Þau eiga sér langa sögu skötuhjúin sú … en hverjum myndi ekki langa að sjá þau ná saman að nýju? Ganga í hnapphelduna, stofna heimili og fjölskyldu … en það var einmitt það sem kom upp á milli þeirra í fyrri atrennunni. Nú hafa þau bæði vaxið að árum, og að minnsta kosti annað þeirra að viti líka! (Skal engum dyljast að þá á ég við Darren, því að mínu mati fer persóna Libbyar þverrandi með hverjum deginum sem hún prýðir skjáinn).
Margir Grannaaðdáendur virðast, af skrifum hér að dæma, ekki hafa notið þess að sjá blómaskeið Libbyar og Darrens og því ekki úr vegi að rifja aðeins upp … Eftir að Darren sneri aftur í Ramseygötu eftir að hafa verið í fangelsi fyrir rán og að hafa skotið Michael Martin (fyrrum íbúa götunnar) fóru hann og Libby að draga sig saman, foreldrum hennar til mikils ama (sáu þó að sér að lokum, sér í lagi Susan). Það mætti segja að samband hans við Libby hafi „bjargað“ honum frá frekari glæpum (svo og stuðningur Lous, sem þrátt fyrir mjög stirt samband í fyrstu ákvað að standa með þessum syni látinnar konu sinnar). Allt lék í lukkunnar velstandi hjá þeim og Darren fór út í fyrirtækjarekstur með Mal bróður hennar, en þeir keyptu í sameiningu Handy Sam’s þúsundþjalasmiðsfyrirtæki Sams Kratz sem var íbúi götunnar um tíma (stelpur muna eflaust betur eftir honum en karlkyns aðdáendur þáttanna þar sem hann var óttalegt kjútipæ).
Enginn er í paradís til lengdar og svo fór að heimur turtildúfanna hrundi … fyrstu alvarlegu merkin um brestina í sambandi þeirra voru þegar að systkinin þvínguðu Darren til að kenna Cat, kærustu Mals, á bíl þrátt fyrir kröftug mótmæli þeirra beggja (ástæðan var sú að þau fundu fyrir ákveðnu chemistyi á milli sín, sem þau kærðu sig ekki um að fylgja eftir en treystu sér samt ekki í baráttunni gegn því). Því fór sem fór og bílatímarnir enduðu með heitum kossi sem Mal svo óheppilega varð vitni að og allt fór í háaloft! Með tíð og tíma jöfnuðu þó bæði pörin sig á þessu og héldu sínu striki (annað parið reyndar í London) og allt var gott um tíma … en svo byrjaði Libby í Háskólanum og eðli málsins samkvæmt fór lif hennar að miklu leyti að snúast um skólann – þá bæði námið og félagslífið – en hugur Darrens lá til þess að stofna fjölskyldu og heimili … einn góðan veðurdag (það var reyndar mikil dramatík í gangi) uppgötvuðu þau (samt fyrst og fremst Libby) að samband þeirra hafði runnið sitt skeið á enda og tími til kominn að róa á önnur mið, hún sagði því nei við bónorði hans … hringurinn hvílir á botni Lassitersvatnsins en við skulum vona að sambandi þeirra bíði betri örlög :)
Eftir sambandsslitin hélt Darren á braut og Libby, eins og alkunna er, fann ástina að nýju í örmum Drew og er nú einstæð móðir … en nú er svo komið að leiðir þeirra hafa mæst að nýju og það sem allir sannir Libby+Darren aðdáendur (þeir sem trúðu aldrei alveg að Drew væri hennar eini sanni og biðu alltaf eftir að Darren kæmi upp á milli þeirra) vonast eftir að sjá núna mætti lýsa nokkurn veginn svona …
Libby og Darren snæða saman kvöldverð og rifja upp gamla og góða tíma auk þess sem þau segja hvort öðru frá sorgum og sigrum síðan þau sáust síðast … Margs er að minnast og margt sem á daga þeirra hefur runnið svo að kvöldverðurinn er ekki nóg og þau ákveða að hittast aftur, en þegar þau er að kveðjast beygir Darren sig í átt til hennar og þau deila sínum fyrsta kossi í mörg ár … hann er alsæll en hún óviss – er rétt að hefja samband að nýju með Darren? Er hann ógn við minningu Drew, eða er kominn tími til að halda lífinu áfram?
Hún velur seinni kostinn og fer að eyða síauknum tíma með Darren, bæði „fjölskyldutíma“ og svo einnig gæðastundum … áður en langt um líður er hún búin að átta sig á að sá eini rétti fyrir hana er Darren – hefur alltaf verið og mun alltaf vera … þau ákveða því að stíga næsta skref og setja upp hringa, flytja inn saman og taka til við að skipuleggja brúðkaupið. Þrátt fyrir öll leiðindin og illindin innan Kennidy-fjölskyldunnar, slíðra þó allir sverðin og samgleðjast þeim í brúðkaupinu. Sú stund verður svo til þess að Karl, Susan og börnin læra hvernig þau geta átt góðar og uppbyggilegar stundir saman þrátt fyrir að foreldrarnir hafi skilið að skiptum …
Ef þetta gerist ekki (það er að Libby og Darren nái saman, þó það sé ekki nákvæmlega svona) segi ég þar með skilið við Nágranna (ekkert verið að spara stóru orðin!) því að ég verð eyðilögð á sál og líkama … því alveg frá þvi að þau hættu saman er ég búin að eiga þá von í grannabrjóstinu að þau nái saman að nýju … ef það gerist ekki núna tel ég litlar sem engar líkur á að það gerist:( og því finnst mér Grannarnir hafa svikið mig, ef svo verður, með því að láta hann koma aftur því það drepur vonina … Það er nefnilega betra að vona en vita að af henni verður ekki!