hvað er hún nú að kvarta? spyrjið þið ykkur kannski en… algerlega lögmætt kvart og kvein í þetta skiptið.
Málið er bara hún Melinda Sue Lewis og “illindi” hennar í garð Julie. Hver er hún að vera með einhvern siðaboðskap um samskipti para?
Er Mindy ekki manneskjan sem lét Rick róa fyrir Roger, eftir að hafa verið lengi, lengi með þá báða í takinu? Hún var nú öllu eldri en Julie svo það mætti nú segja að hún hafi átt að vera þroskaðri (eða hugsun hennar öllu heldur ef maður talar eins og þeir sem vitið hafa). Er það ekki líka Mindy sem var að leyna unnusta sinn ýmsu (mörgu hverju all merkilegu, eins og til dæmis hverjir foreldrar hans voru) allt fram á síðasta dag? Maður spyr sig því hvaða rétt hún hafi til að vera að predika yfir Julie um hvernig eigi að koma heiðarlega fram við maka sinn.
Verð nú bara að segja að þegar að hún fór sem hæst í siðaboðskapnum gat ég ekki annað en hlegið og hugsað “look who's talking!” (viðurkenni það reyndar alveg fúslega að þessi hugsun var töluð upphátt, svo hissa varð maður á hræsninni í stúlkunni).
Það er eitt annað sem fékk mig til að skrifa þetta greinarkorn um hana Mindy Sue (ef þið eruð ekki búin að fatta það nú þegar þá er hún mjög neðarlega á vinsældarlistanum) en það voru orð hennar við Gilly. Þau voru eitthvað á þessa leið: “Ég veit hvernig það er að vera notuð af Roger”. Halló? Voru fleiri en ég sem spurðu sig að því um hvað hún væri að tala?
Mergurinn málsins er nefnilega sá að Roger var langt í frá að nota hana. Hann var eins ástfanginn af henni og honum er unnt. Hann hætti öllu sem hann átti fyrir hana, það er öllum veraldlegum eignum sínum en það er náttúrulega allt í augum hins eina sanna einstaklings- og efnishyggjumanns Rogers. Hún var mjög viljugur þátttakandi í þessu sambandi og eftir fýlukastið (kannski hægt að skilja það) þá átti hún í mesta basli með að losna við hann. Hann var lengi vel eins og ástfanginn hundur á eftir henni. Reyndi meira að segja sitt besta til að koma í veg fyrir hefndaraðgerðir af hendi Alexar (hvenær kemur hún aftur?).
En snúum okkur aðeins að orsökum fýlukastsins hennar Mindyar og þeirri afbökun staðreynda sem hefur verið síðan. Prinsessan sem aldrei gerir neitt rangt varð ólétt eftir eiginmann einnar af sínum bestu vinkonum eftir að hafa átt í “hot and heavy” ástarsambandi við hann lengi. Eins og, því miður, vill gerast þegar mindy þyngist undir belti þá missti hún fóstrið. Þegar Roger var á leiðinni til hennar mætti Hart á svæðið. Hann sagði honum að hann væri týndi sonurinn. Allir hljóta að sjá að Roger þurfti að sjálfsögðu að ræða málin við Hart, soninn sem hann hafði aldrei hitt og vissi ekki að væri til (ef ég man rétt). Hann gat nú ekki bara látið hann hanga í lausu lofti, þrátt fyrir að Mindy væri á spítala. Auðvitað þurfti hann að útkljá þetta mál áður en hann hélt förinni áfram til Mindy. Hann kom eins fljótt og hann gat. Skiljanlega fannst Mindy hún í hita leiksins svikin, en að vera enn föst í því að hann kom ekki á nóinu er ekki merki um mikið annað en sjálfhverfu.
Í ljósi þessa staðreynda finnst mér mjög leitt að það sé endalaust látið í veðri vaka að Roger hafi verið vondi kallinn í sambandinu við Mindy og að hann hafi bara verið að nota hana. Þannig var það ekki. Roger hefur hins vegar notað marga, má þar nefna Alex, AM, Jennu, John Davis o.fl. o.fl. En Melinda Sue Lewis er ekki einn af þeim sem Roger hefur notað.