Sælir Sci-farar.
Ég hef verið að horfa á nokkra af nýjustu þáttunum sem er verið að sýna vestanhafs í bandaríkjunum. Hér er um að ræða þættina; Invasion, Surface og Treshold.
Vil ég aðeins fjalla um þessa þætti, hvað er búið að gerast so far, og hvað mér finnst um það sem er búið að gerast.
INVASION
Sögusviðið er smábær í BNA við mexíkóflóa. Þættirnir byrja þannig að fellibylur er að skella á ströndina, og fólkið býr sig undir það. En margt furðulegt gerist á meðan fellibylurinn stendur yfir, fólk hverfur en finnst svo aftur þegar fellibylurinn hefur farið yfir. Nema hvað að fólk hefur eitthvað breyst.
Þessi þættir fjalla um einhverjar furðuverur, sem eru annaðhvort geimverur eða eitthvað annað, en þær lifa í vatni virðist vera. Þær taka sér bólfestu í fólki, einhvernveginn, og nota náttúruhörmungar (einsog fellibyli) sem leið til að “fela” þessa svokölluðu innrás sína.
Í hvaða tilgangi veit ég ekki alveg, og virðist lítið vera í raun gefið upp.
Nú eru liðnir 4 þættir af seríunni, og þó svo að ég vilji ekki dæma heilar seríur fyrirfram, þá finnst mér ansi lítið búið að gerast, og það sem hefur gerst er nokkuð áhugalítið. Þorpið er búið að vera einangrað eftir fellibylinn og þorpsbúar eru að reyna ná sér eftir hann.
Það er takmarkað hvað maður nennir að standa í “forleik” lengi, stundum verður maður að fá eitthvað smá action, eða a.m.k. detta inn í einhverja atburðarrás sem hreyfist eitthvað.
Stjörnur: Tvær og hálf stjarna (af 5 mögulegum)
TRESHOLD
Geimverur úr annarri vídd koma til jarðar í þeim tilgangi að umbreyta mannkyninu í eitthvað sem er enn ekki vitað, þó sennilega í annarsskonar lífverur sem líkjast geimverunum sjálfum. Einhver hlutur birtist í geimnum og fer til jarðar, þar sem hann stoppar við einhvern togara. Hluturinn umbreytir mönnunum þar og þeir verða að einhverjum morðóðum zombies.
“Threshold” er nafn á áætlun sem var skrifuð í því skyni að koma í veg fyrir að vitneskja um geimverur komist til almennings. Höfundur þessarar áætlunar er jafnframt stjórnandi elítu teymis snillinga sem eiga að hjálpa til við að “containa” vandamálið.
En vandamálið sem þetta “Treshold” teymi er búið að kljást við núna síðustu 6 þætti er að finna fólk sem hefur verið umbreytt í zombies. En það sem þessir zombies eru að reyna gera er að reyna “smita” fleiri, eða umbreyta fleirum með einhverju hljóðmerki sem á víst að geta breytt DNA í eitthvað rugl. Svo að zombies reyna að smita aðra með allskonar leiðum, með því að senda audio skrár í tölvupósti, eða sprengja einhverja hljóðsprengju í borg. Hægt væri í raun að setja samansem merki milli þessara zombies og hryðjuverkamanna.
Lítið hefur gerst í þessum þáttum, og er maður við það að gefast upp á þeim. Sama handritið virðist vera notað fyrir alla þættina eftir Pilotinn sem var fínn.
Ég hugsa bara að það sé leiðinlegt fyrir Brent Spiner, sem er frábær, að lenda í svona þáttum sem ná ekki season 2.
Stjörnur: 2 stjörnur (af 5 mögulegum)
SURFACE
Án ef betri af þessum þremur þáttum. Sögusviðið er enn aftur bandaríkin, og það aftur við mexíkóflóa. Þessi þættir fjalla um gríðarstór risaeðluskrímsli sem hafa vaknað úr milljóna ára löngum dvala. Þessi skrímsli eru álíka stór ef ekki stærri en Godzilla, og hafa þau hafst við í iðrum jarðar, í kvikunni þar sem þau í lifa.
En nú eru þessi skrímsli að valda usla í nútímanum með því að ráðast á skip, og grafa allskonar göng í jarðskorpunni og valda hitahækkun á sjónum og öðrum náttúruhamförum. Þessi skrímsli eiga víst að vera algjörlega ósigrandi, húð þeirra þolir ótakmarkaðann hita og Guð má vita hverju fleiru handritshöfundarnir luma á.
Þættirnir sýna frá sjónarhorni fjögurra hópa;
1) sjávarlíffræðingur sem er að reyna sanna tilvist þessara vera
2) teymi vísindamanna og hersins sem er að reyna finna leið til að drepa dýrin og jafnframt “containa” vandamálið og koma í veg fyrir að almenningur frétti af þessu
3) kafara sem er að reyna komast að því hvað gerðist eftir að eitt af þessum dýrum tók bróður hans sem var að kafa með honum
4) tveggja unglinga sem ná að finna eitt af eggjum dýrsins, og þegar það klekkst út þá reyna þeir að ala dýrið upp.
Alveg nógu mikið að gerast til að maður fylgist með þessum þáttum, og maður er alveg nógu spenntur fyrir næsta þætti eftir hvern þátt. Svo skemmir ekki fyrir að í þriðja þættinum var nefnt “Reykjavík” - hehe.
Hefði þó viljað sjá fleiri hluti gerast, en það er allavega meira spennandi búið að gerast í þessum þáttum heldur en í Treshold og Invasion.
Stjörnur: 3 og hálf stjarna (af 5 mögulegum)