Nú líður senn að brúðkaupi Steph og Marc og stendur gæsateitin nú yfir. Flick er ástfangin af Marc og svo virðist sem Marc sé ekki alveg viss í hvorn fótinn hann á að stíga.
Marc hefur alltaf verið frjáls, dálítill glaumgosi, sem dýrkar að hafa engar fastar rætur. Að geta komið og farið þegar honum sýnist. Nú virðist Marc vera kominn í einhverja tilfinningakrísu sem mun örugglega enda í einhverri rosalegri sprengju.
Ég held persónulega að það verði ekkert úr þessu brúðkaupi. Ég tek það fram að ég hef enga hugmynd um hvort ég hafi rétt fyrir mér. Ég meina, þetta er allt saman dálítið ótrúlegt til að geta verið satt!! Marc er alltof óákveðinn á að líta. Miðað við viðbrögð hans þegar Steph sagði honum frá óléttunni þá virðist hann ekki vera neitt ofsakátur og ég held að hann hætti við á brúðkaupsdaginn og viðurkenni ást sína á Flick.
Annað sem ég gæti trúað að gerist ef spá mín reynist ekki rétt er að hann láti sig hverfa, skilji eftir bréf og óski þess að Steph fari í fóstureyðingu.
Ég verð samt að segja sem mikill aðdáandi Steph þá finnst mér hún orðin einum of stelpuleg. Ég fílaði hana sem mótorhjóla-leðurtýpu sem er “one of the guys” Núna hoppar hún eins og lítil skólastelpa í snú snú yfir því hvaða blóm skulu vera í brúðkaupinu. Þetta er sko ekki sú Steph sem við þekkjum…ónei, nei.
Það er ljóst að framundan er spennandi uppgjör heitra tilfinninga því ég get ekki ímyndað mér að þetta brúðkaup fari vandamálalaust fram. Svo mun væntanlega allt fara í háaloft þegar Lyn og Joe komast að því að Connor og Michelle eru að draga sig saman. Hvað ætli að málið sé með Connor? Það kæmi mér svo ekkert á óvart að hann hefði eitthvað einstaklega óhreint í pokahorninu. Hann er leyndardómsfullur piltur mjög.
Lifið heil og glápið daglega ;)