Hér að neðan ætla ég að skrifa grein í samræmi við nýjasta greinaátakið okkar. Þar sem ég hef svo oft skrifað um Nágranna langar mig að breyta aðeins til og fjalla nú í stuttu máli um álit mitt á helstu persónum Leiðarljóss. Það er alls ekki víst að ég muni skrifa um þær allar.

Ég vil einnig nýta tækifærið nú strax og biðja þá sem ekki hafa áhuga á Leiðarljósi að ýta bara á back takann núna og sleppa því að lesa þessa grein.


Ég hef hingað til ekki tjáð mig mikið um persónurnar í Leiðarljósi en nú finnst mér ég vera búin að fylgjast með þættinum nógu lengi til að geta lagt mat á persónurnar. Ég hef aðeins horft á þáttinn í eitt ár ef ekki minna svo að ég dæmi persónurnar aðeins eftir því sem ég þekki þær af, þ.e.a.s. atburðum sem hafa gerst eftir að ég fór að fylgjast með þáttunum. Þar af leiðandi mun ég ekki velta persónunum mikið upp úr, gömlum syndum skulum við kalla það. Svo að þið getið kannski glöggvað ykkur betur á því við hvað ég miða þá byrjaði ég að horfa á Leiðarljós þegar Alexandra Spaulding var týnd og Flecher Read fór að leita að henni. Á sama tíma voru Eve og Nick að byrja að draga sig saman, en ég þekkti ekki sögu hans og Mindyar á þessum tíma. Alan – Michael og Eleni voru líka gift á þessum tíma en farið var að slitna upp úr og Eleni og Frank orðin hrifin hvort af öðru. Nadine var á þessu tímabili að reyna að halda í Billy, sem var að skilja við hana. Látum þetta duga.


Lewis fjölskyldan:

Billy Lewis: Mér finnst hann ágætur karlinn. Það var skipt um leikara eftir að ég byrjaði að horfa á Leiðarljós en ég tók varla eftir því. Mér fannst þó að sá gamli og Billy, litli strákurinn, væru bara mjög líkir í alvöru. Billy er að vísu búinn að vera í fangelsi lengsta tímann síðan ég byrjaði að horfa, en eins og ég segi, kunni ég bara ágætlega við hann.

Billy litli: Hann er strákur sem er að komast á unglingsaldurinn, en er kannski svolítið barnalegur. Það er líka farið með hann eins og lítinn krakka. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað hann á að vera gamall en ég giska á svona 13-14 ára. Mér finnst þó að hann sé farin að vera aðeins karlmannlegri að því leyti að hann reyndi að verja Mindy systur sína og heimili sitt fyrir Nick sem var að reyna að riðjast inn fyrir stuttu síðan.

Josh Lewis: Josh er ágætur karakter líka finnst mér. Hann er reyndar svona persóna sem lætur lítið af sér kveða. Ég man eiginlega ekki eftir neinu sem hann hefur gert markvert. Mér fannst hann þó mun áhugaverðari á meðan hann “var með” Tangie, en þeirra samband var svo sem ekki neitt neitt. Ég hefði viljað að þau næðu almennilega saman. En ég skil Tangie svo sem alveg, maðurinn er drepleiðinlegur þannig lagað. Ekkert spennandi. Örugglega góður maður og ágætisvinur, en ekkert spennó.

Vanessa Lewis: Ég skil nú eiginlega ekki af hverju Vanessa telur sig vera eitthvert höfuð fjölskyldunnar. Hún er skilin við Billy. Mér finnst að hún eigi að breyta nafninu sínu aftur. Mér finnst þetta eiginlega bara fáránlegur leikaraskapur í henni. Og hún stjórnast í fyrirtæki Lewisanna. Það er kannski eitthvað sem ég hef misst af en mér finnst þetta ekki passa.
Mér finnst Vanessa vera snobbuð, þó að hún hafi lagast töluvert síðan hún byrjaði með sér miklu yngri manni, Matt Reardon. Mér finnst það í raun og veru alveg fáránlegt samband. Ekki vegna þess að það eru að minnsta kosti 20 ár á milli þeirra, heldur út af öllu þessu laumuspili. Það má engum segja frá að þau séu saman og það er auðvitað hin snobbaða Vanessa sem vill það ekki. Núna síðast kom hún með það yfirskin að hún þyrfti að segja fjölskyldu sinni frá þessu fyrst. Þetta sagði hún eftir að vera nýbúin að lofa Matt að þau skildu segja öllum frá sambandi sínu. Þetta er bara að fresta því óumfríanlega. Þau eiga eftir að hætta saman og innst inni held ég að Vanessa viti það fullvel.

