Ég hef haldið mig töluvert til hlés í greinaskrifum undanfarið en hér kemur smá umfjöllun frá mér um Harold Bishop í Nágrönnum og breytta hegðun hans í þáttunum.
Eins og allir sem fylgjast með Nágrönnum vita fórst Bishop fjölskyldan í flugslysi og Harold og Sky standa eftir sem einu meðlimir fjölskyldunnar. Svo virðist vera sem þessi ótímabæri dauðdagi þeirra Davids, Lilliönu og Serenu hafi markað djúp spor í sálu Harolds sem annars hefur verið dýrlingur þáttanna í áraraðir.
Þrátt fyrir ævilangt starf í þágu æðri máttarvalda hafa þau ekki farið ljúfum höndum um aumingja Harold. Fyrst ber að nefna þegar hann missti ónefnda fyrri eiginkonu sína. Hún var reyndar aldrei í þáttunum en við vitum að hún er fallin frá. Næst missti hann ástkæra dóttur sína Kerry, móður Sky, sem hann var nýfarinn að eiga í nánu sambandi við. Hann og David sonur hans töluðu á þeim tíma ekki saman. Hann sást fyrst fljótlega eftir að Kerry dó en kom ekki aftur fram í Nágrönnum fyrr en u.þ.b. 10 árum síðar.
Eftir að Harold hafi loks náð saman við æskuástina sína, Madge Ramsey, hvarf hann í sjóinn. Hans var leitað en fannst ekki. Árum saman héldu áhorfendur að Harold væri allur. En svo var ekki. Þessi góðlegi hermaður Guðs birtist aftur nokkrum árum síðar sem hinn riglaði túpuleikari, Ted (til gamans má geta að áður en Harold hvarf spilaði hann á sekkjapípu enda á hann ættir að rekja til Skotlands. Deila má um hvort hljóðfærið er betra/skárra fyrir nágranna hans). Harold hafði misst minnið og kom fyrir tilviljun aftur til Erinsbæjar þar sem blessunin hún Helen Daniels bar kennsl á hann. Eins og flestir vita kom Harold aftur til sjálfs síns eftir töluverðan tíma og endurnýjuðu þau Madge þá heitin. Ég ætla ekki að telja upp allt sem gerðist í lífi Harolds, en staldra næst við dauða Madge. Madge fékk hvítblæði og stóðu veikindi hennar stutt yfir. Harold missti þá sína aðra eiginkonu. Með hjálp góðra vina reif hann sig upp og einbeitti sér að uppeldi fóstursona sinna, Tads og Pauls ásamt starfi fyrir hjálpræðisherinn. Þegar þeir svo flugu úr hreiðrinu leið ekki á löngu þar til Sky, David, Lilliana og Serena fluttu til hans. Ég held að flestir muni framhaldið ágætlega. Þau þrjú síðastnefndu dóu á skelfilegan hátt og Harold á erfitt með að sætta sig við dauða þeirra.
Í fyrsta skipti sé ég Harold algjörlega missa það. Eftir að hafa misst alla fjölskyldu sína (fyrir utan Sky) stendur hann einn eftir lifandi ásamt dótturdóttur sinni. Hann hefur allt sitt líf starfað fyrir hjálpræðisherinn og kirkjuna og verið hinn miskunnsami samverji sem ekkert má aumt sjá. En nú hefur eitthvað gerst. Harold þolir ekki meira. Hann hefur margoft verið prófaður og alltaf staðist þær prófraunir. En nú er mælirinn fullur að því er virðist og eitthvað er að gerast í höfðinu á Harold. Hann er sannfærður um að Paul Robinson eigi sök á því að flugvélin fórst og að ástvinir hans dóu. Ekki hjálpar það heldur til að Paul tókst næstum að spilla hjónabandi Davids og Lilliönu. David og Harold voru orðnir nánari en nokkru sinni fyrr fyrir slysið (rétt eins og með Kerry áður en hún féll frá). David var genginn í hjálpræðisherinn og farinn að spila á túbu. Lífið var orðin eins gott og það gæti orðið. Og á augnabliki var það verra en nokkru sinni fyrr. Getur verið að verið sé að leita að leið út úr þáttunum fyrir Harold eins og sumum hefur dottið í hug? Er Harold að klikkast? Lendir hann á hæli og kannski í næsta herbergi við Sindy? Fær hann heilablóðfall, hjartaáfall eða eitthvað annað því um líkt og deyr? Drepur hann Paul og lendir í fangelsi? Eða opnast augu hans allt í einu og verður gamli góði Harold á ný? Það er ómögulegt að segja eins og er, en svo sannarlega áhugavert umræðuefni.