Vikan í Nágrönnum
Þar sem mér finnst alltaf vanta inn fleiri greinar kemur hér önnur yfirlitsgrein frá mér um atburði liðinnar viku í Nágrönnum.
Eins og venjulega gerðist ýmislegt markvert í þessari viku. Það sem stendur hæst að mínu mati er að Susan fékk sér nýjan lögfræðing, Tim Collins sem Kartan vinnur hjá. Libby fékk mömmu sína til að hafa samband við Tim því að hún ætti að fá það sem hún ætti rétt á út úr skilnaðinum. Tim er, eins og við vitum, mjög harður í horn að taka og hann sagði Susan hreint út að Karl myndi eflaust svíkja hana um það sem hún ætti rétt á. Izzy myndi stjórna á bakvið tjöldin og eflaust innrétta barnaherbergið með peningum sem Susan ætti réttilega ef Susan færi ekki fram á að fá það sem henni bæri. Tim sagði að það þyrfti t.d. að meta tækin á læknastofunni og sjá hvers virði þau væru, því Susan væri jú meðeigandi í stofunni. Susan ætti líka rétt á að fá peninga sem Karl hefði lagt fyrir sem hennar kaup á meðan hún var heima og hugsaði um börnin þegar þau voru lítil. Þessa peninga ætti Susan að fá þar sem þetta hefðu verið launin hennar. Susan var svolítið treg í fyrstu að fara í hart, en þegar hún sá að Karl var að selja tæki af stofunni ákvað hún að fara í hart eins og Tim lagði til (reyndar sagði Karl síðar að hann hefði bara verið að selja tækið til að kaupa annað nýrra og betra). Karl er eins og gefur að skilja mjög ósáttur við þetta uppátæki hjá Susan.
Kartan var alls ekki ánægður þegar hann frétti að Susan hefði ráðið Tim Collins sem lögmann sinn. Kartan er starfsmaður Tims og getur nú átt von á að þurfa að vinna að skilnaði Kennedy hjónanna fyrir hönd Susan. Kartan hafði ætlað að vera hlutlaus í þessu máli, enda mjög tengdur bæði Susan og Karli þar sem hann bjó hjá þeim um tíma sem unglingur og var svo sannarlega einn af fjölskyldunni.
Á Hoyland heimilinu hefur líka ýmislegt verið að gerast. Steph langar svo til að eignast barn og hún getur vart hugsað um annað. Ekkert hefur gengið hjá þeim hjónum að geta barn og Steph vildi nú að þú færu í rannsóknir til að athuga hvort eitthvað væri að. Hún var aðallega hrædd um að hún gæti ekki eignast barn eftir geislameðferðina eftir krabbameinið. Steph var svo hrædd um þetta að þegar til kastanna kom ætlaði hún ekki að þora í rannsókina. Á endanum fóru þau Max bæði í rannsóknir. Í fyrstu sagði læknirinn að eitthvað liti út fyrir að vera að slímhúðinni í leginu á Steph og það þyrfti að rannsaka það frekar. Steph var auðvitað alveg eyðilögð yfir þessu og gerði ráð fyrir að geta ekki átt barn.
Í síðasta þætti fóru þau svo til læknisins sem kom með þær góðu fréttir að það væri allt í lagi með Steph og að hún gæti átt barn. Slæmu fréttirnar voru hins vegar þær að sæðisfrumumagnið hjá Max væri sorglega lítið og að það væri þess vegna sem Steph væri ekki orðin ófrísk. Læknirinn sagði að þetta gæti gerst með aldrinum hjá sumum körlum.
Og nú er það Max sem er alveg eyðilagður. Hann hefur ekki getað tekist á við þetta og vill ekki leyfa Steph að hjálpa sér í gegnum þetta. Hann er einn með hugsunum sínum. Steph líður þó svolítið betur en áður og segir að það sé auðveldrara að leita lausna á þessum málum heldur en það hefði verið hún sem væri ófrjó. Ég geri ráð fyrir að hún sé að hugsa um gervifrjóvgun.
Það gerðist fleira á Hoyland heimilinu í þessari viku. Summer sem er ofboðslega hrifin af honum Caleb sínum fær bréf frá honum í pósti ásamt gjöf. Hún er í sjöunda himni yfir gjöfinni en ákveður að lesa bréfið í einrúmi. Þegar hún les það verður hún fyrir gífurlegum vonbrigðum þar sem Caleb segir í bréfinu að þau eigi að slíta sambandi sínu. Summer átti eins og gefur að skilja alls ekki von á þessu þar sem Caleb hefur verið að koma að heimsækja hana landshluta á milli og gefið henni gjöf. Skilnaðargjöf að því er virðist. Einn daginn hringir þó síminn og það er Jack Scully sem svarar. Caleb var að hringja og spyrja um Summer. Hún vildi ekki tala við hann en Jack talaði heilmikið við hann og sagðist vera nýr kærasti Summer. Jack gerði Caleb afbrýðisaman með samtalinu og Summer var mjög ánægð. Kannski vegna þess að hún fékk ákveðna hefnd út úr þessu, kannski vegna þess að hún vildi gera hann afbrýðisaman og fá hann aftur. Hvort það er er ég ekki viss um.
