Þegar ég var 4 ára langaði mig alveg rosalega í He-Man karla sem voru ofsalega vinsælir á þeim tíma. Þetta hefur verið sumarið 1982 og hafði ég ekki hugmynd um hvað StarWars var. Ég nuðaði í mömmu um að fá þessa blessuðu He-man karla þar sem hann Haffi vinur minn átti nokkra en ég bara einhverja glataða, nakta Action-man karla meða karate-chop action sem ég fékk frá frænda mínum.
Svo kom að því að mamma lét undan og haldið var í leiðangur til að festa kaup. En á leiðinni minntist mamma á að hún hafði séð, í búð sem vinur hans pabba rak, svona littla He-man karla. Littla He-man karla? Hvur fjárinn? Það hljómaði spennandi. Haffi hafði aldrei minnst á svoleiðis He-man karla og það yrði nú aldeilis hressandi að gorta mig af þeim við hann.
Við mamma fórum í fyrrnefnda verslun, hún sýndi mér hvað hún hafði verið að tala um og líf mitt tók dramatíska beigju uppá við. Fyrir mér blasti það svalasta sem ég hafði nokkurntímann séð (og ég, nota bene, hafði komið í Disneyland). Fullur rekki af littlum svörtum spjöldum með áföstum mögnuðum, pínulittlum (miðað við He-man) fígurum í plastbólu. -Og það sem ekki spillti fyrir var alvöru mynd af þessari sömu fígúru á spjaldinu við hlið fígurunnar. Ég var frá mér numinn af forvitni yfir því hvaða fyrirbæri þetta StarWars og Empire Strikes Back væri.
C-3PO með “removable limbs” varð fyrir valinu og skýrði ég hann samstundis Gullkarlin. Var samt ekki alveg viss hvað gera ætti við svarta plastnetið sem fylgdi með. En þarna var kominn fyrsti Starwars karlinn minn og nú yrði aldrei aftur snúið. He-man var gleymdur og grafinn og Action man gat farið norður og niður. Tonka bílarnir mínir urðu geimstöðvar og Haffi varð grænn.
En það besta var að sjálfsögðu eftir, að sjá myndirnar. Pabbi vissi strax hvaða fígúra þetta var sem nú drottnaði yfir öllum hinum ómerkilegu leikföngunum mínum og sagðist geta reddað fyrstu myndinni fyrir Beta videotækið okkar. Nokkrum dögum seinna horfðu svo ég og pabbi á svarthvíta “A new hope”, ég skildi ekki neitt en var alveg dáleiddur. Ég fór til ömmu með myndina og videotækið og horfði á hana nokkrum sinnum í röð, í lit. Ég var alsæll. Ekkert gat jafnast á við þetta, nema þá að fljúga með Hans Óla og apanum í Fálkanum og lumbra á Svarthöfða og hinum vondu körlunum.
Næstu jólin voru að sjálfsögðu StarWars jól með tilheyrandi Starwars pökkum. Safnið mitt stækkaði jafnt og þétt og ekki skemmdi fyrir að eiga afa og ömmu í USA sem farið var til um hver jól.
Þegar Starwars æðinu fór að dala í kringum 1985-86 átti ég næstum allt það Starwars dót sem hægt var að fá. Allt frá keisarflauginni og yfir í pappahelstyrnið, já og að sjálfsögðu hverja einustu fígúru. Svona er að vera einkabarn.
Þetta hljómar kannski soldið korní og margir gætu spurt: Hvernig í ósköpunum man hann þetta? Vissulega eru þetta 21 og hálft ár síðan en þar kemur inn þessi yndislega Starwars karla lykt. Þú þekkir hana ekki ef þú hefur aldrei rifið upp gamlan Starwars karl af littla svarta spjaldinu sínu og þefað duglega af honum. Nýja dótið er bara ekki það sama.
Ég var tólf ára þegar ég ákvað að selja allt Starwars dótið mitt af því að það var bara ekki kúl að eiga leikföng á þessum viðkvæma aldri. Þetta eru ein stærstu mistök sem ég hef gert.
Nokkrum árum seinna fann ég nokkra Starwars karla oní kjallara sem höfðu lifað af sölumennsku mína og á sama tíma komu Starwars skáldsögurnar eftir Timothy Zahn út. Áhugi minn kviknaði á ný og ég ákveðinn í að endurheimta allt gamla Starwars dótið. Ekki fékk ég þó dótið mitt aftur en allir þeir sem ég vissi að ættu eitthvað voru hreinsaðir út. Svo undanfarin ár hef ég hægt og rólega verið að safna og nú er svo komið að mig vantar aðeins örfáar fígúrur og fáein geimskip til að fullkomna gamla safnið mitt aftur.
Svo þar sem lykt er einn sterkasti minningaupprifjari sem völ er á og um er að ræða mögnuðustu bernskuminningar mínar er ekki skrítið að ég fái flashback í hvert skipti sem ég opna öskjurnar með öllum Starwars fígúrunum mínum. Ef þú átt gamla Starwars karla skaltu fyrst sniffa þá rækilega, fá þetta unaðslega flashback og selja mér svo dótið. Mmmm… Nostalgía.