Hér kemur síðari hlutinn af persónulegu áliti mínu á persónunum í Leiðarljósi. Taka ber fram enn og aftur að ég dæmi fólk aðeins af þeim atburðum sem gerst hafa á þeim tíma sem ég hef fylgst með Leiðarljósi sem er rúmt ár.


Cooper fjölskyldan:

Buzz Cooper: Mestan hluta finnst mér Buzz hafa verið alveg ágætur, sérstaklega eftir að hann sagði frá hvers vegna hann kom ekki aftur úr hernum. Auðvitað var þetta samt frekar heimskulegt, að fara frá konu og tveimur börnum og koma ekki aftur. En það ekki hægt að erfa þetta lengi við hann þar sem hann er eflaust ekki með neitt mikið á milli eyrnanna þannig lagað.
Ég var lengi að ákveða með hvorri, Nadine eða Jennu, Buzz ætti að vera og er búin að fara alveg í hring því núna finnst mér að hann eigi að vera með Jennu og vona að þau muni ná saman aftur. Þau eru líka svolítið svona af sama sauðahúsinu.

Nadine Cooper: Aumingja Nadine. Hún veit ekki hvernig hún á að vera. Hún er búin að reyna allt. Hún er búin að vera rík frú og fátæk frú. Mér líkar miklu betur við hana eftir að hún skildi við Billy (eða öfugt) og fór að vera “venjuleg” manneskja. Ég get ekki annað en vorkennt henni þessa dagana. Hún hefur auðvitað gert slæma hluti, marga slæma hluti, en hún elskar hann Buzz sinn svo ég get ekki annað en vorkennt henni. Hún er góð manneskja, og ekkert svo langt inn við beinið einu sinni. En hún finnur bara ekki sinn stað í lífinu og gerir heimskulega hluti í staðinn.

Lucy Cooper: Lucy er bara æðisleg stelpa. Hún er hress og skemmtileg, mjög lífleg og henni gengur vel. Mér leist ekkert á hana þegar hún kom fyrst, en núna líkar mér rosalega vel við hana. Ég vona að hún nái aftur í Alan M.

Frank Cooper: Ég er eiginlega bara búin að fá leið á aumingja Frank. Hann hefur farið upp og niður; skemmtilegur og leiðinlegur til skiptis. Hann er í lægð núna og ekkert sérstakt sem ég man eftir sem er að gerast í kringum hann. Vonandi bara að hann nái að halda í Eleni.

Eleni Cooper: Hún er mun skemmtilegri sem Cooper en Spaulding. Ég kunni ekki við hana puntaða upp eins og jólatré. En hún er góð kona og stendur sig vel í vinnu.

Ýmsir:

Tangie Hill: Mér finnst Tangie ekkert spennandi persóna. Það er ósköp lítið markvert sem hefur gerst, það var bara þetta með tengslin við Roger. Mér finnst hún eiga eftir að gera eitthvað merkilegt. Hennar tími hlýtur að koma. Hún ætti að vera með Alan finnst mér, þar kæmist hún í spennu, ef hún þolir hana.

Blake Marler: Blake er æðisleg. Hún er bara frábær persóna. Hún er svolítið svona eins og lítill púki. Hún er svo snjöll að fá það sem hún vill fram. Hún reynir líka svo mikið að vera eggjandi og það passar eitthvað svo vel við þessa konu. Hún er bara frábær.

Ross Marler: Ég skil eiginlega ekki hvað Blake sér við hann. Þetta er ekkert spes karl. Sætur maður eins og mamma myndi kannski segja, annars veit ég ekki hvort hann sé nokkuð sætur maður! Þetta er svo sem reffilegur karl í góðu starfi, en kona eins og Blake….ég skil ekki hvað hún sér við hann. En hann er eldklár og svoleiðis svo að það kannski bætir hann eitthvað upp.


Jenna Bradshaw: Jenna greyið er búin að lenda í ýmsu. Mér líkaði illa við hana þegar hún stjórnaði Spaulding en þess á milli hef ég kunnað mjög vel við hana. Hún er bráðsnjöll og skemmileg. Yndislegt að hlusta á röddina hennar líka. Ég vona að hún fái aftur hann Buzz sinn, fyrst að hún vill hann. Ég reyndar skil ekkert í því, því Jenna er kona sem á að vera með manni eins og Alan. Klárum manni, ekki svona tja, sveitalúða.


