Grunaði ekki Gvend að Reva kerlingin væri ekki dauð úr öllum æðum þótt hún hefði sem draugur veitt Josh og Annie blessun sína. Því miður veit hún ekki af því þar sem hún var draugur þá en gerði sér þó grein fyrir hver hún var. Í lifanda lífi heldur hún að hún heiti Rebecca og er ekki einu sinni búin að finna út úr því að Bud heitir í raun Joshua en ekki Buzz.
Ég spyr mig stundum að því hvort handritshöfundarnir í Leiðarljósi séu svona hrikalega hugmyndasnauðir eða hvort þeir séu á sýru. Þvílík steypa er þetta stundum, ef maður fer að skoða röklegt samhengi í söguþræðinum. Kannski þeir séu bæði hugmyndasnauðir og á sýru.
Ég get vel skilið að erfitt sé að útskýra fimm ára fjarveru og líklegan dauðdaga með öðru en heiftarlegu minnisleysi. En sú afsökun er að verða svolítið þreytt eftir áralanga útjöskun. Hinsvegar er það að láta hana búa hjá einhverjum sértrúarsöfnuði athyglisvert twist. Hver hefði ímyndað sér að Reva yrði saklaus sem ‘nýstraujað lín’ þegar hún loksins kæmi aftur?
Svo er þetta með að láta hana muna eftir nafninu Bud en hitta Buzz og láta hana halda að það sé sami maðurinn, er afskaplega langsótt, en fyndið. Það er samt ástæða fyrir því að lokka hana til Springfield – þangað sem hlutirnir gerast! Vonandi kemur hún sem fyrst þangað, en Guð má vita hvaða farartæki þetta afturhaldssama fólk sem hún bjó hjá, samþykkir fyrir ferðir á milli ríkja. Ég á alveg eins von á því að hún sé á ferð fótgangandi til að hægt sé að draga þetta sem lengst.
Svo er það þáttur Buzz í þessu öllu saman. Hann gjörsamlega kolféll fyrir Revu svo að áran hans virðist hafa breyst í hjarta sem blikkar í öllum regnbogans litum (eða svona næstum) samkvæmt yfirskynlegu viti Nadine.
Það veit því á gott í kvennamálum hjá Buzz á næstunni. Ég efast um að Nadine og Buzz reyni eina ferðina enn jafnvel þótt Carol sé farinn. Annað sem lá svolítið í loftinu, fyrir þá sem eru örlítið glöggskyggnari en Nadine á yfirskynlega hluti í sjónvarpsþáttum, var möguleikinn Buzz og Alexandra Spaulding.
Buzz og Reva og Buzz og Alexandra eru báðir spennandi möguleikar. Miðað við gang mála núna andar heldur köldu á milli Alex og Buzz þannig að Reva virðist vera líklegri kostur. En þetta er Leiðarljós – allt getur gerst!
Ég bara bíð spennt.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.