Uppáhalds sápan mín Ég ætla að láta verða af því að skrifa smá grein í nýjasta greinaátakinu um það hvernig ég heillaðist fyrst af minni uppáhalds sápu og af hverju ég held alltaf áfram að fylgjast með henni.

Nágrannar eru uppáhaldssápan mín. Ég byrjaði að horfa á Nágranna fyrsta árið sem þeir voru sýndir á Íslandi, það var sumarið 1990. Ég var nýkomin úr fríi í Hollandi og á meðan ég var þar úti hætti Stöð tvö að sýna sápuna sem var í uppáhaldi hjá mér þá og hét Santa Barbara. Mig minnir að sú sápa hafi verið með spennuívafi en annars í svipuðum dúr og kannski Glæstar vonir, samt ekki alveg eins mikið drama. En hvað um það, þátturinn Santa Barbara var sem sagt tekinn af dagskrá af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Við af þessum þáttum tóku ástralskir þættir sem kölluðust Nágrannar og voru víst vinsælir víða um heiminn. Ég var vön því að setjast fyrir framan sjónvarpið á ákveðnum tíma til að horfa á Santa Barbara og ég ákvað að halda áfram að glápa á sápu á þessum tíma og ákvað því að sjálfsögðu að gefa Nágrönnum séns. Þá hafði ég aðeins misst af nokkrum þáttum á meðan ég var í fríinu í Hollandi.

Nágrannar árið 1990 voru öðruvísi en Nágrannar í dag en samt alveg eins. Þetta eru þættir um venjulegt fólk sem lendir í venjulegum aðstæðum sem við öll sömul gætum lent í hvar sem er í heiminum (ekki glamúr fólk eða uppar eins og t.d. í Glæstum vonum og Leiðarljósi). Það er það sem heillaði mig við Nágranna og heillar mig enn í dag. Það er jafnfram þetta sem heldur mér enn við skjáinn.

Það sem var öðruvísi þá voru helst til gæðin á myndunum, en þau eru orðin betri í dag. Lagið í upphafi þáttarins var spilað í heilu lagi á undan og eftir hverjum þætti en ekki stutt stef eins og er í dag. Þá var lagið á tímabili á íslensku og ég man það enn í dag: “Grannar, allir þurfa góða granna” o.s.frv.
Tískan hefur að sjálfsögðu breyst og það er alltaf skemmtilegt að rekast á spólu með gömlum Nágrannaþáttum og horfa á fötin og endurnýja kynnin við gamlar persónur. Það er eins og að hitta gamla vini eftir mörg ár. Það er líka skemmtilegt að sjá hvað húsin breytast að innan eftir því sem tíminn líður og hver býr í þeim.

Þegar ég byrjaði að horfa á Nágranna voru aðalpersónurnar í Robinson og Ramsey fjölskyldunni. T.d. má nefna þau Scott og Charline, Jim og Helen, Madge, Max, Henry o.fl. Í gegnum árin hafa persónur horfið á braut og aðrar komið í staðinn eins og alltaf. Sumar elskaði maður og hataði aðrar, sumra saknar maður en öðrum er maður næstum búinn að gleyma. Þegar öllu er á botninn hvolft eru Nágrannar þó vinalegir þættir sem ég að minnsta kosti á auðvelt með að samsama mig við. Ég efast ekki um að margir hafa sömu sögu að segja.

Eftir að hafa horft á Nágranna í 15 ár hef ég alveg jafn mikinn áhuga á þeim og áður. Það er reyndar ekki alveg jafn mikilvægt og í gamla daga að vera “komin heim” fyrir Nágranna, því nú eru þeir sýndir tvisvar á dag og endursýndir um helgar. Það er líka allt í lagi að missa úr nokkra þætti ef svo ber undir (ég missti úr eitt sumar eitt árið og nokkra mánuði annað ár mestmegnis vegna dvala erlendis ). En maður snýr alltaf aftur til Nágranna og heldur áfram að horfa á daglegt líf vina sinna í Ástralíu.


Karat.