Nú erum við þó laus við Spaulding ættina
Ég varð mjög hissa þegar að Blake mælti þessi orð á föstudaginn og ennþá meira þegar að Ross tók vel í þau. Ástæða þess er tvíþætt:
Í fyrsta lagi er ég ósátt við Blake vegna þess að frá því að hún kom til Springfield hefur hún eignast einn vin sem hún getur alltaf treyst á að standi henni við hlið og styðji hana gegnum súrt og sætt. Þennan vin myndi ég því kalla hennar besta og traustasta vin í Springfield og þó víðar væri leitað. Hann hefur verið henni betri en foreldrar hennar og í raun allir aðrir, ef frá er talinn Ross þetta síðasta ár eða svo en það er nú samt tæpt. Eins og flestir eflaust vita er þessi vinur enginn annar en Alan-Michael Spaulding! Hvernig fær hún það því af sér að segja slíkt og annað eins? Alan-Michael er óneitanlega hluti af þessari ætt, og er hún þá laus við hann líka?
Í öðru lagi er ég ósátt við Ross fyrir að hafa tekið eins vel í þessi orð og raun bar vitni. Ástæða þess er einföld. Það er ekki svo langt síðan að við fylgdumst með góðu og nánu sambandi hans og bróðursonar hans nær upp á hvern einasta dag. Óhætt er eflaust að segja að þar hafi verið um að ræða hans uppáhalds frænda og í raun einn hans besta vin. Saman hafa þeir gengið gegnum margt, bæði stundir gleði og sorgar eins og aðrar fjölskyldur og ætíð komið nánari til baka. Ég er því mjög ósátt við Ross af þeirri einföldu ástæðu að þessi elskaði bróðursonur hans er enginn annar en Phillip Spaulding! Nú gætu einhverjir hugsað “En hann er nú enginn alvöru Spaulding, og því hægt að segja að hann sé ekki hluti af ættinni”. Svo er þó ekki raunin. Allt sitt líf hefur Phillip litið á sig sem Spaulding, ef frá er talið stuttlifað skeið sem hann gekk í gegnum skömmu áður en hann steypti Alan af stóli. Það varði þó ekki lengi og hann hefur fyrr og síðar verið enginn minni Spaulding en Alan og Alexandra, enda alinn upp sem slíkur. Mér er því furða að Ross skuli taka undir þessi orð hennar Blake, er hann þá líka laus við Phillip frænda sinn?
Ég geri mér fulla grein fyrir því að þau séu fegin því að vera laus úr miðju stríðsins milli Alans og Alexar. En það að tala um alla ættina finnst mér of langt gengið og ekki samræmast þeirra persónum að hugsa slíkt og segja. Svona finnst mér þó allt of algengt í Leiðarljósi, að persónur segji, hugsi og geri hluti sem er algjörlega út úr karakter! Við áhorfendur þekkjum persónurnar mjög vel og munum hvað hefur gerst í gegnum tíðina, við gleymum því ekki tengslum milli fólks og persónum sem hafa flutt þó svo að handritshöfundar séu gjarnir á það að falsa fortíðina í ljósinu okkar! Þetta er aðeins nýjasta dæmið, en mér finnst þetta móðgun við okkur áhorfendur!