfram. Cassandra syrgir föður sinn og fer oft á dag að leiði hans. Alexander hefur hins vegar lokað á tilfinningar sínar og vill ekki tala við neinn um þetta. Ætli einhver geti náð honum út úr þessari hrikalegu skel sem er að fara með hann bæði andlega og líkamlega?
Jæja, þetta var nú það helsta sem hefur gerst í þessu mjög svo skemmtilega hverfi en mikið er enn í gangi sem tengist þ.á.m. Fleetwoodfjölskyldunni og Terialfjölskyldunni
Kannski fáið þið að vita eitthvað um þau ef ég nenni að skrifa meira um fólkið sem ég hef kosið að kalla Simsana
Vonandi skemmtuð þið ykkur vel
Kv. Cho