Var að lesa þetta í Mbl núna rétt í þessu.
Mbl 3. júni 2009
Eftir Birtu Björnsdóttur
birta@mbl.is
„ÞAÐ ER ekkert sem bendir til þess að Leiðarljós sé að hverfa af dagskránni hjá okkur,“ segir Guðmundur
Ingi Kristjánsson, deildarstjóri innkaupadeildar Sjónvarpsins.
Ástæða fyrir áréttingunni en sú að talsvert hefur borið á umræðu um að þessir ágætu þættir verði teknir af dagskrá Sjónvarpsins á næstunni og ekki hugnast öllum sú breyting.
„Misskilningurinn kom upp þegar fregnir bárust af því að til stæði að hætta framleiðslu þáttanna í Bandaríkjunum,“ segir Guðmundur Ingi.
„Við áttum þá um 180 þætti á lager hjá okkur og það var einfaldlega ekki búið að semja um sýningu á fleirum.“
Samningarnir munu fara fram síðar í sumar og segir Guðmundur
enga ástæðu til að halda að þeir muni ekki takast vel. Sjónvarpið sé að sýna þætti af Leiðarljósi sem framleiddir voru fyrir um áratug svo ef fram heldur sem horfir eiga
áhorfendur eftir nokkur góð ár með þáttunum í Sjónvarpinu.
Leiðarljós er sýnt fjóra daga vikunnar auk endursýninga á föstudögum og laugardögum.
Samkvæmt upplýsingum frá Sjónvarpinu horfa um 10 til 14 þúsund Íslendingar á hvern þátt.
Leiðarljós er langlífasta sápuópera sögunnar, en hún hófst sem útvarpsþáttur árið 1937. Þættirnir voru svo fyrst sýndir í sjónvarpi árið 1952 en áætlað er að síðasti þátturinn fari í loftið í Bandaríkjunum í september næstkomandi.
Þetta eru góðar fréttir og smá misskilningur milli vina :)