Mindy Lewis: Ég get nú ekki kallað hana Spaulding. En ég veit að Lazytown finnst gaman að sjá skoðanir um Mindy svo það er best að ég komi með svolítið um hana. Ég dæmi Mindy ekki eftir fortíðinni sem á að vera svo hræðileg. Ég hreinlega veit ósköp lítið um hana. Ég hef bara það sem ég hef séð. Mér finnst Mindy ágætis stelpa. En hún er allt of vælin og allt of mikil pabbastelpa. Hún þarf greinilega að hafa einhvern karlmann til að hanga í, það er a.m.k. greinilegt. En ég lít ekki á hana sem vonda manneskju. Ég stóð alltaf með Mindy og Nick í sambandi við að ná aftur saman en núna vil ég, Mindyjar vegna að þau skilji. Miðað við hve ömurlegur Nick er orðinn þá finnst mér hann bara ekki nógu góður fyrir Mindy. Hann er ekki maðurinn sem hún þarfnast. Hún þarf svona týpu eins og Josh eða pabba sinn, tja, kannski vantar hana bara föðurímynd.

Dylan Lewis: Dylan er orðinn svolítið þreyttur ég verð bara að segja það, jafnvel þó að það hafi verið mikið í gangi í kringum hann undanfarið. Hann hefur orðið leiðinlegri eftir að þetta mál fór allt í gang og sérstaklega eftir að hann blindaðist, þó það sé svo sem skiljanlegt. Ég segi bara eins og Bridget um daginn, ég veit ekki hvað ég þoli þetta lengi.


Spaulding fjölskyldan

Nick Spaulding: Mér finnst Nick bara hundleiðinlegur. Þetta var svo góður strákur hérna fyrst þegar ég fór að horfa, en ekki lengur. Það er greinilegt að móðir hans er algjörlega búin að snúa honum og það til hins verra. Ég veit ekki hvort hann meinar allt það sem hann er að segja við Mindy núna, lofar öllu fögru. Ég trúi honum allavega ekki. Ég held að hann breytist ekki. Hann er leiðinlegur svona.

Alexandra Spaulding: Mér finnst kerlingin leiðinleg. Hún var týnd þegar ég fór að fylgjast með og mér fannst allir tala hálf illa um hana, eiginlega eins og að hún væri einhver hræðileg norn. Og ég fór að ímynda mér hana þannig. Mér finnst hún bara leiðinleg. Hún notfærir sér t.d. annað fólk. Mér líkar bara ekki við hana.

Alan Spaulding: Þann karl líkar mér við. Ég veit ekkert um hans fortíð eða hvað hann gerði af sér til að lenda á bak við lás og slá. En hann er klókur karlinn. Hann kann að spila með allt þetta lið í kringum sig og ég er spennt að sjá hvernig þetta fer allt saman hjá honum. Ég persónulega vildi að hann næði í Tangie, hún á ekki að vera með Alan-Michael.


Alan-Michael Spaulding: Hann hefur brallað ýmislegt sýnist mér. Það var fjallað frekar neikvætt um hann þegar ég fór að fylgjast með Leiðarljósi og mér fannst hann frekar leiðinlegur þá út af því. Núna hins vegar, eftir að hann varð svona hálf útskúfaður þá líkar mér vel við hann. Ég er hins vegar ekki nógu sátt við kvennamálin hjá honum. Mér finnst algjört rugl hjá honum að vera að reyna að ná í Tangie. Hún er bara ekki kona fyrir hann finnst mér. Ég vil sjá Alan M með þessari yndislegu stelpu sem hún Lucy er. Hún hafði eitthvað tak á honum. Hún er öðruvísi stelpa en hann er vanur að vera með og ég held að það hafi gert honum gott. Minnkað aðeins snobbið í honum. Ég vona að þau nái saman aftur.



Nú er þetta bara orðin svo langt að ég ætla að stoppa í bili, það er ekkert gaman að lesa allt of langar greinar. Framhald á morgun.

Karat.