Hér kemur svona smá upprifjun á atburðum liðinnar viku í Nágrönnum fyrir þá sem hafa af eitthverjum ástæðum misst af þáttunum eða langar bara til að sjá nýja grein.
Izzy er farin að fá hræðilegar martraðir um Darcy. Hún dreymir að hann segi Karli frá því að hann eigi ekki barnið og ásæki hana. Af þessum ástæðum er hún mjög hrædd og vör um sig og bægir Karli í raun og veru frá sér. Segir að hún verði að takast á við draumana sjálf og að Darcy skipti engu máli o.s.frv.
Scott er hættur að taka lyfin því þau gerðu hann svo daufan. Hann var orðinn svo fúll og bara andlaus. Það var eins og persónuleikinn hefði bara horfið þegar hann var á lyfjunum og satt að segja var það farið að fara í taugarnar á mörgum, eins og t.d. Serenu og Sky, sem reyndi að hressa hann við án árangurs. Scott tók svo ákvörðun um að hætta á lyfjunum í samráði við Susan og Karl. Í staðinn er hann farinn að reyna meira á sig líkamlega og borða hollan mat. Hann segist verða að þreyta sig svo hann geti betur einbeitt sér í skólanum og við heimanámið. Vonandi gengur þetta allt saman vel hjá honum.
Strákarnir í strákahúsinu eru búnir að smíða vélmenni en önnur krá skoraði á krá Lous í vélmennakeppni. Sindi tók þessu nú frekar illa þar sem Kartan hafði lítinn tíma fyrir hana og vildi frekar vera að vinna í vélmenninu en vera með henni. Hún fékk s.s. allt of litla athygli að hennar mati. Þess vegna steig hún óvart á fyrstu útgáfu vélmennisins og strákarnir urðu að byrja upp á nýtt. Sindi virðist vera til óheilla í kringum vélmennið því um leið og hún birtist fer allt að ganga illa. Að lokum tókst þeim að koma vélmenninu í gang og tóku þátt í vélmennakeppninni og gekk bara vel. Það var skorað á þá í aðra keppni.
Það er allt í rugli hjá Jack. Hann var útskrifaður af spítalanum og Steph vildi hafa hann hjá þeim á meðan hann væri að jafna sig. Jack ætlaði sennilega að fara að ná sér í dóp þegar hann brotnaði niður. Steph studdi hann og fór burt með hann úr bænum í bústað vinar síns. Þar aftur á móti var Jack frekar leiðinlegur við hana og vildi ekki hjálp og gagnrýni.
Mac og Stuart byrjuðu saman. Yfirmaður þeirra í löggunni tók eftir að það væri eitthvað í gangi á milli þeirra og varaði Stuart tvisvar við að blanda saman vinnu og rómantík. Stuart kom að Mac á kránni að tala við mann sem hann vissi að var viðriðinn ránið hjá Jack og ætlaði að taka hann fastann. Mac stoppaði það og að lokum viðurkenndi hún að hún hefði staðið fyrir mörgum ránum ásamt þessum manni til að fjármagna eiturlyfjaneyslu og að hún væri föst í þessu. Aumingja Stuart veit ekki hvað hann á að gera, segja frá eða ekki. En það er greinilegt að hann ætlar ekki að halda áfram að vera með henni. Ég vona satt að segja að hann segi yfirmönnum sínum frá þessu og að Mac fái makleg málagjöld.
Það byrjaði ný stelpa í skólanum og að vinna á kaffistofunni og hún heitir Lana. Hún er frænka Sindiar. Lana virðist ætla að hasla sér völl með því að tala leiðinlega um aðra. Hún talaði fyrst um að Harold væri leiðinlegur og síðan talaði hún frekar illa um Lou sem var að sinna samfélagsvinnu (skúra) í skólanum. Sky er illa við Lönu en hún og Serena náðu ágætlega saman, en þær voru báðar að byrja að vinna á kaffistofunni. Það er vonandi að Lana lagist og verði ekki svona leiðinleg ef hún á að endast eitthvað í þáttunum. Vonandi eru þetta bara svona “nýja stelpan” stælar í henni.
Það gerðist eflaust margt fleira í vikunni og endilega komið með innleg ef þið munið eftir eitthverju merkilegu sem ég hef sleppt úr. Nú er spennandi að sjá hvernig þessi mál fara núna í vikunni. Ég vona persónulega að við fáum að sjá meira af þessum málum með Mac og Izzy í næstu þáttum.
Karat.