Það virðist vera mikið um það að fólk sé hreint út að misskilja þættina og alls ekki að ná “punchline-inu” ef svo má að orði komast. Mig langar þessvegna að útskýra, sem ég hef reyndar gert einhversstaðar áður, að Star Trek snýst um hugsjón. Þættirnir voru tól Gene Roddenberrys til að koma á framfæri við heiminn sínum þankagangi og sínum draumum. Vissulega er það rétt sem mér hefur verið bent á hér á Huga.is að áherslur Star Trek hafi breyst verulega í nýrri seríum, eftir andlát Roddenberrys. Það breytir því hins vegar ekki að jafnvel í dag er þessi hugsjón undir niðri enn til staðar þó hún sé ekki eins áberandi á yfirborðinu og áður. Þessi breyting gæti verið ástæða þess að yngri áhorfendur sem ekki sáu TNG eða TOS á sínum tíma eru ekki að skilja Star Trek eins og það var í upphafi hugsað. Þeir sáu ekki hugsjónina þegar hún var sett bert fram áður fyrr og kunna því ef til vill ekki að leita hennar í undirtóninum í nýrri þáttum. Star Trek snýst sumsé ekki um geimorrustur og harðjaxlahátt. Star Trek snýst um þroska mannsins og það hverju hann fær áorkað ef rétt er haldið á spöðunum. Star Trek er líkt og önnur stórvirki vísindaskáldskaparins ekki skrifað um raunvísindi, heldur framþróun á félagslega sviðinu. Tæknilega framtíðin er í raun fátt annað en sögusvið, notað til að segja dæmisögur um mannlega hegðun.
Annað er mjög algengt, og það er að fólk sé að stilla upp Star Trek og Babylon 5 til samanburðar. Þetta þykir mér óþarfi. Sjálfur hef ég gaman af B5 og finnst það firnavel gerðir þættir, en mjög ólíkir Star Trek, og byggðir á allt öðrum hlutum. Ég skildi það
allavega þannig að þessi vefur væri hugsaður fyrir aðdáendur Star Trek til að ræða sitt áhugamál, ekki fyrir aðra til að ræða sín, því mér þykir satt best að segja umræða um B5 óviðkomandi Star Trek. Það er margt sem mér þykir skemmtilegra að gera en að horfa á Star Trek, en ég er ekki að eyða mínum tíma og annarra í að uppfylla þennan vef af upplýsinum um það, ég geri slíkt annars staðar, þar sem við á.
Hvernig væri nú að fólk reyndi að njóta þess sem því líkar í Star Trek og fyrirgefa einhverja af göllunum. Ekkert getur jú verið fullkomið. Ef hinsvegar mönnum finnst á sér brotið af framleiðendum og að það verði hreinlega að bæta úr gæðum þáttanna þýðir lítið að nöldra í okkur hinum, við hvorki höfum ítök innan Paramount, né ætlum að kvarta við þá fyrir ykkur. Menn geta annað hvort snúið sér beint til framleiðendanna, eða á uppbyggilegan hátt safnað liði til að gera eitthvað svipað. Að tauta og væla hver í öðrum hefur ekkert uppá sig og er einfaldlega mjög þreytandi til lengdar.
Bestu Kveðjur,
Vargu
(\_/)