Þar sem grein minni um Harold var ágætlega tekið ætla ég að halda áfram skrifum um Nágranna og setja á blað nokkrar hugleiðingar um Steph Hoyland.
Eins og þið eflaust vitið kom nýlega í ljós að Steph er aftur komin með brjóstakrabbamein. Þessi unga kona hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan Scullyfjölskyldan flutti í Ramseygötu.
Fyrst ber að nefna óheppni hennar í ástarmálum. Þó Steph sé bæði gáfuð og falleg hefur henni ekki gengið vel í ástarmálunum og hefur jafnan gengið betur við að eiga karlmenn að sem vini. Til að mynda á hún marga vini í gegnum mótorhjólaáhugamálið. Besti vinur Steph var á tímabili Drew Kirk sem nýlega hefur sést aftur á skjánum í draumum hennar. Drew var mikill öðlingur og sannur vinur Steph og eyddu þau miklum tíma saman í vinnu og við mótorhjólaáhugamálið. Drew var einnar konu maður og þó að Steph yrði yfir sig ástfangin af honum átti Libby Kennedy sem hann síðar giftist hug hans allan. Steph elskaði hann þó ekki minna en Libby alla tíð og syrgði hann sárt þegar hann lét lífið eftir fall af hestbaki.
Libby og Steph voru alla tíð góðar vinkonur og þær lentu saman í slysi á mótorhjóli. Steph slapp nokkuð vel en Libby slasaðist illa innvortis. Talið var að hún gæti ekki átt börn og leiddi það til þess að hún hætti með Drew vegna þess að hún vildi að hann næði í aðra konu sem gæti átt börn með honum. Sagan endaði þó vel og þau giftust og áttu saman einn dreng.
Áður en Drew kom til sögunnar var maður nokkur Woody að nafni sá sem var stærsta ástin hennar Stephanie. Það samband hafði endað illa þegar Woody var stungið inn í Warrinor fangelsið fyrir glæpi. Löngu seinna höfðu þau samband aftur og Steph heimsótti Woody í fangelsið eftir að hann hafði haft samband við hana. Hann fékk lausn úr fangelsi á ábyrgð Scullyfólksins og Steph féll fyrir honum á nýjan leik. Ef ég man rétt þá sagði Woody til einhverra glæpamanna og var eftir það í mikilli hættu á því að verða drepinn og Steph líka. Eitt sinn komust þau líka í hann krappan en sluppu sem betur fer. Woody ákvað að flytja langt í burtu í vitnavernd og á tímabili ætlaði Steph með honum en til að gera langa sögu stutta endaði það með því að hún fór aftur heim (þess ber þó einnig að geta að Woody reyndi líka að láta Steph halda að hann væri dáinn svo að hún yrði ekki í hættu en það gekk ekki eftir lengi).
Eins og þið sjáið hefur Stephanie ekki gengið vel með karla. En það versta er ekki komið enn. Loksins virtist lífið ætla að leika við hana þegar hún kynntist Marc Lambert. Marc virtist vera allt sem Steph hafði dreymt um. Hann var í góðri stöðu, átti nóga peninga til að veita henni hvað sem væri, viðkunnalegur, kurteis og umfram allt ótrúlega myndarlegur. Marc heillaði hana upp úr skónum og þau trúlofuðust. Steph hafði aldrei verið hamingjusamari. En á brúðkaupsdaginn kom í ljós að Marc hafði heillað fleiri en hana. Felicity systir Steph var heilluð af Marc og stungu þau af úr brúðkaupinu og skildu vesalings Stephanie eftir eina við altarið. Þá kom í ljós hversu mikill glaumgosi Marc Lambert var. Eftir að hafa leikið sér að Flick Scully um tíma var honum ekki lengur fært í Erinsbæ og lét sig hverfa.
Já, svona hefur lífið leikið Steph. Á löngum tíma varð hún svo ástfangin af Max Hoyland, ekkli með tvö stálpuð börn. Eftir langan tíma fóru þau að horfa framhjá aldursmuninum og náðu saman. Steph var heldur ekki lengi í þessu draumalandi því áður en leið á löngu greindist hún með brjóstakrabbamein sem hún leyndi umheiminn lengst af. Á endanum sigraðist hún þó á krabbameininu og þau Max giftu sig.
Steph þráði að eignast sitt eigið barn jafnvel þó að hún elskaði Summer og Boyd sem sín eigin börn. Eftir að hafa reynt lengi og hræðst það mjög að geta ekki eignast börn vegna krabbameinsmeðferðarinnar kom í ljós að vandamálið var Max megin og ólíklegt að þeim tækist að geta barn. Steph fór þá í glasafrjóvgun sem tókst ekki. Þau ákváðu þá að reyna að ættleiða barn en dauði Charlies afa hennar setti þar stórt strik í reikninginn því að Steph var ákærð fyrir að vera völd að dauða hans sem hún var dæmd fyrir án þess að þurfa að sitja í fangelsi. Steph var fegin að vera laus og hafði ekki efni á að áfrýja dóminum þó svo að hún væri saklaus. Þetta hafði þau áhrif að hún átti lengur ekki kost á því að ættleiða barn. Það var ekki fyrr en löngu síðar að henni hlotnaðist fé frá föður Max til að opna málið sem endaði með því að hún var sýknuð af öllum ákærum.
Það var þá sem Max og Steph fengu loksins góðar fréttir. Ung stúlka Kayla að nafni vildi gefa þeim dóttur sína til ættleiðingar. En sú sæla var stutt því að á endanum ákvað Kayla að ala dóttur sína upp sjálf. Þessi reynsla fór að sjálfsögðu afar illa með tilfinningalíf Steph ofan á allt annað sem hafði gerst.
Það var svo í sumar sem Steph varð ófrísk og lífið virtist fullkomið í fyrsta sinn. Hið ótrúlega hafði gerst og hún var orðin afar hamingjusöm. Fyrir stuttu síðan dundi ógæfan svo yfir aftur. Krabbameinið var komið á nýjan leik. Þrátt fyrir að vera hvött til þess að fara í meðferð og að vera sagt að meðferðin hefði lítil áhrif á ófædda barnið og væri nánast hættulaus hafnaði Stephanie meðferð. Hún vildi ekki hætta á að hið langþráða barn myndi skaddast og vildi heldur fórna eigin lífi en barnsins.
Nú er stóra spurningin hvernig þetta mál fer allt saman. Deyr Steph ásamt ófædda barninu? Fæðir hún barnið en deyr sjálf? Bjargast þau bæði og allt fellur í ljúfa löð? Mér fannst ýjað að því að Steph myndi verða látin deyja þegar Drew dró hana út úr dyrunum í einum draumanna og sagði að hún ætti ekki heima þarna lengur og ætti að koma með sér burt. Ég er viss um að þið hafið lesið það sama og ég á milli þeirra lína. Einnig að barnið væri hjá þeim eins og kom fram í öðrum draumi, en hvarf svo frá þeim, kannski til heims lifenda! En kannski eigum við bara að halda þetta.
Það verður í það minnsta spennandi að fylgjast með þessu næstu vikurnar. Ég er á þeirri skoðun að það sé löngu kominn tími til að Steph fái að vera hamingjusöm. Ég vonast til þess að þetta mál fái farsælan endi, að Steph fæði barnið og fái sjálf lækningu meina sinna.