Scott er án efa öllum þeim sem fylgjast með Nágrönnum í dag að góðu kunnur. Scott er frændi Jarrods Rebecci en pabbi hans og móðir Scotts eru systkini.
Scott er ættaður frá smábænum Colac þar sem fjölskylda hans býr í hjólhýsagarði (eða það minnir mig). Scott var orðinn mjög erfiður og foreldrar hans sendu hann til dvalar hjá hinum virta lögfræðingi, fyrrum ólátabelgi og náfrænda sínum Jarrodi. Fjölskylda piltanna man vel eftir hve erfiður Jarrod, eða Kartan eins og hann er oftast kallaður var sem barn og unglingur. En það rættist heldur betur úr pilti, hann lauk langskólanámi með stæl og er farsæll í starfi og gengur bara vel. Hann er því frábær fyrirmynd fyrir erfiða frændur sína eins og Tad og Scott.
Þegar Scott birtist fyrst skein af honum hvernig hann ætti eftir að vera; uppátækjasamur vandræðagemsi. Í hans fyrsta þætti hljóp hann nakinn inn á íþróttavöll og lögreglan tók hann höndum. Þar kom það í hlut lögreglunemans Stuarts að gæta stráksins sem lét öllum illum látum og reyndi meðvitað eða ómeðvitað að koma hinum unga nema í vandræði hjá yfirmönnum sínum. Það var þá þegar Kartan frændi hans kom og sótti hann. Scott þurfti að fara fyrir rétt vegna atviksins á íþróttavellinum en fyrir tilstuðlan frænda síns og fleiri var hann látinn laus í hans umsjá.
Síðan hefur Scott búið í Ramseygötu. Hann naut þess að búa í strákahúsinu á nr. 30 og brallaði ýmislegt þar. M.a. gerðist hann kvikmyndatökumaður í þættinum hennar Sindiar, sem gekk nú misvel (hann hvarf með vélina) en að mestu leyti ágætlega. Þegar Kartan týndist og lá síðan í dái á spítala tók Susan Kennedy strákinn að sér en henni hefur alltaf verið ákaflega hlýtt til hans þrátt fyrir öll uppátækin. Henni gengur vel að hjálpa honum að vinna bug á ofvirkninni, en það kom í ljós þegar Karl læknir skoðaði hann að hann væri ofvirkur. Þessi sjúkdómur var ástæða þess að Scott var svona erfiður, alltaf að koma sér í vandræði og framkvæma fáránlegustu hluti án þess að hugsa. Karl vildi setja Scott á lyf sem ynnu bug á sjúkdómnum en svo fór sem fór að hann var ekki settur á þau heldur ætlar að reyna að sigrast á honum, eða lifa meðvitað með honum réttara sagt með aðstoð góðra vina. T.d. Susan, Körtunnar og síðast en ekki síst Serenu, sem nú er kærasta Scotts. Scott varð hrifinn af Serenu strax þegar hann sá hana og með tímanum varð hún einnig hrifin af þessum furðufugli, þó svo að hann kæmi oft illa fram við hana (sem var vegna þess hversu hrifinn hann var af henni). Scott bjó meðal annars til úrklippuveggspjald handa Serenu sem hún kallaði barnalegt, Scott varð mjög sár, enda hafði hann lagt sig allan fram. Það var í framhaldi af þessu sem Serena áttaði sig á tilfinningum Scotts í hennar garð, en þá var hún líka farin að bera tilfinningar til hans í brjósti. Þau fóru saman á stefnumót sem endaði með því að Scott gubbaði yfir Serenu. Það var svo daginn eftir sem þau kysstust í fyrsta sinn og hafa verið saman síðan, þó svo að foreldrar Serenu séu ekki hrifnir af vali dótturinnar. Þau læra þó að lifa með því þar sem parið hefur gert þeim ljósa afstöðu sína. Scott gerir sitt besta til þess að heilla tengdaforeldrana og það tekst nú misvel hjá honum, en hann gerir sitt besta. Serena á það þó stundum til að skammast sín fyrir uppátæki og barnaskap kærastans síns, en það er samt eitthvað sem fær hana til að vilja vera með honum áfram. Scott er nú auðvitað svolítið heillandi persóna.
Það er ýmislegt sem ég myndi vilja sjá gerast hjá Scott. Fyrst og fremst er það að hann vinni bug á sínum sjúkdómi og geti hugsað betur um hlutina áður en hann framkvæmir þá. Hann mætti minnka prakkarastrikin, þó svo að það séu þau sem gera hann að svona sterkum karakter. Þegar Scott byrjaði í þáttunum þá þoldi ég hann ekki. Fannst hann bara ömurlegur. En hann hefur vanist vel og eftir að maður veit hvað er að honum þá skilur maður betur af hverju hann er eins og hann er (þess ber að geta að ég veit töluvert mikið um ofvirknisjúkdóminn sem hjálpar mér að sýna honum skilning).
Það væri alveg hreint óskandi að Scott næði að halda í Serenu því ég held að hún sé góð fyrir hann. Hún getur aðeins róað hann og stoppað hann af. Það væri jú varla gott ef hann væri með algjörri svona prakkarastelpu alveg eins og hann sjálfur er. Ég myndi vilja að Scott héldi áfram að búa hjá Susan þó að Kartan sé kominn heim. Ég held að það geri honum gott að búa hjá henni, hún er bæði kennari og gamall skólastjóri og hefur lag á að tjónka við unglinga og ég held virkilega að Scott þurfi á slíku aðhaldi að halda. Frændi hans er síðan bara í næsta húsi þegar Scott vill hvíla sig á eldra fólkinu og komast í smá afslappelsi.
Ég vona svo sannarlega að Scott muni klára sitt nám og það er ekkert komið í ljós sem segir að honum muni ekki takast það. Síðan er bara að sjá og vona að það rætist úr honum rétt eins og óþekktaranganum honum Jarrodi frænda hans.
Karat