Lyn Scully er komin aftur frá Bendigo. Hún kom með þær fréttir að pabbi Joes færi alveg að deyja og að hann ætlaði að veita Joe arfinn sinn fyrir fram og gefa honum hlut í búinu. Joe væri því ekki væntanlegur aftur til Erinsbæjar og kynni orðið mjög vel við störfin í sveitinni. Lyn sagðist einnig aðeins vera komin í bæinn til að selja húsið og ganga frá öllu áður en hún flytti svo sjálf alfarið til Bendigo. Susan og Lyn náðu að sættast, en þær voru hættar að vera vinkonur á tímabili því að Lyn var ósátt við að Susan og Tom væru saman. Þær söknuðu greinilega hvorrar annarrar og sættust fullum sáttum þegar Lyn kom yfir til Susan með bakka af kökum. Mér fannst ég greina tregðu hjá Lyn yfir því að vera að fara að flytja og ég held að hana langi ekki til þess innst inni. Það á eftir að koma í ljós hvort hún hættir við fluttinginn fyrst hún og Susan eru orðnar sáttar. Ég vil alls ekki að Lyn fari en mér finnst samt asnalegt ef Scully hjónin eiga ekki að búa saman!
Bishop fólkið er aftur í vandræðum með Svetlönku, móður Liliönu. Svetlanka kom í bæinn fyrir stuttu síðan og hafði aðeins haft samband við Serenu. Hún reyndi að telja Serenu á að tala við foreldra sína og reyna að fá þá til að hitta sig. Serenu var illa við að fara á bakvið foreldra sína en vildi ekki snúa baki við ömmu sinni. Svetlanka gaf Serenu m.a. dýrt armband sem foreldrar hennar tóku eftir. Serena sagðist hafa fengið það frá vinkonu sinni og á endanum var þessari vinkonu boðið í mat. Liliana var ekki ánægð þegar móðir hennar birtist og átti að vera þessi nýja vinkona Serenu. Svetlanka mætti allt of seint í matinn og bjó til sögu um að hún hefði lent í hremmingum á leiðinni, að mig minnir með leigubílstjóra sem hefði reynt að ræna hana eða eitthvað í þá áttina.
Liliana gleypti ekki við þessari sögu og vísaði móður sinni út. Þá sagðist Svetlanka vilja gefa þeim mikla peninga og að þeirri gjöf fylgdu engin skilyrði. Jeah right segi ég nú bara. Liliana lét ekki snúa sér í þessu máli og afþakkaði peningana. David fannst gjöfin þó svolítið freistandi.
Svetlanka sem hafði nú fengið bæði Harold (alltaf jafn saklaus) og Serenu til liðs við sig gerir sér nú fært um að rekast á Liliönu og David út um allt í bænum. Liliana neitar henni alltaf um að tala við hana, og ég bara skil það mjög vel. David setti henni í síðasta þætti úrslitakosti. Ef henni væri alvara með því að peningagjöfinni fylgdu engin skilyrði skildi hún gefa þeim peningana og fara svo burt og láta fjölskylduna í friði. Svetlanka þóttist verða mjög miður sín og ekki geta gert þetta. David fór áður en hún náði að svara þessum úrslitakostum eitthvað betur.
Að mínu mati er kerlingin að reyna að spila eitthvað á fjölskylduna. Miðað við hennar fortíð þá myndi þessi peningagjöf vera háð einhverjum skilyrðum. Ég held að þau myndu fá að heyra það á hverjum degi að hún hefði bjargað þeim o.s.frv. Eitthvað fleira hlýtur hún líka að vera með á prjónunum. Ég er ekki viss um hvað en það hlýtur að fara að koma í ljós. Það er engin vafi í mínum huga um það að Svetlanka er ekki öll þar sem hún er séð og hún hefur eitthvað vafasamt í hyggju. Hún er ekki að þessu að góðmennsku sinni einni saman. Og mér finnst virkilega ljótt af henni hvernig hún spilar með Serenu, segist vera orðin gömul, vilji sættast áður en hún deyi o.s.frv.
Af Stuarti er það helst að frétta að hann er búinn að vera að hugsa mikið um hvort hann eigi að segja til Mac. Hann ráðfærði sig við yfirmann sinn á lögreglustöðinni. Sá gaf honum þau ráð að segja ekki til samstarfsmanns nema hann væri alveg viss um að viðkomandi hefði framið glæp. Hann sagði honum jafnframt að löggur væru ekki hrifnar af félögum sem væru kjaftaskar og að sá sem kjaftaði frá gæti átt eftir að lenda í vandræðum með félaga sína. Í lok síðasta þáttar gerði Stuart svo upp hug sinn og ákvað að segja frá öllu.
Sindi var orðin mjög leið á því að vélmenni strákanna fengi allan tíma Körtunnar. Hún setti honum að lokum úrslitakosti, annað hvort væri það hún eða vélmennið. Satt að segja held ég að Kartan sé að fá leið á henni því að hann vildi alltaf frekar vera að vinna með vélmennið en að vera með Sindi og svo var hann farinn að tala um hvað það væri gott að vera bara með svona “part time” kærustu sem hann gæti bara hitt þegar hann vildi.
Sindi reyndi að fá samúð hjá konunum í götunni en allar voru of uppteknar nema Summer. Sindi, Summer og Jack ásamt góðri hjálp bjuggu til sitt eigið vélmenni sem keppti á móti vélmenni strákanna og sigraði. Svo virðist sem strákavélmennið sé nú úr sögunni eftir tapið á móti Sindi.
Og að lokum ein smá frétt. Nina er komin aftur. Hún birtist á tröppunum hjá Jack, sagðist vera með heimþrá og vera komin í stutta heimsókn. Þegar hún fór kyssti hún Jack í dyrunum. Það er spennandi að vita hvort hún sé komin til að vera eða hvað.
Þetta er orðið rosalega langt og ég held að ég stoppi bara hérna. Endilega bendið á ef eitthvað merkilegt sem gerðist í síðustu viku vantar inn í greinina og komið með ykkar eigin hugleiðingar.
Karat.