Roger Thorpe: Ég hef “hatað og elskað” Roger til skiptis, svona eins og hægt er í sambandi við persónur í sjónvarpinu. Roger er á uppleið núna. Hann er fínn á meðan Holly hefur smá stjórn á honum. Hann var hins vegar alveg skuggalegur þegar málin með Jennu, óléttuna, Spaulding og ættleiðingu Peters voru í gangi. Roger er mjög snjall maður og fær sínu fram, alveg eins og Blake dóttir hans. Ég held hins vegar að Alan eigi eftir að klekkja á honum, því að þar hitti skrattinn ömmu sína.


Bridget Reardon: Fín stelpa. Hún gerði reyndar mikil mistök með því að láta Nadine plata sig í sambandi við Peter. En hún er ung stelpa og viðkvæm á þessum tíma og Nadine taldi hana á þetta. En ég kann vel við Bridget og ég er ánægð með að hún sé með barnið sitt og að hún sé með Dylan, sem er góður strákur þótt mér leiðist hann. Reyndar vildi ég helst að Bridget hefði ein forræði yfir stráknum sínum.

David Grant: David er góður strákur eins og ég held að flestir séu sammála mér um. Eiginlega of góður stundum. Hann er duglegur líka og rís strax upp aftur þegar hann hefur átt í erfiðleikum, en það hefur verið nóg af þeim undanfarið. T.d. má nefna þegar hann var eftirlýstur fyrir morð, hryggbrotinn af Kat og nú síðast vesenið sem fylgdi Gabrielu. Það er vonandi að það fari allt að ganga í haginn hjá David og að hann finni stelpu sem hentar honum vel. Mér finnst Gabriela kannski ekki alveg nógu vel til þess fallin.

Eve Guthrie: Ég hef haft ýmsar skoðanir á Eve. Þegar hún og Nick voru að byrja saman stóð ég með Eve og vildi að þau næðu saman. Síðan þegar Mindy kom aftur og Eve fór að hegða sér eins og geðsjúklingur (sem hún reyndar var) hætti mér að líka við hana og vildi að Nick og Mindy næðu saman. Mér var illa við Eve í svolítinn tíma eftir þetta eða þangað til að hún og Ed náðu saman. Mér finnst Eve standa sig mjög vel í sambandi við Michelle, það er eflaust mjög erfitt að taka saman við mann með unglingsstelpu sem hefur misst móður sína og inn á heimili þessarar látnu móður. Það er eitthvað sem ég held að fæstar konur myndu treysta sér til. En mér finnst Eve bara standa sig vel í þessu og er alveg hissa hreinlega hvað allt gengur vel. Hún hefur greinilega náð sér vel af sínum veikindum líka. Það er eitt sem ég skil samt ekki og það er hvað hún sér eiginlega við karl eins og Ed. Þetta er myndarleg kona og þrátt fyrir alla gallana í sambandi við veikindin ætti hún að gera náð sér í yngri og myndarlegri mann. En kannski er hún bara komin í örugga höfn og vel geymd hjá Ed.

Ed Bauer: Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um Ed. Ég horfði á einn og einn þátt þegar Maureen kona hans var á lífi og mér skilst að hún hafi verið mjög góð kona. Þess vegna skil ég ekki af hverju Ed var að halda fram hjá henni. Hann er greinilega ekki tryggur maður. Mér finnst hann líka svolítið fljótur að sökkva sér ofan í vandamálin, t.d. í sambandi við síðasta mál, í sambandi við bílinn, Dylan og drykkjuna. Hann er líka ferlega gamaldags eins og í sambandi við bíkíníð hennar Eve. Mér finnst Ed bara ósköp þurr og óspennandi persóna.

Michelle Bauer: Michelle er í mínum huga 13-14 ára, en ég hef ekki frekar en með litla Billy Lewis heyrt hvað hún er gömul. Mér finnst hún satt að segja svolítið bæld og auðvitað er hún ofvernduð af pabba sínum sem fer með hana eins og smákrakka, engin 13-14 ára stelpa sem ég þekki er jafn bæld og hún. Ég held að Michelle hafi farið mjög illa út úr móðurmissinum og vantar móðurímynd, sem mér finnst eins og að sé einna helst Vanessa. Þó er Michelle frekar nýfarin að treysta Eve sem henni líkaði ekki við áður, svo að ég býst við að Eve muni geta tekið að sér móðurhlutverkið, eða systrahlutverk í það minnsta. Ég vona að Michelle fari að fá aðeins meira frjálsræði svo hún nái að þroskast og fullorðnast í friði fyrir ofverndun föður síns.

Þá ætla ég að láta þetta gott heita. Ég veit að ég hef ekki fjallað um allar persónurnar í þáttunum en nógu margar samt.

Karat.