Halló allir.
Á undanförnum árum hefur verið til siðs að halda greinaátak á Sápuáhugamálinu nokkrum sinnum á ári. Þetta hefur í gegnum tíðina verið mjög vinsælt og margir tekið þátt og sent inn greinar. Á þessu ári hefur hins vegar lítið farið fyrir greinaátökum, aðallega vegna þess að þau fáu sem haldin hafa verið hafa ekki verið jafn vinsæl og áður.
Nú eru hins vegar komnar þrjár nýjar sápur á Sápuáhugamálið, síðan í sumar og með þeim margir nýir sápuaðdáendur. Þessir þættir eru My Sweet fat Valentina, sem er ekta sápa á spænsku og bandarísku unglingaþættirnir Beverly Hills 90210 og Melrose Place. Þeir tveir síðast nefndu eru í raun og veru ekki sápur en hafa eignast heimili á Sápuáhugamálinu á Huga engu að síður.
Í dag setti ég í gang nýtt greinaátak og vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að senda inn eins og eina grein. Þá reyni ég sérstaklega að ná til aðdáenda þessara nýju þátta en einnig þeirra sem hafa ílengst á sápuáhugamálinu frá því á síðustu öld.
Efni þessa greinaátaks er gamalt og gott og var notað fyrir u.þ.b. ári síðan síðast. Nú ætlum við að skrifa um uppáhalds sápupersónuna okkar, í dag og áður. Þið megið skrifa um eina, tvær, þrjár eða fleiri. Þá væri t.d. hægt að skrifa hvaða persóna er í uppáhaldi í hverri sápu eða hvaða persóna er í uppáhaldi núna og hver var í uppáhaldi fyrir lengri tíma síðan. Þið megið útfæra þetta eins og þið viljið.
Passið að skrifa ekki of stutt, ef greinin er það stutt að hún ætti að fara á korkana væri betra að reyna að lengja hana og skrifa um fleiri en eina persónu. Ég mæli með því að þið notið t.d. Word og teljið orðin. Ég tel u.þ.b. 400 orð vera algjört lágmark fyrir grein.
Annars eru engin önnur skilyrði í þessu greinaátaki en að greinin sé sæmilega læsileg og ekki mikið af innsláttarvillum. Það ætti að vera auðvelt fyrir hvern og einn að lesa yfir sína eigin grein.
Greinaátakið mun standa yfir til 1. desember.
Endilega takið þátt og komið með athugasemdir hér fyrir neðan. Gaman væri t.d. að vita hvort einhverjir séu til í að vera með, svona áður en jólaprófin og jólin sjálf skella á í öllu sínu veldi.
Karat.